Hildensaga Brünhild, drottning Íslands, í forgrunni í nýju verki eftir Ferdinand Schamlz hjá Deutsches Theater.
Hildensaga Brünhild, drottning Íslands, í forgrunni í nýju verki eftir Ferdinand Schamlz hjá Deutsches Theater. — Ljósmynd/Thomas Aurin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spennandi leikhús sem þorir að stuða og stinga á kýli, ekki síst vegna þess að verkið varpar fram þeirri áhugaverðu spurningu: Eru voðaverk í þágu betri heims réttlætanleg?

AF LISTUM

Adolf Smári

Unnarsson

Síðustu frumsýningar leikársins eru flestar að baki í Berlínarborg og með hækkandi sól skella leikhúsin brátt í lás yfir sumartímann. Tilvalið er því núna að líta yfir farinn veg. Í fimmtudagsblaðinu fyrir viku var fjallað um sviðslistahátíðina Theatertreffen, árlegan viðburð þar sem tíu eftirtektarverðar sýningar frá Þýskalandi, Sviss og Austurríki eru settar upp í borginni. Þar kenndi ýmissa grasa en nú beinum við sjónum okkar að því sem gerðist í sjálfum leikhúsunum í Berlín. Sviplegt andlát, vatnsleki og íslensk drottning spila þar stóra rullu.

René Pollesch kveður sviðið

Ekki er hægt að byrja þessa grein öðruvísi en að skrifa um skyndilegt fráfall René Pollesch, leikskálds, leikstjóra og þáverandi leikhússtjóra Volksbühne. Í lok febrúar bárust þær fréttir að einn þekktasti málsvari póst-dramatíska leikhússins væri fallinn frá. Hann var afar afkastamikið leikskáld, skrifaði rúmlega 200 verk og leikstýrði þeim flestum sjálfur. Þrátt fyrir að leikrit hans hafi ekki boðið upp á hefðbundinn söguþráð eða leikpersónur voru þetta engu að síður kvöldstundir byggðar á textum; hans eigin, leikhópsins, fræðitextum eða setningum stolnum úr ruslahaug tungumálsins; klisjum úr dægurlögum, auglýsingum eða kvikmyndum frá Hollywood. Það var mikið talað en þetta textaleikhús sitt braut hann upp með fíflalátum og ærslafengnum gamanleik, aulabröndurum og látbragði. Eitt augnablikið gat leikari þannig verið að þylja upp texta eftir Walter Benjamin og það næsta verið að elta samleikara sinn um sviðið með tröllvöxnum leikmun.

Í minningargreinum er sérstaklega minnst á það að Pollésch hafi hafnað hugmyndinni um yfirvald leikskáldsins, leiktextar hans áttu aldrei að verða partur af einhverri klassík heldur einungis samtal við núverandi stað og stund. Handritið tók breytingum frá degi til dags, hver sem er mátti bæta við textann og sýningar þróuðust jafnvel eftir frumsýningu. Hann myndaði náin samstarfsteymi, bæði með leikurum og listrænum stjórnendum; einna þekktust eru þau Sophie Rois, Martin Wuttke og leikmyndahönnuðurinn Anne Viebrock. Pollesch áleit þannig að texti, sköpun og flutningur væri svo samofið ferli að hann gaf sjaldnast leyfi fyrir því að leiktextar sínir væru sýndir með öðrum leikurum en þeim sem hann vann sýninguna með upphaflega. Síðasta sýning Pollesch, ja nichts is ok, var frumsýnd aðeins tveimur vikum fyrir andlát hans. Þetta er eintal þar sem leikarinn Fabian Hinrichs skiptir með sér hlutverkum þriggja meðleigjenda sem ræða sín á milli um allt og ekkert; þá aðallega af hverju ísskápurinn þeirra sé skyndilega kominn með gervigreind.

Skipa þarf nú nýjan leikhússtjóra en óvíst er hver tekur við. Staðan er nokkuð mikilvæg enda hefur Volksbühne markað sér sess sem ákveðið viðmið framúrstefnuleikhúss í Evrópu – fyrir mörgum er leikhúsið framúrstefna sviðslista í Evrópu. Menningarblaðakonan Christina Wahl kveikti nýlega eld í umræðunni með grein sinni á sviðslistavefnum Nachtkritik. Hún vill meina að framúrstefnan í leikhúsinu sé, og hafi alltaf verið, nokkuð þröng og endurspegli ekki alla flóruna. Framúrstefna leikhússins sé mjög formföst og einungis séu valdar inn sýningar og listafólk sem passi inn í þá tilteknu fagurfræði – það listafólk sé hins vegar nú þegar mjög mótað af fagurfræði hússins sem leiði einungis af sér endurgerðir af endurgerðum. Framúrstefnan matar framúrstefnuna. Wahl stingur upp á því að leikhúsið ráði teymi af leikhússtjórum úr ólíkum áttum í stað eins, aðeins þannig verði hægt að víkka sjóndeildarhringinn.

Þrátt fyrir áföll og átök voru margar afar áhugaverðar sýningar í leikhúsinu, t.a.m. Extinction eftir franska leikstjórann Julian Gosselin. Verkið, rúmlega sex tíma þrekvirki, er samsuða úr textum austurrísku höfundanna Arthur Schnitzler, Hugo von Hofmannsthal og Thomas Bernhard. Fyrsta klukkutímann er áhorfendum boðið upp á svið í danspartí með ókeypis bjór og lifandi tónlist frá plötusnúðum. Eftir ballið er stutt hlé áður en leikpersónur frá aldamótunum 1900 birtast að fagna komandi heimsenda með taumlausri drykkju, leikjum og dansi. Leikmyndin tekur á sig form herragarðs og er að mestu leikið innan í henni, leikararnir sjást þannig sjaldan á sviðinu heldur er allt kvikmyndað og varpað á sýningartjald. Kunnuglegt stílbragð í leikhúsinu. Hér er á ferðinni afar áhugaverð hugleiðing um eyðileggingu, úrkynjun og hnignun vestræns samfélags.

Vatnshavarí og fótboltastjörnur

Fleiri leikhús urðu fyrir óvæntum skakkaföllum. Þann 5. apríl fór úðarakerfið í Berliner Ensemble óvænt af stað. Það var í miðri sýningu á Iwanow sem 15.000 lítrar af vatni úðuðust á sviðið á nokkrum mínútum áður en hægt var að slökkva á kerfinu. Betur fór en á horfðist, en leikhússtjórinn Oliver Reese tilkynnti engu að síður að ekki yrði hægt að sýna á sviðinu í bráð. Sem betur fer voru áhugaverðustu sýningar leikhússins á minni sviðum og verður sérstaklega að minnast á samstarf leikstjórans Lenu Brasch við leikkonuna Sinu Martens. Erfitt hefur verið að fá miða á einleik þeirra It's Britney, Bitch! Sýningu um ris og fall bandarísku poppstjörnunnar Britney Spears; samband hennar við föður sinn, andleg veikindi og eitraðan afþreyingariðnað. Tvíeykið frumsýndi svo á dögunum nýja sýningu sem ber nafnið Spielerfrauen, en þar er viðfangsefnið eiginkonur og kærustur atvinnumanna í knattspyrnu. Þessar raddlausu táknmyndir lúxuslífs og fegurðar hafa í gegnum tíðina verið undir smásjá þýskra slúðurblaða og fjölmiðla. Þær sitja glæsilegar í stúkunni á meðan hetjurnar spila á vellinum. Ekki er þó allt sem sýnist og hafa nokkur óhugnanleg mál komið upp á yfirborðið. Samkvæmt uppljóstrun Der Spiegel á t.d. þýski landsliðsmaðurinn Jeróme Bóateng að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína Kasiu Lenhardt svo miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi að hún hafi tekið eigið líf árið 2021. Verkið talar inn í stærra samhengi kynferðislegs ofbeldis innan alþjóðlegu knattspyrnuhreyfingarinnar, en ekki er langt síðan óvelkominn rembingskoss Luis Rubiales á munn heimsmeistarans Jenni Hermoso olli miklu fjaðrafoki. Hér er á ferðinni beitt sýning sögð frá áhugaverðu sjónarhorni um skilin milli lífsins á forsíðunni og þess sem gerist bak við luktar dyr, um hetjur sem eru skúrkar og baneitraða karlmennsku.

Um íslenska drottningu og fasista

Í Deutsches Theater má finna leikritið Hildensaga, ein Königinnendrama eftir Ferdinand Schamlz. Þar er sagt frá íslensku drottningunni Brünhildi en fegurð hennar vekur áhuga hjá mörgum vonbiðlum, þar á meðal Gunter, konunginum af Búrgund. Hann sendir riddara sína til eyjunnar í íshafi til þess að biðja um hönd hennar en Brünhildi fellur tilboðið ekki í geð svo þeir neyðast til þess að nema hana á brott með valdi. Schamlz endurvinnur goðsöguna um Niflungana til þess að skrifa hetjusögu sem rímar betur við gildi 21. aldarinnar. Fáfnisbanar og riddarar verða hér kostulegar aukapersónur á meðan sagan einblínir frekar á tilraunir Brünhildar til að sleppan undan oki feðraveldisins og spinna sína eigin örlagaþræði. Hún neitar að ganga inn í fyrir fram skrifaða sögu sína, sem má m.a. rekja til Eddukvæða, og brýtur formfasta hlekkina í verki sem nær þó aldrei beint flugi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að hafa hlutina létta, ferska og skemmtilega.

Búið er að skrifa um sýningarnar tvær frá Schaubühne sem boðið var upp á á Theatetreffen: Bucket list eftir Yael Ronan og The Silence eftir Falk Richter. Tilvalið er því að nota tækifærið og rita aðeins um FIND-hátíðina sem er árlegur viðburður í leikhúsinu. Þar eru ný erlend verk sett á svið og í ár mátti sjá sýninguna Catarina e a beleza de matar fascistas eftir portúgalska leikstjórann og leikskáldið Tiago Rodrigues. Þar er sagt frá portúgalskri fjölskyldu sem hittist á afskekktu sveitabýli til að halda gamla fjölskylduhefð í heiðri, en í hvert skipti sem einhver fjölskyldumeðlimur fagnar 26 ára afmæli sínu tekur afmælisbarnið fasista af lífi. Sýningin hefur vakið mikla athygli enda er uppgangur öfgasinnaðra hægriafla sívaxandi vandamál í Evrópu. Leikarar hafa oft verið hætt komnir, t.d. hafa ósáttir áhorfendur stokkið upp á svið með ógnandi tilburði. Talsverð gæsla var því í leikhúsinu og sat m.a. leikhússtjórinn Thomas Ostermeier umkringdur öryggisvörðum meðan á sýningu stóð. Spennandi leikhús sem þorir að stuða og stinga á kýli, ekki síst vegna þess að verkið varpar fram þeirri áhugaverðu spurningu: Eru voðaverk í þágu betri heims réttlætanleg?