Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann
Hér er framleitt efni úr rusli sem getur nýst vel.

Úrsúla Jünemann

Við í neyslusamfélaginu hér á Íslandi erum ennþá langt frá því að nýta eða endurnota allt hráefni sem fellur til. Við kaupum og hendum allt of miklu. Að vísu hefur átt sér stað hugarfarsbreyting hjá mörgu fólki og er það gott. Einnig er jákvætt að flokkunarkerfi úrgangs er að komast í betra horf og menn átta sig á því að það er ekki mikið mál að setja ruslið í þar til gerð ílát. Þetta þarf allt sinn tíma til að menn læri á þetta.

En svo er spurningin: Hvert fer ruslið okkar sem við flokkum samviskusamlega? Gætum við unnið verðmæti úr þessu sem mest heima eða sendum við það til útlanda? Er umhverfisvænt að flytja úrganginn langar leiðir til annarra landa?

Á sumardaginn fyrsta bauð Sorpa upp á að skoða GAJA, þessa margumdeildu gas- og jarðgerðarstöð. Þetta dæmi hafði ekki farið vel af stað og sætt mikilli gagnrýni. Byggingin hafði kostað miklu meira en gert var ráð fyrir. Moltan sem varð til fyrst var ekki nógu góð. Nú er það frekar regla en undantekning að áætlun við byggingarframkvæmdir standist ekki. Er það fúsk eða íslenska bjartsýnin sem veldur þessu? Gæði moltunnar voru lítil vegna þess að með lífrænum úrgangi fylgdi svo mikið af öðru rusli.

Það var upplifun að fá leiðsögn í gegnum GAJA og fræðast um starfsemina og þann árangur sem verið er að ná núna. Með tilkomu flokkunar matarleifa kemur þetta efni nánast hreint inn í stöðina, um 98%. Þá er hægt að vinna góða moltu sem nýtist sem lífrænn áburður á akra, í garða, beð, matjurtagarða og væntanlega líka í uppgræðslu. Gestir fengu að taka með sér moltu sér að kostnaðarlausu og nýtti fólkið sér þetta vel. Hin afurðin sem er unnin í GAJA er jarðgasið metan. Metan verður til þegar lífræn efni rotna og er margfalt skaðlegra en CO2 þegar það sleppur út í andrúmsloftið. En metan er hægt að nýta sem eldsneyti, meðal annars á farartæki. Þeir bílar sem eru á vegum Sorpu ganga fyrir metani og einnig (allt of fáir) strætisvagnar. Áróðurinn fyrir rafmagnsbílum hefur því miður tekið athyglina frá því hversu umhverfisvænt er að aka á metani. Einungis fjórar metanstöðvar eru í Reykjavík og ein á Akureyri og erfitt er að fá metanbíla keypta. Þetta er miður og eiginlega óskiljanlegt. Ég hef verið á metanbíl í nokkur ár, að vísu tvinnbíl svona til öryggis en reyni að nota sem minnst af bensíni enda metan talsvert ódýrara.

GAJA er gott dæmi um fjárfestingu sem mun skila sér með tímanum. Hér er unnið verðmæti úr rusli, framleitt efni sem getur nýst vel fyrir umhverfið. Þetta er frábær starfsemi og skapar að auki mörg störf. Ég var hissa að sjá hversu margir vinna þarna.

Höfundur er kennari á eftirlaunum.

Höf.: Úrsúla Jünemann