Óvenjulegt Lundi með unga sínum á gólfinu í myrkum Skrúðshelli, venjulega grafa þeir holur í svörð til að verpa.
Óvenjulegt Lundi með unga sínum á gólfinu í myrkum Skrúðshelli, venjulega grafa þeir holur í svörð til að verpa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjaldurinn er gjarn á að vilja verpa í vegköntum, sem er auðvitað stórhættulegt, sérstaklega þar sem er mikil umferð, en hann er bara að leita að sínu rétta undirlagi,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur, sem fylgist vel með fuglum og hvar þeir gera sér hreiður

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Tjaldurinn er gjarn á að vilja verpa í vegköntum, sem er auðvitað stórhættulegt, sérstaklega þar sem er mikil umferð, en hann er bara að leita að sínu rétta undirlagi,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur, sem fylgist vel með fuglum og hvar þeir gera sér hreiður. Stundum er það á heldur óvæntum stöðum.

„Tjaldur sækir líka í að verpa á flötum húsþökum í Reykjavík, þar sem er oft sandur og möl. Fyrst varð vart við þetta í Ármúlanum fyrir tuttugu eða þrjátíu árum. Tjaldurinn eru eini vaðfuglinn sem færir ungum sínum æti í hreiðrið þar til þeir eru fleygir, og fyrir vikið getur tjaldurinn komið sínum ungum á legg þó uppi á grýttu þaki mannabústaða sé, þar sem ekkert er til að éta. Eini vandinn við þessa varpstaði er að þar er lítið um vatn, nema safnist í litla polla, en vissulega fá ungarnir vökva úr ætinu sem foreldrarnir færa þeim. Ég veit þó til að ungar tjalda hafi stundum drepist úr þurrki uppi á þökum.“

Jóhann Óli segir að sílamávar hafi mögulega lært af tjaldinum, því dæmi séu um að þeir geri sér líka hreiður á húsþökum.

„Margar fuglategundir eiga reyndar til að gera sér hreiður á ólíklegum stöðum, brandendur undir sumarbústöðum, músarrindlar í byggingum, rjúpur í húsagörðum í Hrísey og endur og gæsir verpa gjarnan í húsagörðum og víðar í þéttbýli. Starar koma sér fyrir hvar sem þeir geta troðið sér, inni í gömlum vélum, bátum, skúrum, klettum, þakskeggjum, í raun alls staðar þar sem er hæfilega stórt lokað pláss fyrir hreiðrið. Þeir eru holufuglar að upplagi, urpu upphaflega í holum trjám, oft eftir spætur, en færðu sig síðan yfir í steinsteypuskóginn og fóru að notfæra sér holur og glufur í mannvirkjum,“ segir Jóhann Óli sem hefur lengi verið með varpkassa fyrir stara heima hjá sér.

„Lundar verpa venjulega í holum sem þeir grafa sér í svörð eða í urðum, en á einum stað á landinu verpa þeir á gólfinu í stórum helli í kolsvartamyrkri. Þetta er Skrúðshellir, en ég hef hvergi heyrt um slíkt annars staðar frá og kallaði Baldur heitinn í Vattarnesi þetta „stærstu lundaholu í heimi“.“

Þröstur ræðst á til varnar

Jóhann segir það koma nokkuð oft fyrir að bæði skógarþrestir og maríuerlur verpi í bílum eða dráttarvélum og láti ekki á sig fá þó stundum séu þær vélar í notkun.

„Fuglarnir kippa sér ekki upp við það þó tækinu sé ekið tímabundið í burtu, þeir ýmist fylgja þá tækinu eða bíða og leggjast aftur á hreiðrið þegar dráttarvélin eða bíllinn kemur aftur heim í hlað,“ segir Jóhann Óli og bætir við að sumir fuglar verji hreiður sín af mikilli hörku, hann viti um dæmi þar sem kona þorði vart út í garð heima hjá sér því þar varp skógarþröstur sem réðst á hana.

„Ég hef lent í þessu sjálfur, þrestir eiga til að skella sér á hnakkann á manni. Krían er þekkt fyrir að verja sitt varp með krafti, stundum heggur hún í höfuð fólks með gogginum, en verst finnst mér þegar hún skítur á mig, sendir dritsprengjur sem lenda jafnvel í andlitinu. Ég á alveg sérstaka kríuúlpu sem ég klæðist þegar ég er að telja kríuvörp, hún hefur orðið fyrir mörgum sprengjuárásum.“

Köttur lúffar fyrir þresti

Guðrún Hárlaugsdóttir varð eitt sinn vitni að því þegar hún bjó í Borgarholti í Biskupstungum að þröstur á varptíma kom að eldhúsglugga hennar í leit að æti, hann stappaði niður fótum þegar heimiliskötturinn ætlaði að abbast upp á hann. Hið óvænta gerðist að kötturinn lúffaði. Í heimreiðinni að bænum varp líka árlega tjaldur í hóffar eftir hest í vegkantinum, og þurftu börnin á bænum að passa vel þegar þau fóru í reiðtúra að taka sveig framhjá hreiðrinu svo ekki stigju hestarnir á eggin í hreiðrinu og seinna ungana. Jóhann Óli nefnir nýlegt dæmi um skógarþröst sem varp í veggskrauti utan á mannabústað, kransi úr trjágreinum, og lét mikla nánd við mannfólk ekki raska ró sinni eða framgangi varps.

„Hér áður gerðu húsendur sér hreiður í hlöðnum veggjum í Þingeyjarsýslu, en þegar byggingarlag breyttist fóru bændur að útbúa hreiðurkassa fyrir þær inni í útihúsunum, gerðu göt á veggina og komu fyrir hreiðurkassa fyrir innan. Þetta er beggja hagur, bændur taka fyrstu eggin sem hlunnindi, en fuglinn verpir fleiri eggjum til að koma upp sínum afkvæmum.“

Hreiður á miðjum vegi

Jóhann Óli segir að krummi hafi verið að færa sig upp á skaftið með að verpa á mannvirkjum.

„Hér í lágsveitum Árnessýslu er lítið um kletta fyrir hrafninn til að gera sér laup, en hann er ráðagóður og gerir laup við mannabústaði, í háspennumöstrum, trjám og fleiri stöðum. Þekkt dæmi er hrafn sem hefur orpið ofan við skiltið á innganginum í verslun BYKO á Selfossi.“

Jóhann hvetur fólk til að hafa samband við Fuglavernd og segja frá óvenjulegum dæmum um val fugla á hreiðurstæðum.

„Við höfum fengið skemmtilegar sögur, til dæmis um kríupar sem gerði sér hreiður á bílastæði starfsmanna í stórfyrirtæki en þær réðust á hvern þann sem ætlaði að nota stæðið. Kona í öngum sínum hafði samband því stari hugðist gera sér hreiður inni í loftræstiröri á heimili hennar, en fór of langt inn og festist. Heimilisfólkið heyrði í honum inni í vegg og rífa þurfti vegginn til að losa fuglinn, en allt fór vel að lokum. Stari gerði sér hreiður í laslegum bíl á bílastæðahúsi Kringlunnar og vestur á fjörðum gerði tjaldur sér hreiður á miðjum vegi á innkeyrslu fyrirtækis. Starfsmennirnir hlóðu grjóti í kringum hreiðrið til að reyna að varna því að keyrt yrði yfir það.“

Fyrir áhugasama: Fuglavernd.is og Facebook: Fuglavernd