Elín Hirst
Elín Hirst
Ég tel mig því vel dómbæra á hvers vegna Katrín er best til þess fallin að gegna embætti forseta Íslands.

Elín Hirst

Leiðir okkar Katrínar Jakobsdóttur lágu fyrst saman fyrir rúmum 20 árum þegar hún vann sem málfarsráðunautur á fréttastofu Sjónvarpsins. Eftir að hún hóf þátttöku í stjórnmálum átti ég mikil samskipti við hana sem fréttamaður og fréttastjóri. Síðan sátum við saman á Alþingi í nokkur ár. Árið 2023 fékk ég síðan tækifæri til að starfa náið með Katrínu í nokkra mánuði í forsætisráðuneytinu við að skipuleggja hringferð hennar um landið til að kynna verkefnið Sjálfbært Ísland. Ég tel mig því vel dómbæra á hvers vegna Katrín er best til þess fallin að gegna embætti forseta Íslands af þeim einstaklingum sem eru framboði í þessum forsetakosningum.

Katrín er heiðarleg, hlustar áður en hún tekur ákvörðun og kemur eins fram við alla. Hún er skemmtileg, ljóngáfuð og ekkert fyrir tildur. Hún er föst fyrir og kemur alltaf til dyranna eins og hún er klædd. Hún ann móðurmálinu, elskar glæpasögur og vindur sér í að skrifa sakamálasögu sem verður metsölubók, eins og ekkert sé. Hún heillar helstu þjóðarleiðtoga heims með einlægri og fallegri framkomu sinni. Hún býr yfir gríðarlegri þekkingu um málefni hér innanlands og á alþjóðavettvangi. Hún er vel máli farin, réttsýn og fljót að setja sig inn í erfið og flókin mál. Katrín er ákafur talsmaður lýðræðis, mannréttinda og jafnréttis og hefur meðal annars stutt dyggilega við baráttu hinsegin fólks. Það kemur því ekki á óvart að Katrín nýtur trausts sem nær yfir allt litrófið í íslenskum stjórnmálum en það sýnir vel þá miklu leiðtogahæfileika sem hún býr yfir.

Katrín Jakobsdóttir hefur allt til að bera sem prýtt getur forseta Íslands. Kjósum Katrínu í forsetakosningunum nk. laugardag, 1. júní.

Höfundur er fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og RÚV, sjónvarps- og alþingismaður.

Höf.: Elín Hirst