Gististaður „Fólk byrjar oft í smáum stíl og byggir starfsemi sína upp jafnhliða annarri vinnu. Þetta styrkir viðkomandi svæði og þar með samfélögin. Svona er fínt að vinna hlutina,“ segir Björgvin G. Sigurðsson hér í viðtalinu.
Gististaður „Fólk byrjar oft í smáum stíl og byggir starfsemi sína upp jafnhliða annarri vinnu. Þetta styrkir viðkomandi svæði og þar með samfélögin. Svona er fínt að vinna hlutina,“ segir Björgvin G. Sigurðsson hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Í ferðaþjónustu úti á landi virkar fjölskyldurekstur vel. Fólk byrjar oft í smáum stíl og byggir starfsemi sína upp jafnhliða annarri vinnu. Þetta styrkir viðkomandi svæði og þar með samfélögin

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Í ferðaþjónustu úti á landi virkar fjölskyldurekstur vel. Fólk byrjar oft í smáum stíl og byggir starfsemi sína upp jafnhliða annarri vinnu. Þetta styrkir viðkomandi svæði og þar með samfélögin. Svona er fínt að vinna hlutina,“ segir Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi ráðherra.

Á bænum Skarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem er í uppsveitum Árnessýslu og ekki langt frá Flúðum, hefur Björgvin á undanförnum árum verið að byggja upp ferðatengda starfsemi með útleigu meðal annars á smáhýsum og bústöðum. Fyrir nokkrum vikum var svo í Skarði tekið í notkun timburhús í gamla stílnum. Byggingin er 60 fermetrar að grunnfleti, er á tveimur hæðum og klædd svartmáluðu timbri.

Allt í gamla stílnum

„Við vönduðum mjög til þessa húss sem er allt í gamla stílnum,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, sem fluttist að Skarði úr Búrfellsvirkjun á unglingsárum með foreldrum sínum Sigurði Björgvinssyni og Jenný Jóhannsdóttur. Þau höfðu þá eignast jörðina ásamt öðrum hjónum sem störfuðu á Búrfelli, þeim Jóni Áskatli Jónssyni og Guðbjörgu Kristinsdóttur. Skarð 1 eiga í dag Björgvin og bræður hans tveir, Sigurður Unnar og Davíð. Fjórði bróðirinn og sá elsti var Jóhann sem lést fyrir fimm árum. Hinn hluti jarðarinnar, Skarð 2, er í eigu Björgvins, föður þeirra bræðra, og Ernu Gísladóttur, ekkju Benedikts föðurbróður þeirra.

„Jóhann bróðir hafði með sinni fjölskyldu stofnað lóðina Skógarskarð þar sem þau hugðust byggja sumarhús. Hann veiktist svo af krabbameini í höfði sem dró hann til dauða á skömmum tíma. Við ákváðum síðan eftir heimsfaraldur að halda áfram og reisa hús á þessum fallega stað. Þær framkvæmdir hófust í fyrrahaust,“ segir Björgvin.

Á staðinn kom frá Gluggagerðinni tilsniðið einingahús í skandinavíska stílum en þó með sterkum íslenskum einkennum. Framkvæmdir stóðu yfir í vetur og frágangi er að ljúka við Jóhannshús, eins og byggingin heitir Jóhanni til heiðurs.

„Við erum hér í jaðri Gullna hringsins og umferð ferðafólks hér um slóðir er mikil. Hér í gegnum sveitina liggur líka leiðin inn á hálendið og um Þjórsárdal. Þar er nú verið að byggja upp glæsilega ferðaþjónustu með Fjallaböðunum sem svo heita. Þar og víðar hér í kring eru í gangi ýmis spennandi verkefni sem lúta að þjónustu við ferðafólk sem eðlilega styrkja smárekstur eins og við hér í Skarði stöndum að,“ segir Björgvin. Ferðaþjónustuna á Íslandi telur hann standa vel, enda þótt bókanir fyrir sumarið hafi ekki verið jafn miklar og undanfarin ár. Vöxturinn sé í öllu falli hægari en áður, sem ekki þurfi að vera sem verst.

Framtíðin óráðin

„Ég var á Alþingi í tíu ár, fram til 2013, og þar áður framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í fjögur ár og hef síðan komið að ýmsu. Sveitin togar alltaf í mig og mér finnst sérstaklega gaman að byggja upp þessa starfsemi hér heima í Skarði,“ segir Björgvin, sem var viðskiptaráðherra í bankahruninu. Hann hefur síðustu vetur sinnt kennslu við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, sinnt leiðsögn og fengist við ritstörf. Er einnig varamaður í bæjarstjórn Árborgar fyrir Samfylkinguna.

„Svo veit maður ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Stjórnmálin hafa verið stórt áhugamál og aldrei að vita hvað kemur upp á þeim vettvangi. Þessi misserin helga ég mig öðrum störfum, svo sem ferðaþjónustunni og kennslunni,“ segir Björgvin G. Sigurðsson að síðustu.