Fríhöfnin Útboð er í vinnslu.
Fríhöfnin Útboð er í vinnslu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Isavia er í viðræðum við fjóra aðila vegna útboðs á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í nóvember, ef allt gengur að óskum. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir þetta

Isavia er í viðræðum við fjóra aðila vegna útboðs á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í nóvember, ef allt gengur að óskum.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir þetta. Greint verði frá því um hvaða fjóra aðila er að ræða þegar tekið verður á móti tilboðum í júlí.

Isavia gerði í fyrra forkönnun á meðal markaðsaðila á EES-svæðinu til að kanna áhugann á rekstri Fríhafnarinnar. Könnunin var birt á útboðsvef Isavia og þar gátu áhugasamir aðilar svarað stöðluðum spurningum um ýmsa þætti rekstrarins. Frestur til að skila inn gögnum rann út 1. september.

Tekur 12-18 mánuði

Af því tilefni var rætt við Guðmund Daða Rúnarsson, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar hjá Isavia, sem lagði þá áherslu á að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um útboð á rekstri Fríhafnarinnar. Málið væri í skoðun og stefnt að því að taka ákvörðun um framhaldið um áramótin. Að fenginni reynslu mætti ætla að slíkt útboð taki 12 til 18 mánuði.

Isavia ákvað svo eftir áramótin síðustu að halda áfram með ferlið. Samhliða er Isavia að leggja lokahönd á nýja austurálmu, stærstu einstöku framkvæmd í sögu félagsins, en hún skapar möguleika á stækkun Fríhafnarinnar við komusal. Nánar tiltekið hýsir jarðhæð austurálmunnar nú nýjan töskusal og er framkvæmdum við stækkun Fríhafnarinnar til austurs að ljúka en hluti hennar er þar sem töskubeltin voru áður.

Námu 12,3 milljörðum

Ársreikningur Fríhafnarinnar vegna ársins 2023 hefur ekki verið birtur. Samkvæmt ársreikningi 2022 námu rekstrartekjur þá 12.258 milljónum króna borið saman við 5.154 milljónir árið 2021, en farsóttin setti mikið mark á síðarnefnda árið. Hagnaður ársins 2022 nam 685 milljónum króna og voru eignir 2.806 milljónir í lok árs. Eiginfjárhlutfallið var þá 53% og hjá félaginu störfuðu 118 manns.

Isavia hefur leitað tækifæra til að fá ný flugfélög til Keflavíkur. Þ.m.t. með viðræðum við flugfélög í Asíu, ekki síst í Kína, um beint flug til Íslands. baldura@mbl.is