Ásgerður Búadóttir (1920-2014) Skarðatungl, 1976 Ull 158 x 115 cm
Ásgerður Búadóttir (1920-2014) Skarðatungl, 1976 Ull 158 x 115 cm
Þegar Ásgerður Búadóttir hlaut gullverðlaun fyrir vefnað á alþjóðlegu list- og handverkssýningunni í München árið 1956 var textíllist ekki í miklum metum hér á landi. Það tók hana næstu áratugi að ávinna veflistinni íslenskan þegnrétt þótt hún sýndi …

Þegar Ásgerður Búadóttir hlaut gullverðlaun fyrir vefnað á alþjóðlegu list- og handverkssýningunni í München árið 1956 var textíllist ekki í miklum metum hér á landi. Það tók hana næstu áratugi að ávinna veflistinni íslenskan þegnrétt þótt hún sýndi mönnum fram á það með nægum rökum að myndvefnaður væri mun eldri og skyldari norrænni hefð en listmálun. Það auðveldaði Ásgerði ekki baráttuna að hún skyldi hafna því að veflistin væri sérsvið innan myndlistarinnar. Hún taldi sig ætíð standa jafnfætis þeim listamönnum sem kjósa að mála á strigann í staðinn fyrir að vefa hann.

Þegar Ásgerður stundaði nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn á ofanverðum
fimmta áratugnum sá hún þar í borg fáein textílverk eftir Júlíönu Sveinsdóttur sem höfðu mikil áhrif á hana. Nokkru síðar kynntist hún nútíma góbelínvefnaði í París sem varð til þess að hún keypti sér vefstól til að flytja með sér heim. Skarðatungl er gott dæmi um list Ásgerðar þegar hún hafði yfirgefið fígúratívan myndvefnað til þess að gefa sig betur að eigindum efniviðarins og hreinni formbyggingu, rétt eins og kollegar hennar meðal abstraktmálara. Heiti verksins vísar til minnkandi tungls, en í vefnum birtast jafnframt tveir meginþættir stórbrotins stíls listakonunnar, skírskotun til náttúrunnar og íslenskrar menningarhefðar. Hið fyrrnefnda kemur fram í formteikningu og litavali sem hér vísar til vetrar. Hið síðara felst í óvenjulegu efnisvali, áferð og verkun en að því öllu hugar
Ásgerður af jafnmikilli kostgæfni.