Sigurður Gunnar Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1966. Hann lést 19. maí 2024, í faðmi fjölskyldunnar.

Foreldrar hans eru Þorsteinn Jóhann Bjarnason, f. 28. júlí 1932, d. 10. janúar 2022, og Þórhildur Sigurðardóttir, f. 14. október 1939. Systur Sigurðar eru Svandís Ásta, Anna Kristín og Ragnhildur.

Sigurður var alinn upp í Hvassaleiti 9 en fluttist á Hlein árið 1993.

Útför Sigurðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 30. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Siggi skilur eftir sig stórt skarð í systkinahópnum og fjölskyldunni allri. Hann snerti við mörgum og kenndi okkur svo margt. Hvernig hann tókst á við lífið með æðruleysi og var alltaf tilbúin til að leggja sitt af mörkum. Við munum eftir Sigga sem orkubolta sem var annaðhvort úti í fótbolta eða hjólandi um á BMX-hjólinu sínu. Eftir það tók við mótorhjól og jeppi sem hann naut þess að keyra um á með tónlistina í botni. Eftir veikindin reyndi á aðra þætti eins og seiglu og þrjósku sem Siggi hafði nóg af. Hann gafst aldrei upp og hélt ótrauður áfram. Tónlist og íþróttaáhugi, hvort sem það var handbolti eða fótbolti, átti hug hans allan. Hann var einlægur Bubba-aðdáandi og það skemmtilegasta sem hann gerði var að fara á tónleika. Siggi gat alltaf séð spaugilegu hliðarnar á lífinu og gerði óspart grín bæði að sér og öðrum. Það var stutt í kaldhæðnina en undir yfirborðinu var hlýr og heilsteyptur maður með hjarta úr gulli.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Takk fyrir allt elsku Siggi.

Anna og Ragnhildur.

Látinn er bróðir minn og mágur, Sigurður Þorsteinsson.

Hugurinn leitar 40 ár aftur í tímann þegar við vorum að byrja búskap saman á Signýjarstöðum.

Alltaf var Siggi tilbúinn að koma til okkar og aðstoða okkur við búskapinn, það var sama hvað var, hann gekk óhikað í öll verk.

Nánast alla föstudaga þegar hann hafði lokið vinnu var hann sestur upp í jeppann og brunaði upp að Signýjarstöðum.

Siggi var líka með afar skemmtilega jeppadellu og þeir voru ófáir jepparnir sem voru „mixaðir“ og lagaðir til hér í bílskúrnum hjá okkur.

Ein ferð situr í minni okkar. Það var á föstudegi, Siggi var að koma í helgarfrí, hringdi í heimasímann, sagðist vera fastur í Reykholti og bað Palla að koma og hjálpa sér. Þetta var að vetri, snjór yfir öllu og „gott færi“ á jeppamannamáli. Svandís varð eftir heima og Palli fór. Tveimur klukkutímum seinna var hana farið að lengja eftir þeim, þá voru náttúrlega engir gemsar til að hringja í. Þá koma þeir niður fjallið og á báðum bílunum og það var aldrei neinn fastur.

Við fórum saman í margar jeppaferðir bæði á jökulinn og á Arnarvatnsheiði, og einnig fór Siggi í margar vetrarferðir á jeppanum með félögum sínum.

Við minnumst þess þegar foreldrar okkar hvöttu hann til að kaupa sér splunkunýjan Bronco-jeppa til að hann hætti nú þessari dellu, en Bronco-jeppinn fékk líka „upplyftingu“.

Vorið 1991 veikist Siggi alvarlega og hann glímdi við þau veikindi alveg til dauðadags. Hann var lengi á sjúkrahúsi og síðan á Grensásdeild í endurhæfingu. Það var sama hvað dagarnir hjá honum voru erfiðir, sem þeir voru vissulega oft, alltaf sá Siggi jákvæðu hliðarnar á lífinu og alltaf var húmorinn ofarlega hjá honum, sama hvað bjátaði á. Þegar vistheimilið Hlein í Mosfellsbæ var opnað fékk Siggi þar herbergi og bjó þar við góða umönnun. Hann fékk þar góða þjálfun og vinnu. Þar var húmorinn hjá Sigga líka oft ofarlega og þar urðu til margar sögur í „Sigga-Biblíu“.

Einnig var hann duglegur við að finna hnyttnar myndir af sínum nánustu og líma þær á tréflísar og eru víða til þannig myndir frá honum. Þar smíðaði hann líka bíla og dúkkuvöggur handa barnabörnum okkar, eitt sinn þegar von var á nýju barnabarni sagði hann: Ég vona að það verði strákur, mér finnst svo leiðinlegt að smíða dúkkukerru. Öll barnabörn systra hans hafa fengið svona handverk eftir hann.

Elsku Siggi. Þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og börnin okkar.

Þakka þér fyrir að þú kenndir þeim að vera jákvæð þótt eitthvað á móti blási.

Hvíl þú í friði elsku vinur.

Svandís og Páll (Palli).

Það var um jólaleytið 1966 að ég var beðin um að passa mánaðargamlan dreng á meðan foreldrarnir fóru á jólaball með eldri börnin. Það þótti nú auðsótt mál þar sem ég átti sjálf von á barni, honum Jónka, stuttu eftir jól. Mikill samgangur var á milli þeirra frænda og var ýmislegt sprellið hjá þeim. Þeir kölluðu hvor annan Æ-Æ og AHA. Siggi var svo heppinn að eiga systur sem býr í sveit og líkaði þeim sveitastörfin vel.

Núna á þorranum bauðstu okkur Svenna í þorramat og áttum við góða stund saman og á laugardögum var orðinn fastur liður að hittast hjá Þórhildi mömmu þinni, þá var nú oftast glatt á hjalla. Mamma þín og fjölskyldan öll eiga mikinn heiður skilið hvað þau hafa reynst þér vel í þessum erfiðu veikindum.

Mig langar að gera orð Ástríðar ömmu þinnar að mínum.

Augum mæni ég upp til þín

og andvarpa í hljóði.

Ég bið þig fyrir börnin mín,

blessaður Jesú góði.

(Ástríður Bárðardóttir)

Ég veit að pabbi þinn tekur vel á móti þér.

Takk fyrir allt.

Rósa.

Heyrðu Siggi.

Þú ert og verður alltaf uppáhaldsfrændi minn að öðrum ólöstuðum, góður og skemmtilegur drengur. Eitt gat ég ekki skilið: músíksmekk þinn, þú með sítt að aftan í grænum hermannajakka hlustandi á Bubba Morthens þegar allir voru í diskó! Annars fíla ég Bubba í dag.

Annaðhvort varst þú bráðþroska eða ég seinþroska, Bubbi þroskast, hvað heldurðu?

Flest okkar samskipti voru í fíflaskap og alltaf gaman hjá okkur.

Þú mikill húmoristi enda hlóstu alltaf að bröndurunum mínum, sem fleiri mættu taka til eftirbreytni. Stundum var gert grín að nöfnu minni, þá hlóstu á þinn skemmtilega hátt.

Þannig sé ég þig í huga mér og mun minnast þín um ókomna tíð.

Farðu í friði, hafðu þökk fyrir allt og allt, minning þín lifir.

Jónki frændi,

Jón Ástþór
Sigursveinsson.