Bogi Nils Bogason
Bogi Nils Bogason — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Icelandair sagði í gær upp 82 starfsmönnum. Í tilkynningu frá Icelandair síðdegis í gær kemur fram að um sé að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins. Þá tilkynnti félagið einnig í gær að afkomuspá fyrir árið í ár…

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Icelandair sagði í gær upp 82 starfsmönnum. Í tilkynningu frá Icelandair síðdegis í gær kemur fram að um sé að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins. Þá tilkynnti félagið einnig í gær að afkomuspá fyrir árið í ár hefði verið felld úr gildi vegna aukinnar óvissu í ytra umhverfi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að eftir mikinn vöxt á liðnum árum sé nú lögð áhersla á hagræðingu.

„Rekstrarumhverfi fyrirtækja er krefjandi um þessar mundir. Við þurfum að takast á við verðbólgu, jarðhræringar og aukinn launakostnað auk þess sem eftirspurn eftir ferðum til Íslands hefur minnkað,“ segir Bogi Nils.

„Við þurfum að efla samkeppnishæfni félagsins og því fylgir að taka þarf ákvörðun um sársaukafullar aðgerðir sem þær að hagræða í starfsmannahaldi.“

Spurður nánar um áhrif launakostnaðar segir Bogi Nils að eðli málsins samkvæmt hafi hann töluverð áhrif á rekstur félagsins.

„Það má horfa á þetta í víðara samhengi og segja að ófullkomið vinnumarkaðsmódel á Íslandi hafi haft áhrif á flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki á þrjá vegu á undanförnum misserum. Í fyrsta lagi má nefna launahækkanir síðustu ára sem voru umtalsvert umfram það sem við sjáum í löndunum sem við erum að keppa við. Í öðru lagi fara þessar kostnaðarhækkanir sem eru meiri en í löndunum í kringum okkur út í verðlagið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landsins og þar af leiðandi á eftirspurn,“ segir Bogi Nils.

„Loks má nefna verkföll og vinnustöðvarnir og hótanir um slíkt. Jafnvel þótt síðasta hótun um vinnustöðvun hafi ekki raungerst, þá hafa fréttir af yfirvofandi verkföllum neikvæð áhrif á bókunarflæði flug- og ferðaþjónustufyrirtækja með tilheyrandi tekjutapi.“

Aðspurður segir Bogi Nils að ekki standi til að minnka flugáætlun félagsins í sumar en á hverjum tíma nýtir félagið sveigjanleika sinn til að laga framboð að eftirspurn.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson