Aðalheiður Guðný Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1957. Hún lést í Noregi, á Stabekk, líknardeild, 18. maí 2024.

Foreldrar Aðalheiðar eru Páll Hörður Pálsson sjómaður, f. 17. janúar 1936, d. 7. maí 1990, og Margrét Sturlaugsdóttir, f. 7. maí 1936.

Systkini Heiðu eru Páll Sigurður, f. 1954, Guðbjörg Brynja, f. 1959, Sturla Geir, f. 1971, og Vigdís Unnur, f. 1975.

Aðalheiður giftist Olav Hilde frá Noregi í Stokkseyrarkirkju þann 19. júní 1982 og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: 1) Thomas, f. 1983, eiginkona Cecilie og eiga þau þrjár dætur, Chaline, f. 2007, Linelle, f. 2013, og Ellevie, f. 2020. 2) Daniel, f. 1986, sambýliskona Ida Karin, tvíburadætur þeirra eru Anny og Ylva, f. 2023. 3) Greta Lind, f. 1990, sambýlismaður Lars og eiga þau einn son, Leo, f. 2023, fyrir átti hún Teu, f. 2013. Þau eru öll búsett í Noregi.

Heiða ólst upp á Stokkseyri og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Selfoss og vann síðan um tíma í Kaupfélagi Árnesinga og Höfn á Stokkseyri. Hún fór til Noregs árið 1974-1975 til að vinna á Hótel Bolkesjö ásamt fleirum og eitthvað heillaði Noregur því árið 1979 réð hún sig sem vinnukona hjá sendiherrahjónunum Páli Ásgeiri Tryggvasyni og konu hans Björgu Ásgeirsdóttur. Vann hún hjá þeim í tvö ár og kynntist hún Olav, eftirlifandi eiginmanni sínum í janúar 1981.

Þau bjuggu fyrst í Osló en fluttu síðan á Bærums Verk þar sem þau bjuggu frá 1984 með börnum sínum þar til þau seldu og fluttu í nýja íbúð árið 2019. Þau fluttu til Íslands 1987, leigðu hús í Hveragerði og þar fæddist Greta Lind 1990. Hún vann þar í verslun og áttu þau góða vini þar og leið vel. Þau fluttu aftur til Noregs 1990. Hún starfaði einnig sem dagmamma í Noregi á meðan börnin voru lítil en vann síðan í yfir 25 ár hjá Bærum Kommune á Solvik, sem ráðskona og var yfir þvottahúsinu þar. Hún lét af störfum 1. júlí 2022.

Þau keyptu sér hús á Stokkseyri 2012 þar sem þau dvöldu mikið í öllum fríum og börnin voru dugleg að koma þangað með sínar fjölskyldur. Þetta var mikill uppáhaldsstaður hjá henni og stutt á Selfoss að kíkja á mömmu sína sem hún lagði einstaka rækt við og hringdi í hana á Facetime á hverju kvöldi síðustu árin. Einnig voru þau sérlega dugleg að hitta fjölskyldu og vini á Íslandi.

Heiðu verður sárt saknað enda einstaklega brosmild og blíð og náði svo vel til allra í kringum sig.

Útför Aðalheiðar fer fram frá Haslum krematorium í Noregi í dag, 30. maí 2024, klukkan 11.30 (9.30 að íslenskum tíma).

Minningarsíða er á https://jolstad.no/tjenester/minnesider og þar er hægt að nálgast streymi frá athöfninni en einnig á www.mbl.is/andlat.

Elsku Heiða. Að sitja hér á fallega heimilinu ykkar og skrifa minningargrein um þig er svo ótrúlega erfitt og óskiljanlegt. Við sem áttum eftir að gera svo margt saman, þú hætt að vinna og styttist í mín starfslok. Svona er lífið óútreiknanlegt og maður sér alltaf betur og betur hvað þessi orð lífið er núna eru rétt. Lífið breytist eins og hendi sé veifað og eftir tveggja mánaða erfiða baráttu við krabbamein kom í ljós að ekki varð við neitt ráðið og eftir aðeins 3ja daga dvöl á líknardeildinni í Noregi þurftir þú að láta í minni pokann fyrir þessum sjúkdómi. Við héldum að við fengjum miklu lengri tíma með þér. Þú varst búin að vera svo sterk í gegnum þetta ferli og alltaf stutt í brosið sem hjálpaði fólkinu þínu en plataði kannski líka því þú varst orðin ansi veik fljótlega. Þó þú ættir erfitt með að tala síðustu dagana þá brostir þú alltaf til okkar og varst svo ótrúlega sterk. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa flýtt fluginu og náð að vera með þér síðustu dagana þína. Geta svo verið hér með fólkinu þínu, Olav, Thomas, Daniel og Gretu og öllum barnabörnunum þínum sem kvöddu yndislegu mömmu og ömmu sína. Mikið sem þau eiga eftir að sakna þín en ég veit að krakkarnir þínir halda minningu þinni á lofti og tala um þig við börnin sín.

Við ólumst upp á Stokkseyri í frjálsræðinu þar og áttum góða æsku saman, þú, ég og Palli, stutt á milli okkar þriggja, svo bættust Sturla og Vigdís við 1971 og 1975. Það var mikið verið að leika sér í fjörunni og ekkert verið að tékka mikið á okkur þar, okkur var bara treyst til að passa okkur. Svo varstu að reka beljurnar fyrir Gísla frænda í Sandgerði og ég skottaðist með, við fengum líka að hjálpa honum í heyskap eða meira kannski að sitja uppi á heyvagninum. Margt brallað og mikið braskað. Við vorum ekkert alltaf bestu vinkonur sem krakkar, þú varst alveg með eindæmum stríðin og náðir mér oft ansi vel upp. Við hlógum svo að þessu seinna. Eftir að gelgja unglingsáranna var gengin yfir náðum við vel saman og vorum alltaf mjög góðar vinkonur og gátum deilt ýmsu í trúnaði og spurt hvor aðra ráða.

Mikið á ég eftir að sakna allra myndsímtalanna okkar og að geta ekki lengur leitað til þín elsku Heiða mín. Lífið verður aldrei eins án þín.

Þú varst mikill fagurkeri og handavinnukona. Mikið búin að prjóna og hekla. Heimili ykkar var einstaklega fallegt og smekklegt, bæði í Noregi og Íslandi. Bæði voruð þið mjög gestrisin og gaman að koma í heimsókn til ykkar. Veit að Olav er ekkert síðri. Þú varst líka svo létt í lund, brosmild, alltaf til í smá fíflalæti og náðir svo vel til fólksins í kringum þig. Allir sem þú umgekkst eiga ljúfar minningar um þig.

Nú er gott að eiga minningarnar til að ylja sér við því við vorum búnar að bralla ýmislegt saman í gegnum tíðina og þrátt fyrir að þú byggir í Noregi meiripart ævinnar voruð þið svo dugleg að koma til Íslands og við skruppum til ykkar líka. Þið komuð til Íslands á hverju sumri í fríinu og voruð á Snæfelli hjá mömmu og pabba. Það var líka oft verið að þvælast eitthvað um Ísland með krakkana okkar, farið að veiða, í bústað og ýmislegt. Svo eftir að þið keyptuð húsið á Stokkseyri 2012 dvölduð þið enn oftar á Íslandi og þá fækkaði okkar heimsóknum til Noregs.

Við fórum í ógleymanlega ferð til Portúgal 2005, mamma, Hjalti og flest systkinin og fjölskyldur. Það var skemmtileg ferð og þó Hörður væri fótbrotinn og Ásdís handleggsbrotin tókst okkur að gera gott úr þessu öllu og nutum samverunnar í sólinni.

Það má ekki gleyma að minnast á hvað þið Olav voruð samstiga í að kenna börnunum ykkar íslensku, enda tala þau öll mjög góða íslensku þrátt fyrir að vera öll búsett í Noregi og eiga norska maka. Það er ekkert smá mikils virði eins og fyrir mömmu að geta spjallað við þau enda eiga þau öll mjög gott samband. Það var líka góður tími þegar þið bjugguð í Hveragerði í þrjú ár, frá 1987 til 1990. Þá hittumst við mikið fjölskyldan og oft rennt í Hveragerði. Bjugguð hér einmitt þegar pabbi dó svo allt of fljótt í maí 1990 aðeins 59 ára gamall. Það var gott fyrir ykkur að þið skylduð vera hér, öll saman.

Það er búið að vera erfitt að vera sitt í hvoru landinu og að hafa ekki getað stutt þig meira í gegnum veikindin.

Elsku Heiða mín, ég get skrifað svo miklu meira en ætla að hætta hér. Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið elsku besta systir mín.

Elsku Olav, Tommi, Daniel, Greta, mamma og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu stundum en minningin um yndislega eiginkonu, mömmu, ömmu og dóttur lifir.

Góðar kveðjur frá honum Palla okkar í Finnlandi og hans fjölskyldu. Mamma sendir líka góðar kveðjur og börnin okkar Gumma, Davíð, Ingþór, Hörður, Stella og Ari og barnabörnin.

Elsku Heiða. Sofðu rótt og guð geymi þig. Lov jú.



Guðbjörg systir.