2020 Síðasta hlutverk Margrétar Helgu í Borgarleikhúsinu var Marína fóstra í Vanja frænda sem Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrði.
2020 Síðasta hlutverk Margrétar Helgu í Borgarleikhúsinu var Marína fóstra í Vanja frænda sem Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrði. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2024 fyrir framúrskarandi og ómetanleg störf í þágu íslenskrar leiklistar þegar Gríman var afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu í fyrrakvöld

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2024 fyrir framúrskarandi og ómetanleg störf í þágu íslenskrar leiklistar þegar Gríman var afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu í fyrrakvöld. Hún hefur á löngum og farsælum ferli leikið yfir 200 hlutverk á sviði, í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum.

Í samtali við Morgunblaðið segir hún viðurkenninguna hafa komið sér á óvart. Spurð hvaða þýðingu verðlaunin hafi segir Margrét Helga ljóst að hún „hafi verið að gera eitthvað rétt“. Þegar heiðursverðlaunahafi ársins var kynntur á svið í fyrrakvöld kom fram að Margrét Helga, sem er fædd árið 1940, hafi verið gripin leiklistaráhuga frá unga aldri. Í samtali við Morgunblaðið rifjar hún upp að hún hafi verið svo heppin að faðir hennar hafi verið í hlutastarfi hjá Þjóðleikhúsinu þegar hún var barn. „Hann tók mig stundum með, þegar hann var að vinna um helgar, og þá sá ég margar sýningar og æfingar. Mér fannst ég fara inn i undraveröld,“ rifjar hún upp og bætir við að ást hennar og áhugi á leikhúsinu hafi ráðið því að hún gerði leiklistina að ævistarfi.

Laxness áhrifavaldur

Margrét Helga útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967 og hóf fljótlega störf við leikhúsið, þar sem hún starfaði næstu fjögur árin. Árið 1972 hóf hún svo feril sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó þar sem frumraun hennar var að leika Uglu í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness. Í viðtali við Morgunblaðið 2007, í tilefni af 40 ára leikafmæli hennar, sagðist Margrét Helga setja „Laxness á undan Shakespeare“ þegar kæmi að uppáhaldsleikskáldum, en óhætt er að segja að Laxness hafi haft mikil áhrif á feril hennar, en samkvæmt upplýsingum frá Sviðslistasambandi Íslands hefur Margrét Helga leikið fleiri hlutverk í verkum hans en nokkur annar leikari hér á landi. Sem dæmi fór hún með hlutverk Úu í kvikmyndinni Kristnihald undir jökli sem Guðný Halldórsdóttir leikstýrði og frumsýnd var 1989.

Árið 1987 lék Margrét Helga í Degi vonar eftir Birgi Sigurðsson í leikstjórn Stefáns Baldurssonar sem fékk mikla aðsókn og lof áhorfenda. Á sama tíma vann hún ötullega að því að safna fyrir nýju leikhúsi Leikfélagsins með því að taka þátt í miðnætursýningum sem settar voru upp í Austurbæjarbíói. Við Borgarleikhúsið starfaði hún í nær þrjátíu ár. Þar sló hún árið 1990 í gegn í einleiknum Sigrún Ástrós (Shirley Valentine) eftir Willy Russel í leikstjórn Hönnu Maríu Karlsdóttur, en Margrét Helga hafði frumkvæði að því að flytja inn verkið, láta þýða það og sviðsetja í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur. Margrét Helga hlaut Grímuna fyrir túlkun sína á hinni lyfjasjúku Violet sem er ættmóðirin í Fjölskyldunni – ágúst í Osage-sýslu eftir Tracy Letts sem Hilmir Snær Guðnason leikstýrði í Borgarleikhúsinu 2009. Hún hefur hlotið Edduna í tvígang, fyrst árið 2000 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englar alheimsins í leikstjórn Friðriks Þór Friðrikssonar og síðan 2012 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Eldfjall í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar.

Samstarfsvilji og virðing

Þegar Margrét Helga er spurð hvað standi upp úr löngum ferli stendur ekki á svarinu og hún nefnir strax einleikinn Sigrún Ástrós og rifjar upp að hún hafi á sínum tíma sýnt verkið hátt í 300 sinnum víðs vegar um landið. Í fyrrnefndu viðtali frá 2007 var Margrét Helga spurð hver væri galdurinn við góðan leikara og þá svaraði hún: „Hugrekki, einlægni og auðmýkt. Og svolítil bjartsýni, þegar hennar er þörf.“ Hún benti einnig á að hlutverkin gengju misjafnlega nærri henni og því væri hún mislengi að ná sér af þeim eftir hverja sýningu. „En mér tekst nú alltaf að verða Margrét Helga aftur. Líka þegar sýningarnar eru komnar á þriðja hundraðið.“

Ekki er hægt að sleppa heiðursverðlaunahafa ársins án þess að forvitnast hvort Margrét Helga eigi einhver heilræði handa ungu fólki sem er að feta sín fyrstu spor á leiksviðinu í dag. „Já, að vera samstarfsfús og virða þá sem maður er að vinna með.“

Handhafar Grímunnar árið 2024 þar sem níu sýningar voru verðlaunaðar

Saknaðarilmur og Ást Fedru bæði með fernu

Sýning ársins

Saknaðarilmur

Leikrit ársins

Saknaðarilmur eftir Unni Ösp Stefánsdóttur leikverk byggt á bókum Elísabetar Jökulsdóttur

Barnasýning ársins

Hollvættir á heiði

Leikstjóri ársins

Agnar Jón Egilsson – Fúsi – aldur og fyrri störf

Leikkona ársins í aðalhlutverki

Unnur Ösp Stefánsdóttir – Saknaðarilmur

Leikari ársins í aðalhlutverki

Sigurður Þór Óskarsson – Deleríum búbónis

Leikkona ársins í aukahlutverki

Vigdís Hrefna Pálsdóttir – Mútta Courage og börnin

Leikari ársins í aukahlutverki

Þröstur Leó Gunnarsson – Ást Fedru

Dansari ársins

Elín Signý W. Ragnarsdóttir –
The Simple Act of Letting Go

Söngvari ársins

Heiða Árnadóttir – Mörsugur

Tónlist ársins

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson – Saknaðarilmur

Leikmynd ársins

Guðný Hrund Sigurðardóttir, Hákon Pálsson og Rósa Ómarsdóttir – Molta

Búningar ársins

Filippía I. Elísdóttir – Ást Fedru

Lýsing ársins

Ásta Jónína Arnardóttir – Ást Fedru

Hljóðmynd ársins

Kristján Sigmundur Einarsson – Ást Fedru

Danshöfundur ársins

Rósa Ómarsdóttir – Molta

Dans- og sviðshreyfingar ársins

Unnur Elísabet Gunnarsdóttir – Deleríum búbónis

Hvatningarverðlaun valnefndar fyrir framúrskarandi nýbreytni í sviðslistum

Fúsi – aldur og fyrri störf

Heiðursverðlaun 2024

Margrét Helga Jóhannsdóttir

Höf.: Silja Björk Huldudóttir