Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Með synjun er komin fram önnur ríkisstjórn og sennilega verður sú ríksstjórn sem styðst við þingræðislegan meirihluta að víkja.

Vilhjálmur Bjarnason

Það þykir ekkert eins fínt þegar vandamál steðja að eins og að segja að vandamál skapi tækifæri og lausnir. Það er kallað sköpunarkraftur. Oftar en ekki hefur þessi sköpunargleði í för með sér röð atburða sem enda í því sem kallað er slys.

Ágætur dómari sagði eitt sinn við barnabarn sitt að slys væri ekki slys heldur röð atburða sem enduðu með skelfingu. Ritari tekur undir það.

Sama á við um marga þætti mannlegs lífs sem háðir eru reglum og þar með væntingum.

Regluvæddir atvinnuvegir

Sennilega er engin atvinnugrein regluvædd til jafns við fjármálamarkað. Kann að vera að loftferðalög með samþykktum og viðaukum ICAO, Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, jafnist á við regluvæðingu fjármálamarkaðarins.

Ekki hvarflar að nokkrum manni að stytta sér leið í flugreglum, þvert á móti að fylgja reglum og skráðum ferlum. Skapandi túlkun flugreglna getur drepið.

En það er hægt að túlka fjárhagsreglur loftferðalaga með skapandi hætti. Sá sköpunarkraftur hefur ekki leitt til dauða, en til verulegra útgjalda fyrir íslenska ríkið vegna útgjalda hjá Ábyrgðasjóði launa.

Þannig eru gjaldfrestir Isavia meðalhóf, en umlíðan á gjaldfresti skapandi stjórnsýsla.

Lánveitingar Landsbanka, Glitnis og Kaupþings með aðstoð SPRON voru mjög skapandi. Umbreyting SPRON úr sjálfseignarstofnun í hlutafélag var mjög skapandi ferli, að viðbættum öllum rangfærslum í upplýsingagjöf.

Allt var þetta gert með ásýnd þess að allt væri gljáfægt ferli að lögum og reglum, en reyndist ein stór blekking, sennilega stundum byggt á heimsku en einnig á glæpsamlegu innræti.

Skapandi lögskýringar á fjármálamarkaði og skapandi lögskýringar í reikningsskilum leiddu til skelfingar, slyss á heimsmælikvarða.

Skapandi ferli í stjórnarfari og stjórnsýslu

Ritari upplifði mjög skapandi lögskýringar í áliti ríkisendurskoðanda og áliti umboðsmanns Alþingis í því ferli sem fram fór við sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. árið 2022.

Flestar ályktanir í skýrslum þessara tveggja aðila byggjast á eigin áliti þeirra, „að áliti“. Ekki er hægt að finna niðurstöðum lagastoð. Ekki var um að ræða sektargerð, þannig að þeir sem áttu í hlut gátu því sett upp hissasvip og sagt: „nú jæja!“

Skapandi forsetaembætti

Nú ber svo við að kosið skal til embættis forseta Íslands. Þeir sem fremst fara í „lögskýringum“ eru fjölmiðlamenn. Með því gefa þeir frambjóðendum sem ekki eru alveg vissir um hlutverk forseta möguleika á að beita sköpunarkrafti sínum í stjórnskipan og stjórnsýslu.

Hæst ber þráspurningar um synjun undirskriftar laga, sem rétt kjörið Alþingi hefur samþykkt. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir svo í 1. grein:

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Af því leiðir að löggjafarvaldið er í höndum rétt kjörins Alþingis og ríkisstjórn situr í trausti sama Alþingis. Alþingi getur lýst vantrausti á ríkisstjórn eða einstaka ráðherra. Forseti skipar ráðherra að tillögu þess sem hann hefur fullvissað sig um að hafi þingræðislegan meirihluta að baki þeirri ríkisstjórn, sem gerð er tillaga um.

Bjarni Benediktsson eldri forsætisráðherra segir í minningargrein um Ólaf Thors forsætisráðherra:

„Þegar ekki reyndist að því búnu auðvelt að mynda meirihlutastjórn, skipaði ríkisstjórinn, Sveinn Björnsson, utanþingsstjórn. Sú ráðstöfun var meira en hæpin, og tókst þó ekki eins og til var stofnað, að koma í veg fyrir endurreisn lýðveldisins á árinu 1944.“

Vissulega var það rétt að sú ríkisstjórn sem ríkisstjóri skipaði 1944 var ekki að grunni þingræðisstjórn. En Alþingi þoldi þessa ríkisstjórn og veitti lagafrumvörpum hennar brautargengi, þar á meðal stjórnskipunarlögum og fjárlögum. Samfélagið funkeraði hnökralaust, miðað við stjórnarfar þess tíma.

Ríkisstjórn sem ríkisstjóri skipaði vék um leið og aðstæður höfðu skapast fyrir þingræðisstjórn.

Því skal til haga haldið að forseti skipar ekki ráðherra að geðþótta, því óskráð þingræðisregla gildir.

Það gildir einnig um synjunarrétt forseta um staðfestingu laga sem Alþingi hefur samþykkt. Um geðþótta forseta getur aldrei verið að ræða. Með synjun er komin fram önnur ríkisstjórn, og sennilega verður sú ríkisstjórn sem styðst við þingræðislegan meirihluta að víkja.

Undirskriftir með áskorun til forseta hafa þar ekkert að segja. Undirskriftir þúsunda Reykvíkinga og Akureyringa vegna væntanlegra laga um lagareldi, og varða að mestu Vestfirðinga og Austfirðinga, munu leiða af sér klofning með þjóðinni. Þjónustu- og kaffihúsasamfélagið mun kljúfa framleiðslusamfélagið frá allsherjarríkinu á Íslandi með aðliggjandi eyjum.

Annað er vanhæfi forseta. Forseti og alþingismenn eru aldrei vanhæfir við afgreiðslu mála nema þegar fjallað er um málefni sem varðar þá persónu er gegnir embætti forseta eða á sæti á Alþingi.

Um vanhæfi og áhrif vanhæfis er fjallað í stjórnsýslulögum. Um vanhæfi forseta og alþingismanna er ekki fjallað í stjórnsýslulögum.

Endaleysa í vanhæfi forseta

Ef forseti er vanhæfur í embætti vegna umfjöllunar eða aðkomu vegna fyrri setu sinnar á Alþingi liggur í augum uppi að fleiri verða vanhæfir. Tveir handhafar forsetavalds, forseti Alþingis og forsætisráðherra, eru jafn vanhæfir og forseti vegna setu sinnar á sama Alþingi. Og þriðji handhafi forsetavalds, forseti Hæstaréttar, verður vanhæfur við umfjöllun máls þar sem lagarök dómsmáls byggjast á lögum sem handhafinn hefur staðfest.

Öll umfjöllun blaða- og fréttamanna breytir þar engu um. Og allra síst þegar fréttamenn skapa hugtakið „siðferðilega vanhæfur“. Og stjórnmálafræðingar taka undir vitleysuna!

Það er óskandi að frambjóðendur til embættis forseta kynni sér vanhæfisreglur stjórnsýslulaga. Skapandi stjórnmálafræði breytir þar engu um.

Salka Valka í verkalýðsfélagi

„Salka Valka var sem sagt gengin í verkalýðsfélagið. Það var í annað sinn að hún gekk í félagsskap sem hafði þann sérstaka eiginleik umfram mannfélagið að hafa tilgang.“

Mestur hluti umfjöllunar um embætti forseta af hálfu frambjóðenda til embættisins byggist á óskhyggju um eigin sköpunarkraft og mikill hluti umfjöllunar fjölmiðlafólks byggist á óafsakanlegri vanþekkingu um tilgang embættis forseta Íslands. Og einnig óafsakanlegri vanþekkingu á mannfélaginu.

Höfundur var alþingismaður.