Stella Breiðfjörð Magnúsdóttir fæddist 17. nóvember 1940. Hún lést 8. maí 2024.
Útför hennar fór fram 27. maí 2024.
Í dag verður hún Stella Magnúsdóttir kær vinkona okkar Biering-systra jarðsungin.
Stellu kynntumst við ungar að árum þegar hún leigði herbergi hjá Helgu systur og Bóa mági okkar. Þegar Stella fluttist svo á Laugaveginn var stutt fyrir hana að kíkja til okkar í kaffi og það var alltaf mikið líf og fjör og mikið rætt og hlegið. Þessar minningar um hana eru okkur svo dýrmætar. Stella var svo ljúf, jákvæð, hress, mjög skipulögð og sífellt brosandi en hún var líka ákveðin. Hún giftist góðum manni, honum Aage Nilsen, sem því miður féll frá mjög snögglega. Þau eignuðust þrjú börn, Ólaf Pétur, Agnar Þór og Díönu Maríu. Stella hóf störf hjá Ikea þegar verslunin var í Kringlunni og var mjög áanægð í starfinu sem hún vann við. Margar góðar og skemmtilegar minningar um Stellu eigum við systur og þær geymum við í hjörtum okkar. Stella átti við heilsubrest að stríða síðustu árin í lífi sínu en aldrei heyrði maður hana kvarta vegna þess.
Elsku Stella okkar, takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum allar saman með þér.
Við vottum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Minning hennar lifir.
Helga, Guðrún, Bertha og Louisa (Lúlla).