Neftóbaksnotkun minnkaði á fjórum árum um 36 tonn, var 46 tonn árið 2019 en 10 tonn á síðasta ári. Á 10 ára tímabili hefur heildsöluverð á neftóbaksdósinni hækkað úr 2.110 krónum í 3.277 krónur miðað við framreiknað heildsöluverð

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Neftóbaksnotkun minnkaði á fjórum árum um 36 tonn, var 46 tonn árið 2019 en 10 tonn á síðasta ári.

Á 10 ára tímabili hefur heildsöluverð á neftóbaksdósinni hækkað úr 2.110 krónum í 3.277 krónur miðað við framreiknað heildsöluverð. Á sama tímabili fór salan úr 33 tonnum í 46 tonn og hrundi svo í 10 tonn sem fyrr segir.

Óvíst um framtíð neftóbaksins

Í ársreikningi Vínbúðarinnar 2023 kemur fram að verulega hafi dregið úr sölu á íslensku neftóbaki. Forstjórinn, Ívar J. Arndal, segir í formála ársreikningsins að sala neftóbaks haldi áfram að dragast saman og að nikótínpúðar, sem ekki beri tóbaksgjald, hafi yfirtekið markaðinn. Hann bætir við að það sé aðeins tímaspursmál hvenær framleiðslu íslenska neftóbaksins verði hætt, ef fram heldur sem horfir.

Tóbaksgjald hækkaði um 77%

Morgunblaðið leitaði frekari upplýsinga hjá ÁTVR um framleiðslu, sölu og verðlag neftóbaks síðastliðin 10 ár. Í svari fyrirtækisins kemur fram að á árunum 2014 til 2019 jókst neftóbaksnotkun úr 33 tonnum í 46 tonn á ári. Árið 2017 hækkaði tóbaksskatturinn úr 755 krónum í 1.338 krónur eða 77,25%. Salan jókst áfram árin 2018 og 2019 en hrundi svo 2020, þegar hún minnkaði úr 46 tonnum í 25,4 tonn. Þróunin heldur áfram eins og fram kemur í meðfylgjandi grafi, þrátt fyrir að verðið hafi staðið í stað.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR var spurð hvort hækkunin hefði orðið til þess að neftóbakið hefði verið verðlagt út af markaðnum. Hún svaraði því til að nikótínpúðarnir væru ekki skattlagðir.

Gjaldið á ábyrgð ráðuneytisins

„Hækkun tóbaksskattsins 2017 var vegna samræmingar á gjaldtöku á lausu tóbaki og neftóbaki sem leiddi til hækkunarinnar. Tóbaksgjaldið er ákvarðað í lögum og ÁTVR hefur ekki aðkomu að ákvörðunum um upphæð tóbaksgjalds,“ sagði Sigrún Ósk.

Stendur til að lækka skattinnn aftur?

„Við höfum enga aðkomu að tóbaksgjaldinu og höfum ekki lagt til lækkun á gjaldi, ef það er spurningin. Þetta er alfarið í höndum ráðuneytisins og þú verður að spyrja ráðuneytið að því.“

Spurð hvort til standi að hætta framleiðslu á íslenska neftóbakinu, eins og gefið hefur verið í skyn, segir Sigrún Ósk enga ákvörðun hafa verið tekna um að hætta framleiðslu neftóbaks.

Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhannsson fjármálaráðherra til að spyrja hann hvort stæði til að lækka tóbaksgjaldið.

Höf.: Óskar Bergsson