Óskar Jóhannsson fæddist í Reykjavík 15. desember 1956. Hann lést á gjörgæsludeild SAK á Akureyri 18. maí 2024.

Foreldrar hans voru Jóhann Sigurður Kristmundsson og Sigurborg Þóra Sigurðardóttir. Jóhann lést árið 2010 og Sigurborg árið 2000.

Óskar var einn af fimm systkinum. Systkini hans eru: Jónína Kristjana, gift Sigurði Gunnari Benediktssyni. Jónína á þrjá syni með fyrri eiginmanni sínum, Ólafi Vigni Sigurðssyni; Sigurður Guðni, giftur Halldóru Ríkharðsdóttur og saman eiga þau þrjú börn; Vilborg Nanna, gift Reyni Sverrissyni og eiga þau eina dóttur; Sigrún og á hún eina dóttur.

Óskar lætur eftir sig eiginkonu, þrjá syni, eina stjúpdóttur og átta barnabörn. Eftirlifandi eiginkona Óskars er Jórunn Jónsdóttir. Þau eiga saman einn son, Arnar Frey. Sambýliskona Arnars er Elizabeth Villafuerte. Saman eiga þau tvær dætur, Raquel Freyju og Leu Ósk. Jórunn á eina dóttur úr fyrra sambandi, Ástu Rut Berg Björnsdóttur. Eiginmaður Ástu er Snorri Kristjánsson og saman eiga þau tvö börn, Sölva Mar og Diljá Mist. Óskar á tvo syni með fyrri eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigríði Sigurjónsdóttur, þá Sigurjón og Arnar Gauta. Sambýliskona Sigurjóns er Katrín Sigurðardóttir. Saman eiga þau tvo syni, Daða og Bjarka. Sambýliskona Arnars Gauta er Sofia Garcia. Þau eiga tvo syni, Baldur Carlos og Brynjar Santiago.

Útför Óskars fór fram í kyrrþey hinn 27. maí 2024 í Höfðakapellu á Akureyri.

Jæja, hvað getur maður sagt? Skari frændi, Skari vinur, já eða Skari veiðifélagi eða þetta allt saman.

Það er skrítið að setjast niður og skrifa þetta því fyrir örfáum dögum kom ég til ykkar Jórunnar í kaffi og þetta góða spjall sem maður fær alltaf hjá ykkur. Þú varst alltaf minn uppáhaldsfrændi og ég á minningar af þér frá því að ég byrjaði að muna eftir mér. Þú varst alltaf glaður, alltaf hress og það var alltaf gaman að vera barn í kringum þig.

Við Anna vorum svo heppin að vera á sama tíma og þið Jórunn á Tenerife eitt árið. Þá kom ekkert annað til greina en að hittast, borða og fara í minigolf. Þú talaðir mikið um veitingastaðinn El Rodeo og sagðir okkur að skammtarnir væru slíkir að það þyrfti að keyra fólk út í hjólbörum. Og viti menn, ég át hvern réttinn á fætur öðrum og að lokum þurfti nánast að bera mig inn í betri stofuna í kaffi og konna. Það er erfitt að gleyma hvað þú hlóst mikið að mér og hættir raunar ekki að hlæja fyrr en við fórum í minigolfið en þar rústaði Jórunn okkur eins og venjulega.

Elsku Skari frændi, ég var svo ótrúlega heppinn að kynnast þér sem veiðifélaga. Það er einstakt samband sem myndast hjá veiðifélögum.

Minningarnar við vötnin eru margar og ein saga rifjaðist upp þegar ég talaði við Arnar Frey um daginn. Við vorum þrír í bátnum að trolla eins og venjulega, sjálfsagt komnir á annan pela af ópalnum og Arnar fær þennan fína urriða og við löndum honum. Arnar byrjar að gera að fiskinum og ætlar að skola hann og tekst þá ekki betur til en svo að hann missir hann út í og augnaráðið sem hann fékk frá þér er okkur Arnari ógleymanlegt og skammirnar sem fylgdu. Skömmu seinna setur þú í flottan fisk, gerir að og skolar, tókst þá ekki betur til en svo að þú gerðir nákvæmlega það sama; misstir fiskinn og þá lifnaði nú heldur betur yfir Arnari og sá skammaði þig og svo hlógum við eins og vitleysingar lengi á eftir.

Þegar ég kom til ykkar á dögunum var ég sjálfur á leiðinni í veiði og þú í þína síðustu veiðiferð. Umræðuefnið var bara eitt og það var veiði. Hvaða flugur ætti að prófa og hvernig verður veðrið? Allt skiptir þetta þó litlu máli þegar maður er kominn í vöðlur því þannig líður manni best, sama hvernig viðrar. Tilhlökkunin hjá þér var gríðarleg fyrir þessum túr og skein hún svo vel í gegn og þessi síðasti fundur okkar er mér mjög dýrmætur.

Ég veit að Skagaheiðin og Vatnsdalurinn verða aldrei söm hjá okkur veiðifélögum þínum. En hafðu engar áhyggjur, þú verður með mér í öllum mínum veiðiferðum hér eftir og ég veit að þú átt eftir að hlæja þegar ég býð löxunum sem stökkva góðan daginn.

Veit ekki hvað vakti mig

vil liggja um stund

togar í mig tær birtan

lýsir mína lund

Þessi fallegi dagur

þessi fallegi dagur

(Bubbi Morthens)

Elsku Skari. Takk fyrir ferðalagið. Ég veit að þú ert búinn að setja saman stöngina og byrjaður að kasta þarna hinum megin.

Elsku Jórunn, Sjonni, Gauti, Arnar Freyr og Ásta Rut. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð og vona að sárin nái að gróa og að hlýja Skara og hlátur hans verði einhver smá plástur.

Hafsteinn (Haddi frændi).