Elfa Ingibergsdóttir fæddist 4. ágúst 1975. Hún lést 27. apríl 2024.

Útför fór fram 15. maí 2024.

Elfa hóf störf hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar að hausti á því herrans ári 2020. Um það leyti höfðu samkomutakmarkanir verið teknar upp að nýju og áttum við flest fyrstu kynni af henni í gegnum tölvuskjáinn. Þegar vinnustaðurinn vaknaði til lífsins á ný fengum við að kynnast þessari hávöxnu, eldkláru og glæsilegu konu betur. Hún var við að leggja lokahönd á meistaranám í kennarafræðum samhliða nýju og krefjandi starfi. Það leið ekki á löngu þar til ljóst var að þar var á ferðinni skarpur greinandi sem sinnti starfinu af metnaði og bætti heilmiklu við hópinn. Hún var traust, fagleg og yfirleitt mætt fyrst á svæðið að morgni.

Elfa var sannur lífskúnstner með smekk fyrir því fallega í lífinu. Til að mynda hikaði hún ekki við að keyra á Akranes til að fá sér almennilegar neglur. Hún trúði ekki á sjálfskipta bíla – aðeins með beinskiptum væri hægt að ná almennilegri endingu úr ökutækjum og þegar Elfa var undir stýri var spiluð þyngri rokktónlist en maður hefði annars átt von á að heyra hjá virðulegri menntakonu úr Garðabænum. Hún stundaði sína líkamsrækt af krafti og hvatti okkur til að mæta með sér.

Henni var annt um okkur vinnufélaga sína og hún sýndi öllum áhuga. Hádegishléin voru fljót að líða þar sem Elfa gat iðulega lagt sitt af mörkum, hvort sem umræður snerust um heimsmálin, misgott sjónvarpsefni eða fólk í fréttum. Ef mann vantaði ráð átti hún þau til, og hún talaði hispurslaust.

Nokkrum sinnum í viku heimsóttum við ágætan nágranna, verslunina Hringekjuna í Þórunnartúni, þar sem Elfu tókst alltaf að grafa upp gersemar á kostakjörum. Frægastur er pelsinn sem varð hennar aðalsmerki. Það voru fáir sem höfðu tærnar þar sem hún hafði hælana í stíl. Elfa var sannur fagurkeri, hafði vit á myndlist og tísku en tilgerð var ekki til – hún var einfaldlega pjúra klassi. Í veskinu hennar var að finna YSL-varalit og snyrtivörudagatölin voru valin af kostgæfni.

Forgangsröðunin var hins vegar alltaf rétt. Fjölskyldan var henni allt og hún fékk blik í augun þegar þau bar á góma. Börnin hennar þrjú voru líf hennar og yndi og það stolt hennar skein alltaf í gegn þegar hún sagði frá þeim. Eldri börnin hennar, Anna Karen og Hlynur Freyr, voru flogin úr hreiðrinu og elsku Úlfur Már upprennandi bardagalistamaður. Hún var sömuleiðis hreykin af Ragnari sínum og vissi hvað máli skipti í lífinu. Elfa vildi nefnilega lifa lífinu til fulls og með ráðdeild sá hún til þess að hafa alltaf utanlandsferð á dagskránni, og helst tvær.

Kæra Elfa. Þegar þú kvaddir okkur svo skjótt í lok apríl varstu á leið í langþráð frí. Örlögin réðu því að áfangastaður þinn er nú annar. Við kveðjum kæra konu sem var svo miklu meira en góður vinnufélagi. Það er þyngra en tárum taki að kveðja hana og við vottum fjölskyldu hennar okkar allra dýpstu samúð.

Fyrir hönd samstarfsfélaga hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar,

Ingunn Ólafsdóttir.