Bryndís Geirsdóttir
Bryndís Geirsdóttir
Ein ástæðan fyrir dvínandi fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Bryndís Geirsdóttir

Orkumálin hafa verið meðal stóru málanna á öllum landsfundum Sjálfstæðisflokksins sem ég hef sótt. Átökin hafa verið alvöru: Lögfróðir menn og kunnáttumenn úr raforkugeiranum, sérfróðir um verkfræði, regluverk og stjórnsýslu, rökræddu gagnyrtir og kjarnyrtir um orkupakka Evrópusambandsins.

Vilji fundarmanna hefur verið skýr gegn orkupökkunum, mótbárurnar hafa verið að ofan: „Við verðum að samþykkja þessa pakka, annað er brot á EES-samningnum.“ „Þessir pakkar hafa svo lítil áhrif hér, við erum ekki í beinum tengslum við raforkukerfi á meginlandi Evrópu, þetta breytir engu hér svo við verðum að samþykkja þetta.“ „Verð á raforku til almennings mun ekki hækka því við þurfum ekki að lúta verðlagi á samkeppnismarkaði Evrópusambandsins.“ „Þetta er bull, við verðum bara að samþykkja þetta!“

Nefndin sem hefur málið til umræðu ver töluverðum tíma í að orða niðurstöðu sína í málum, kjarnyrta og gagnyrta ályktun.

Niðurstöðu nefndarinnar er síðar smellt í gegn um þvottavél, svokallaða samhæfingarnefnd á vegum forystunnar, sem mylur úr plagginu „óheppilegt“ orðalag og „villur“. Vel hreinsaðar, heppilegar og bitlausar hafa ályktanir hennar svo verið bornar upp við fundinn til samþykktar. Iðulega eru gerðar athugasemdir við tilþrif þvottavélarinnar en þá er auðvitað orðið áliðið og alls ekki nægur tími fyrir „hártoganir“.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa beitt sér fyrir innleiðingu orkupakkanna, þrátt fyrir mótmæli og andstöðu flokksmanna við þá. Þetta er ein ástæðan fyrir dvínandi fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Bita fyrir bita koma ráðamenn Íslands þjóðinni nær Evrópusambandsaðild með því að gangast undir regluverk sambandsins. Fílnum skal torgað, orkupakka fyrir orkupakka, reglugerð fyrir reglugerð.

Þegar tveir flokkar sem hljóta umboð sitt frá kjósendum sem afdráttarlaust hafna aðild að Evrópusambandinu sitja saman í ríkisstjórn en standa ekki gegn innleiðingu löggjafar sambandsins er fokið í flest skjól. Gagnrýni Arnars Þórs Jónssonar er hann talar um „veikt Alþingi“ beinist ekki síst að þessu, því þar er mulið úr fullveldi Íslands.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisfélags Borgarfjarðarsýslu.

Höf.: Bryndís Geirsdóttir