NATO Allir frambjóðendurnir nema Katrín réttu upp hönd þegar spurt var um stuðning þeirra við veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu í forsetakappræðum Morgunblaðsins í gær.
NATO Allir frambjóðendurnir nema Katrín réttu upp hönd þegar spurt var um stuðning þeirra við veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu í forsetakappræðum Morgunblaðsins í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líflegar umræður voru í forsetakappræðum Morgunblaðsins í Hádegismóum í gær sem stóðu yfir í tæpar 80 mínútur. Hægt er að nálgast streymi af kappræðunum á mbl.is. Þeir frambjóðendur sem mælst hafa með yfir 10% fylgi í helstu skoðanakönnunum fengu…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Kári Freyr Kristinsson

Líflegar umræður voru í forsetakappræðum Morgunblaðsins í Hádegismóum í gær sem stóðu yfir í tæpar 80 mínútur. Hægt er að nálgast streymi af kappræðunum á mbl.is. Þeir frambjóðendur sem mælst hafa með yfir 10% fylgi í helstu skoðanakönnunum fengu boð í kappræðurnar: Þau Baldur Þórhallsson prófessor, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Halla Tómasdóttir forstjóri, Jón Gnarr leikari og Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra.

Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson stýrðu kappræðunum og sköpuðust hvassar umræður á stundum.

Jón og Baldur í hár saman

Jón Gnarr og Baldur Þórhallsson tókust til dæmis mjög hressilega á um hlutverk forsetans.

„Ég er ekki sammála þeim málflutningi sem ég heyri hjá frambjóðendum, eins og til dæmis hjá Baldri, að forsetinn eigi að vera einhvers konar alþingislögga sem endurskoðar allt sem Alþingi er að gera,“ sagði Jón Gnarr og beindi orðum sínum að Baldri Þórhallssyni.

„Ég hef enga trú á því að forseti Íslands eigi að vera að stunda einhver óþarfa afskipti af starfsemi Alþingis og mér finnst Alþingið okkar bara mjög fínt og mjög góð stofnun og mér finnst hún virka og hafa sýnt það á álagstímum sem hafa gengið hér yfir á síðustu árum,“ sagði Jón.

Hann sagði að taka þyrfti höndum saman ef það væri vantraust á Alþingi og að þá þyrfti að hjálpast að við að byggja upp traust og „sýna þau góðu verk sem Alþingi er að gera en ekki vera að tala það niður eins og þarna séu bara tómir jólasveinar sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með“.

Baldur svaraði þá Jóni Gnarr fullum hálsi.

„Mér finnst mjög gaman að vera kominn í tíma hjá Jóni Gnarr í skapandi skrifum,“ sagði Baldur.

Málskotsrétturinn neyðarhemill

Hann kvaðst ekki hafa talað á þeim nótum sem Jón sagði hann hafa gert og nefndi sem dæmi því til stuðnings að í lagareldismálum hefði hann sagt að forsetaframbjóðendur ættu ekki að tjá sig um mál sem væru til meðferðar hjá þinginu.

„Forseti skiptir sér ekkert af daglegum störfum þingsins á meðan það er að vinna og sinna sínum lagafrumvörpum,“ sagði Baldur. Það væri þingræði í landinu og það væri einungis þegar lög gengju fram af þjóðinni eða gengju gegn samfélagssáttmálanum sem málskotsrétturinn kæmi til greina.

„Málskotsrétturinn er bara neyðarhemill,“ sagði Baldur.

Þannig að þú ætlar ekki að verða alþingislögga?

„Alls ekki. Það hef ég aldrei nokkurn tímann sagt,“ svaraði Baldur.

Hann sagði það mikilvægt að þingheimur og þjóðin vissi að á Bessastöðum sæti maður sem væri tilbúinn að virkja neyðarhemilinn.

„Ímyndið ykkur forseta sem gefur það út að hann ætli eiginlega aldrei að virkja neyðarhemilinn,“ sagði Baldur.

Finnst þér aðrir frambjóðendur hafa talað þannig?

„Já, ég held að Jón Gnarr tali til dæmis á þeim nótum,“ svaraði Baldur.

Reynslan flækist ekki fyrir

Katrín Jakobsdóttir sagði aðspurð að hún teldi ekki að pólitískur ferill hennar myndi flækjast fyrir henni sem forseta. Hún sagði það að þekkja umhverfi stjórnmálanna gera hana ekki minna hæfa til að takast á við verkefni forsetans.

„Þvert á móti. Það að ég gefi kost á mér í þetta embætti þýðir það að ég hef þá trú á sjálfri mér að ég geti hafið mig yfir alla flokkapólitík, að ég geti tryggt það gagnvart mér sjálfri og þjóðinni að engin persónuleg tengsl hafi áhrif á mínar ákvarðanir,“ sagði Katrín.

Vísaði Katrín til Ólafs Ragnar Grímssonar sem þekkti vel þá sem tengdust málunum þar sem hann beitti málskotsréttinum.

„Ég segi að þegar maður tekur ákvörðun um að gefa kost á sér í svona embætti, þá er maður um leið að taka ákvörðun um að hollusta manns er við þjóðina eingöngu,“ sagði Katrín og bætti við: „Það er mín sýn á þetta.“

Misvísandi svör um Landsvirkjun

Halla Hrund Logadóttir var spurð út í orð sem hún lét falla á dögunum, þar sem hún sagði að hún teldi að sala Landsvirkjunar kæmi á borð næsta forseta.

Er eitthvað í þínum störfum sem orkumálastjóri eða annars staðar frá sem gefur þér ástæðu til að ætla þetta?

„Ég nefndi þetta sem dæmi þegar við erum að tala um í hvernig aðstæðum forseti myndi beita málskotsréttinum,“ sagði Halla.

Viðtal við Höllu Hrund á Vísi á dögunum vakti mikla athygli en þar fullyrti hún að mikil krafa væri um sölu Landsvirkjunar.

„Það er mikil krafa á sölu á Landsvirkjun sem ég tel að muni koma inn á borð næsta forseta,“ sagði hún í samtali við Vísi.

„Þú sagðir að þetta myndi koma á borð næsta forseta,“ sagði Stefán Einar þá við Höllu Hrund.

„Ég er að segja, þegar ég nefndi það sem dæmi í hvernig tilfellum við værum að horfa á málskotsréttinn. Og ég tók það sem dæmi að þegar við erum að tala um auðlindamál, þá væri það dæmi um málaflokk sem skiptir framtíðarkynslóðir gríðarlega miklu máli. Því eins og við öll vitum hér þá eru auðlindirnar okkar mjólkurkýr hvers samfélags og þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að þjóðin fái að hafa aðkomu þarna,“ sagði Halla Hrund og bætti við:

„Það sem skiptir máli hér er að það er auðvitað þannig að sala á Landsvirkjun – hluta hennar – hefur komið upp. Það hefur komið upp 2022, kom upp eftir hrun þar sem var verið að horfa á hvort það ætti að selja hluta af Landsvirkjun til að greiða niður skuldir. Þetta er stuttu eftir að HS Orka var selt sem við þekkjum að var töluvert umdeilt mál. Þannig að þetta er enginn óraunveruleiki.“

Halla sagði sölu Landsvirkjunar vera dæmi um mál sem gæti komið á borð forseta og að aukin aðsókn væri í auðlindir. Rétt er að taka fram að mbl.is hafði samband við forstjóra Landsvirkjunar, fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra um síðustu helgi og sögðu þau öll að sala á Landsvirkjun til einkaaðila hefði ekki komið til tals og stæði ekki til.

Beittar umræður um varnarmál

Talið barst að varnarmálum en á forsetafundi Morgunblaðsins með Höllu Tómasdóttur í Reykjanesbæ í síðustu viku sagðist hún ekki vera hlynnt því að Ísland styddi við vopnakaup fyrir Úkraínu. Í kappræðunum spurði Andrés hana því nánar út í þau orð.

Eigum við ekki að standa með bandamönnum okkar og þeim vinum sem við höfum lagt sérstaklega rækt við?

„Alþjóðleg lög og reglur skipta okkur máli auðvitað sem litla þjóð og við eigum að standa með því. Ég er ekki mótfallin vestrænni samvinnu heldur fylgjandi henni. En ég sagði það skýrt að ég tel vopnakaup ekki sjálfsögð og ég held að fyrir lítið samfélag eins og okkar sé annað val í boði og að hægt sé að semja um allt,“ sagði Halla Tómasdóttir.

Halla sagði að við gætum alltaf staðið með mennsku, mannúð og skilningi. Ísland yrði að sýna stuðning með til dæmis sáraumbúðum, stoðtækjum, hjúkrun og mannúðaraðstoð.

Allir forsetaframbjóðendurnir nema Katrín Jakobsdóttir réttu upp hönd þegar þeir voru beðnir um að rétta upp hönd ef þeir styddu veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO).

„Ég nefndi það hér á Akureyri [á forsetafundi Morgunblaðsins] þegar við ræddum þetta að mikilvægast fyrir forseta er ekki einmitt að láta stýrast af sínum persónulegu skoðunum eða sýn. Heldur að vinna samkvæmt utanríkisstefnunni og það hef ég gert sem forsætisráðherra og mun gera sem forseti,“ sagði Katrín.

Halla Tómasdóttir skaut því inn í umræðuna að hún styddi NATO sem varnarbandalag en ekki sem sóknarbandalag.

Jón Gnarr greip orðið og svaraði fullum hálsi því sem Halla Tómasdóttir hafði sagt fyrr í kappræðunum um að Ísland ætti ekki að styðja við Úkraínu með vopnum, heldur með sáraumbúðum, stoðtækjum og manngæsku.

Hann sagðist hafa verið gegn NATO meirihluta ævi sinnar og alinn upp sem efasemdarmaður um NATO.

„Síðan snerist mér hugur þegar Rússar gerðu alvöru úr því að ráðast inn í Úkraínu. Eftir að hafa hitt yfirvöld í Úkraínu, [Volodimír] Selenskí og hans fólk, og þegar þeir eiga sér þann draum æðstan að fá að ganga í þetta bandalag til þess að fá þá vernd sem því fylgir. Við hvílum í þessari alþjóðlegu vernd og við getum ekki heldur og megum ekki leyfa okkur hræsni í því að sumir megi fá vopn og aðrir megi fá plástra eftir því sem hugnast okkur.

Hvað myndum við gera ef Rússar myndu ráðast á Ísland og það ætti að beita hervaldi til að reka Rússa héðan? Myndum við segja: „Nei, við viljum hjálpargögn og við viljum tala við þá.“ Við myndum aldrei gera það. Við myndum þiggja allt það vopnavald sem okkur væri boðið,“ sagði Jón Gnarr.

Baldur Þórhallsson sagði að lítið ríki eins og Ísland ætti allt undir því að alþjóðalög væru virt.

„Það er ótrúverðugt fyrir okkur að vera fólk í forsæti sem er ekki fylgjandi vestrænni varnarsamvinnu. Ég hef verið fylgjandi vestrænni varnarsamvinnu frá tímum kalda stríðsins vegna þess að hún er mjög mikilvæg, sérstaklega núna á þessum erfiðu hættutímum,“ sagði Baldur meðal annars.

Katrín svaraði þá Baldri.

„Ég hef gegnt embætti forsætisráðherra í á sjöunda ár, tekið þátt í öllu því alþjóðlega samstarfi sem fylgir því að vera í Atlantshafsbandalaginu og þar hefur ekki nokkur maður efast um minn trúverðugleika í því að ég sé að fylgja samþykktri utanríkisstefnu og þjóðaröryggisstefnu,“ sagði Katrín.

„Ég hef verið fylgjandi vestrænni varnarsamvinnu frá tímum kalda stríðsins vegna þess að hún er mjög mikilvæg, sérstaklega núna á þessum erfiðu hættutímum.

Baldur Þórhallsson

„Eins og við öll vitum hér þá eru auðlindirnar okkar mjólkurkýr hvers samfélags og þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að þjóðin fái að hafa aðkomu þarna.

Halla Hrund Logadóttir

„Alþjóðleg lög og reglur skipta okkur máli auðvitað sem litla þjóð og við eigum að standa með því. Ég er ekki mótfallin vestrænni samvinnu heldur fylgjandi henni.

Halla Tómasdóttir

„Við hvílum í þessari alþjóðlegu vernd [NATO] og við getum ekki heldur og megum ekki leyfa okkur hræsni í því að sumir megi fá vopn og aðrir megi fá plástra eftir því sem hugnast okkur.

Jón Gnarr

„Ég segi að þegar maður tekur ákvörðun um að gefa kost á sér í svona embætti þá er maður um leið að taka ákvörðun um að hollusta manns er við þjóðina eingöngu.

Katrín Jakobsdóttir

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson