Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Síðasti vinnudagur Jóhönnu Harðardóttur í Listasaumi í Kringlunni er í dag. Hún hefur selt saumastofuna og leitar nú á vit nýrra ævintýra. „Ég hef unnið baki brotnu allt mitt líf og tími er kominn til að slaka á. Eftir að hafa kvatt starfsfólkið og fastakúnnana ætla ég að fá mér gott að borða og fara svo út að ganga með litlu tíkina mína, en síðan tekur við langþráð frí og önnur verkefni.“
Víðáttan var og er mikil í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu, en unga sveitastúlkan vildi meira og þráði að fara til útlanda. „Ég flutti til Danmerkur þegar ég var 18 ára 1966 og bjó þar í 20 ár. Ég ætlaði bara að vinna í Kaupmannahöfn í eitt sumar og fara síðan í hjúkrun, en svo langaði mig ekkert til Íslands, fannst ég eiga heima í Köben.“
Jóhanna lærði snemma að sauma. „Mamma var mjög handlagin og ég var alltaf með 10 í handavinnu.“ Hún byrjaði samt ekki að vinna sem saumakona fyrr en eftir nokkur ár í Danmörku. „Auglýst var eftir fólki til að sauma föt fyrir sölusýningar. Ég sótti um, sex okkar voru tekin inn í prufu og ég síðan ein ráðin.“ Og þar með framtíðin líka.
Vandvirkni og vinnusemi
Vandvirkni móðurinnar skilaði sér til dótturinnar og árangurinn lét ekki á sér standa. Jóhanna fór á námskeið í saumaskap, blómstraði í vinnunni, giftist Dana og eignaðist með honum tvö börn, en eftir að þau skildu flutti hún með börnin til Íslands.
Eftir heimkomuna byrjaði Jóhanna að sauma fyrir einstaklinga og það spurðist út. „Ég vildi vera heima með ungu börnunum og saumaði til dæmis mikið fyrir alþingiskonur auk þess sem ég saumaði föt og seldi hinum og þessum.“ Vinnan vatt upp á sig og 1994 opnaði hún verslunina og saumastofuna Textilline í Faxafeni en flutti starfsemina fljótlega á Laugaveg. Síðan keypti hún Listasaum 2007 og var eins og þeytispjald á milli starfsstöðvanna, þótt hún væri með fólk í vinnu á báðum stöðum. „Þetta var algjör þrældómur og 2015 ákvað ég að loka Textilline og flytja allt mitt hafurstask í Kringluna.“
Undanfarin ár hefur Jóhanna einbeitt sér að fataviðgerðum og -breytingum, sérstaklega unnið með kjóla og annan kvenfatnað. Samfara aukinni sölu fata á netinu hefur hún haft yfrið nóg að gera, því málin passa engan veginn. „Við erum ekki öll 90-60-90. Stytta þarf buxurnar eða ermarnar, þrengja jakkann. Flestir þurfa að láta laga eitthvað.“
Föstum viðskiptavinum hefur fjölgað jafnt og þétt og þar hefur orðsporið mikið að segja. „Ég get ekki sagt nei, hef alltaf lagt áherslu á að skila öllu fallega frá mér og nýliðnar vikur hef ég unnið dag og nótt til að ljúka öllum verkum áður en ég hætti.“ Tvær ungar konur frá Víetnam hafa keypt fyrirtækið og hún segir þær hafa unnið hjá sér að undanförnu auk fjögurra starfsmanna, sem haldi áfram með nýjum eigendum.
„Ég er sátt og skila góðu búi.“ Hún rækti allt sitt grænmeti sjálf og í sumar ætli hún að rækta garð sinn fyrir austan fjall, ganga Kerlingarfjallahringinn og ljúka göngu á Jakobsveginum, sem hún byrjaði á fyrir 20 árum. „Ég elska að ganga, sérstaklega á Ítalíu, held lífinu áfram og byrja á því að ná áttum.“ Hún hafi tengst fjölda viðskiptavina sterkum böndum og ætli að kveðja traustu kúnnana og starfsfólk sitt klukkan 16 til 19 á saumastofunni í dag. „Ég býð föstu kúnnunum upp á kveðjuskál.“