[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Staða efstu manna er nánast óbreytt í síðustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið í þessari kosningabaráttu. Þar tróna þær Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir, en munurinn á þeim er svo lítill og vel innan vikmarka, að ekki má fullyrða að ein skari fram úr

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Staða efstu manna er nánast óbreytt í síðustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið í þessari kosningabaráttu. Þar tróna þær Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir, en munurinn á þeim er svo lítill og vel innan vikmarka, að ekki má fullyrða að ein skari fram úr.

Fylgi Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr hefur hins vegar áfram látið töluvert undan síga.

Miðað við þessar niðurstöður virðist því afar líklegt að næsti forseti Íslands verði kona, þó að sjálfsagt þurfi að bíða fram á sunnudagsmorgun til þess að vita hver hún verður.

Aðrar kannanir

Könnun Maskínu fyrir Stöð 2, sem birt var í gærmorgun, var um margt áþekk könnun Prósents; þar voru Katrín Jakobsdóttir og Halla Tómasdóttir efstar og hnífjafnar með 24,1%, en Hrund dalaði þar nokkuð, niður í 18,4%.

Hins vegar var raunin talsvert önnur í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ, sem birt var síðdegis í gær. Þar hafði Katrín Jakobsdóttir tekið afgerandi forystu með 26,3% fylgi, en Höllurnar tvær voru talsvert þar fyrir aftan með ríflega 18% og munurinn ekki tölfræðilega marktækur.

Ógerningur er að fullyrða um hver þessara kannana er réttust. Kannanir Maskínu og Prósents voru gerðar á nákvæmlega sama tíma, en Félagsvísindastofnun gerði sína könnun á liðlega viku.

Svörin hjá henni voru hins vegar einnig vegin með tilliti til þess hvenær þau bárust og jafnframt fengu svör þeirra, sem segjast harðákveðnir í að kjósa eða hafa þegar greitt atkvæði, meira vægi.

Frambjóðendur geta lesið sitt í þessar niðurstöður og kannski ekki síður sundurliðun á fylginu.

Hins vegar geta kjósendur einnig dregið sínar ályktanir, þær helstar að hvert atkvæði skipti máli, því augljóst er að ákaflega mjótt er á munum og allir þrír efstu frambjóðendurnir geta gert sér raunhæfar vonir um sigur.

Þar munu nöfnurnar að líkindum helst takast á, því í ljósi fylgisþróunar síðustu vikur má færa rök fyrir að fylgi þeirra sé lausara en annarra. Það má því gera ráð fyrir harðri baráttu allt þar til kjörfundi lýkur á laugardagskvöld.

Prósent

Framkvæmd

Prósent gerði netkönnun meðal 4.500 manns, 18 ára og eldri, í könnunarhópi Prósents frá 27. til 30. maí. 1.622 veittu svör, svo að svarhlutfallið var 49%.

Að svörunum fengnum eru þau vegin með tilliti til kyns, aldurs og búsetu, svo að þau endurspegli betur raunverulega samsetningu þjóðarinnar.

Höf.: Andrés Magnússon