[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magdeburg varð í gærkvöldi þýskur meistari í handbolta er liðið lagði Rhein-Neckar Löwen að velli, 34:21, í þýsku 1. deildinni. Íslendingarnir Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason leika með Magdeburg

Magdeburg varð í gærkvöldi þýskur meistari í handbolta er liðið lagði Rhein-Neckar Löwen að velli, 34:21, í þýsku 1. deildinni. Íslendingarnir Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason leika með Magdeburg. Ómar skoraði fimm mörk í leiknum, Janus skoraði tvö mörk og Gísli lagði upp eitt mark. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað með Rhein-Neckar Löwen. Þegar einni umferð er ólokið er Magdeburg með 60 stig í toppsætinu og Füchse Berlin í öðru sæti með 54.

Guðjón Valur Sigurðsson stýrði Gummersbach til sigurs, 34:28, gegn Flensburg. Gummersbach tryggði sér þar með sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili. Mun liðið spila í Evrópukeppni í fyrsta skipti frá árinu 2012. Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach en Arnór Snær Óskarsson komst ekki á blað. Teitur Örn Einarsson, verðandi leikmaður Gummersbach, skoraði tvö fyrir Flensburg.

Kieran McKenna hefur skrifað undir nýjan samning sem knattspyrnustjóri enska félagsins Ipswich Town til fjögurra ára eftir að hafa komið liðinu upp úr C-deild og í úrvalsdeildina á aðeins tveimur árum. Hann var unglingaþjálfari hjá Manchester United og síðan aðstoðarmaður knattspyrnustjóranna José Mourinhos, Ole Gunnars Solskjærs og Ralfs Rangnicks hjá félaginu.

Systkinin Sunna Rún Sigurðardóttir og Ingi Þór Sigurðsson hafa skrifað undir nýja samninga við Knattspyrnufélag ÍA til loka tímabilsins 2026. Ingi er tvítugur og hefur spilað með meistaraflokki ÍA frá 2020, samtals 81 leik fyrir félagið og hefur skorað 11 mörk. Sunna er 16 ára og hóf að spila með meistaraflokki ÍA 2022 og á að baki 53 leiki og 10 mörk fyrir félagið. Bróðir Inga og Sunnu er Arnór Sigurðsson, landsliðsmaður og atvinnumaður hjá Blackburn Rovers

Handknattleiksdeild Stjörnunnar hefur gengið frá samningi við Brynju Katrínu Benediktsdóttur en hún kemur til félagsins frá Val. Brynja lék með FH á síðustu leiktíð að láni frá Hlíðarendafélaginu en hún er uppalin hjá HK. Brynja er línumaður sem leikur með íslenska U20 ára landsliðinu og keppir á HM í aldursflokknum í sumar.

Átta Íslendingar munu taka þátt á Evrópumótinu í frjálsíþróttum í Róm sem hefst eftir rúma viku. Er það mesti fjöldi Íslendinga á EM í 66 ár. Hilmar Örn Jónsson úr FH, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR keppa í sleggjukasti. Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR og Sindri Rafn Guðmundsson úr FH keppa í spjótkasti. Daníel Ingi Egilsson úr FH keppir í langstökki, Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR keppir í kúluvarpi og Guðni Valur Guðnason úr ÍR keppir í kringlukasti.