Peter Holbrook fæddist 17. febrúar 1949. Hann lést 28. apríl 2024.

Útför fór fram 21. maí 2024.

Ég sá Peter Holbrook fyrst á bílastæði þaðan sem uppgönguleið byrjar á fjallið Ben Lomond í Skotlandi. Lopapeysur og íslenskutal okkar vakti gagnkvæma eftirtekt. Við Steinunn og ungar dætur okkar bara að horfa á landslagið; Helga og Peter að koma úr ferð á fjallstindinn. Við Helga þekktumst lítillega áður, en úr hittingnum á bílastæðinu varð hátt í fimm áratuga vinátta við Helgu Ögmundsdóttur og þennan einkar geðþekka og góða mann frá norðurhluta Englands. Meðan við öll bjuggum í Skotlandi og eftir að til Íslands kom.

Peter var tannlæknir að mennt og hneigðist snemma til fræðistarfa í sínu fagi. Varð einn af bestu fræðimönnum sinnar stéttar hér á Íslandi, – maður sem ávann sér alþjóðlega virðingu í sínu fagi. Rannsóknaáhugi hans og klínískt sérsvið sneri að örverusamfélagi munnholsins. Um það vissi hann meira en flestir og liðsinnti mörgum, einkum gegnum móttöku tannlæknadeildar og á Landspítalanum. Peter ritaði fjölda fræðigreina í sínu fagi og ritstýrði norrænu fagtímariti tannlækna í allmörg ár. Þau störf munu halda nafni hans á lofti. Hann tók þátt í að byggja upp fræðigrunn sinnar greinar á Íslandi í samvinnu við margt gott samstarfsfólk, þ.m.t. þekkingu á glerungseyðingu sem heilsufarslegu vandamáli í yngri aldurshópum. Þá valdist hann líka til trúnaðarstarfa innan háskólans fyrir hönd tannlæknadeildar.

Peter var ensk-skoskur á svo margan hátt, en einnig að hluta Íslendingur. Með árunum varð eiginlega erfiðara að tala við hann á ensku, – hann vildi tala íslensku. Svaraði Íslendingi á íslensku. Fyrir mann sem lærði íslensku á fullorðinsárum náði hann furðugóðu valdi á málinu. Þau Helga ferðuðust um landið og áttu sér gróðurvin og sælureit í Þjórsárdal rétt á fljótsbökkunum. Vegna starfa sinna í tannlæknadeild og læknadeild HÍ voru þau einnig mikið á ferð erlendis, ekki síst eftir að synirnir tveir hófu háskólanám og fluttust með sínum fjölskyldum á erlendar grundir. Það batt okkur enn frekar saman að Helga og Steinunn urðu nánar samstarfskonur um tólf ára skeið þegar stofnað var til árangursríks rannsóknastarfs á vegum krabbameinsfélaganna.

Peter var hógvær að eðlisfari, glaðlyndur og hafði ágætt skopskyn. Hafði skoðanir, þar með talið í sambandi við kennslu- og fræðastörf í tannlækningum. Fyrir fáeinum árum fór að bera á alzheimersjúkdómnum erfiða, sem smám saman slökkti á sál hans og getu. Ég mun þó hafa Peter í minningunni eins og hann var áður. Samkennd mín er og verður hjá Helgu, sonunum og fjölskyldum þeirra beggja. Ísland má þakka fyrir enn einn góðan fósturson.

Reynir Tómas
Geirsson.