Selfoss Góður árangur hefur náðst í jarðhitaleit á Selfossi, en þar hefur verið borað eftir heitu vatni nánast í miðjum bænum.
Selfoss Góður árangur hefur náðst í jarðhitaleit á Selfossi, en þar hefur verið borað eftir heitu vatni nánast í miðjum bænum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Átak umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í jarðhitaleit á köldum svæðum í fyrra og það sem af er þessu ári hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri. Orkusjóður hefur styrkt þær rannsóknir með von um að unnt verði að hitaveituvæða húsnæði í auknum mæli á þeim svæðum og draga þar með úr kyndingu með rafmagni eða jarðefnaeldsneyti og spara þannig fjármuni til framtíðar.

Gerð er grein fyrir stöðu þessara mála í minnisblaði ráðuneytisins sem lagt verður fyrir ríkisstjórn í næstu viku.

Kyrrstaðan rofin

„Kyrrstaðan hefur verið rofin. Einhverra hluta vegna höfum við ekki gert mikið í jarðhitaleit á köldum svæðum í tvo áratugi, en höfum nú algerlega breytt um stefnu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

„Það verður áfram lögð áhersla á að leita að jarðhita og þessir fjármunir sem við höfum sett í þetta eru að skila sér og eru smánunir í samanburði við þá 5 milljarða sem við setjum á hverju ári í jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum á landsbyggðinni,“ segir hann. Styrkurinn sem Orkusjóður veitir til þessara verkefna nemur alls 450 milljónum sem dreifast á þrjú ár.

Jarðhitarannsóknirnar hafa t.a.m. borið þann árangur í Tungudal í Skutulsfirði, við Ísafjarðarbæ, að fundist hefur 58 gráða heitt vatn í nýtanlegu magni sem gefur vonir um að unnt verði að hitaveituvæða bæinn í náinni framtíð. Áfram verður haldið, en áður hafði verið leitað á svæðinu án árangurs. Kemur fram í minnisblaðinu að framangreindar niðurstöður gefi ríkulega ástæðu til að halda rannsóknum áfram á þessum slóðum.

Á Patreksfirði hefur fundist volgt vatn sem gefur tilefni til frekari rannsókna. Á Glámaströnd, sunnan Hólmavíkur, hefur fundist hitakerfi sem geymir 100 gráðu heitt vatn og stendur til að bora vinnsluholu á svæðinu. Á Drangsnesi gefur ný hola 62 gráða heitt vatn sem nýtist hitaveitunni á staðnum og þar með íbúum.

Í Grundarfirði voru boraðar tíu holur og er hver ríflega 200 metra djúp. Var hringrásarkerfi til varmasöfnunar lagt í holurnar og nýtist vatnið til kyndingar skóla- og íþróttamannvirkja í bænum og var olíukyndingu þar skipt út.

Þá er jarðhitaleit í gangi eða undirbúningi á Djúpavogi, í Vopnafirði og Skaftárhreppi, en hefur ekki skilað árangri enn. Á Djúpavogi var borað eftir heitu vatni snemma árs, en 800 metra djúp rannsóknarhola hefur hvorki gefið nægjanlegt vatnsmagn né hita. Ekki hefur enn verið borað í Vopnafirði, en mælingar gerðar í eldri holum.

Jarðhitaleit á öðrum slóðum

Hvað varðar jarðhitaleit á öðrum slóðum en þeim sem fyrr eru nefndar kemur fram að Veitur leiti að heitu vatni í nágrenni núverandi veitusvæða. Miklar líkur eru sagðar á að vinnanlegur jarðhiti finnist á einhverjum þeirra, enda lofi fyrstu niðurstöður rannsókna góðu.

Þar ber helst að nefna að á Álftanesi hafa verið boraðar níu svokallaðar „hitastingulsholur“ en orðið hitastingull er notað yfir aukningu á hitastigi eftir því sem neðar dregur frá yfirborði jarðar. Frekari boranir eru áformaðar þar vegna hækkandi hitastinguls. Svipaða sögu er að segja af Kjalarnesi þar sem holurnar eru á annan tug talsins, en boranirnar þar hafa leitt í ljós að þar er jarðhitakerfi að finna. Djúp rannsóknarhola hefur verið staðsett þar af því tilefni.

Einnig leita Veitur að jarðhita á Borg á Mýrum sem og á Laugalandi í Holtum og eru boranir í gangi.

Selfoss og Reykjanes

Góður árangur hefur náðst hjá Selfossveitum við boranir eftir heitu vatni. Hafa tvær vinnsluholur verið boraðar í ár og í fyrra, önnur við Hótel Selfoss en hin norðan Ölfusár og verður sú virkjuð fyrir næsta vetur. Þá hafa verið boraðar tvær hitastingulsholur vestan Selfoss með von um að þar finnist ný vinnslusvæði svo unnt verði að dreifa álagi á þau sem fyrir eru. Þá hefur vinnsluhola í Vaðnesi Í Grímsnesi skilað góðum árangri sem tryggja á vöxt hitaveitunnar. Einnig er jarðhita leitað við Laugarvatn og í Reykholti í Bláskógabyggð.

HS Orka hefur leitað jarðhita á Reykjanesi og staðsett þrjár rannsóknarholur, en jarðhitaleit þegar kemur að lághita hefur legið niðri á þeim slóðum frá árinu 2000. Borun fyrstu holunnar, sem er á Njarðvíkurheiði, er lokið og verða afköst hennar metin þegar endanleg niðurstaða á vatnsmagni verður ljós á næstu vikum. Ljóst mun þó orðið að holuna verður hægt að nýta með varmadælu og getur þannig nýst til að létta álagi af núverandi hitaveitu, eða þegar neyðarástand í hitaveitumálum skapast, t.a.m. vegna eldsumbrota.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson