Kristín Sigurrós Markúsdóttir fæddist 4. nóvember 1965. Hún lést 11. maí 2024 á Landspítalanum Hringbraut í faðmi fjölskyldunnar.

Kristín er dóttir hjónanna Markúsar R. Þorvaldssonar, f. 12. mars 1945, og Sesselju Ingu Guðnadóttur, f. 28. febrúar 1948.

Börn Kristínar eru: 1) Linda Ýr Sveinsdóttir, f. 11. janúar 1985, og eru börn hennar Aníta Rán, f. 30. júní 2003, og Gestur Natan, f. 22. maí 2009. 2) Markús Vilberg Ingvarsson, f. 18. júlí 1991, unnusta hans er Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir, f. 24. maí 1993, börn þeirra eru Kristný Ósk, f. 3. apríl 2011, og Jóhann Ingi, f. 12. júlí 2016.

Krstín ólst upp í Fossvoginum og var elst þriggja systkina. Hún vann að mestu við aðhlynningu aldraðra ásamt barnauppeldi. Seinni ár vann hún fyrir Bridgefélag Reykjavíkur, þar sem hún sá um veitingar fyrir æfingar og mót.

Kristín verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 31. maí 2024, klukkan 15.

Elsku besta mamma mín.

Tek oft upp símann og ætla að hringja í þig eða senda skilaboð til að spyrja þig hvar hlutir séu eða fá þitt álit vegna skipulagningar á þinni eigin jarðarför, fatta síðan að ég get ekki hringt í þig og að sá dagur mun ekki koma aftur sem þú svarar í símann. Það vekur alls kyns tilfinningar, það mun taka langan tíma að átta mig á að ég geti það ekki framar.

Veit að þú ert komin á góðan stað núna þar sem þér líður vel og finnur ekki fyrir verkjum.

Þú varst límið í fjölskyldunni, hélst öllum saman og passaðir upp á okkur öll.

Öll jólaboðin, afmælisboð, veislurnar sem þú hafðir mikið fyrir því að skipuleggja því þér þótti það gaman og mikilvægt að fólk fagnaði saman.

Þú veiktist mjög snögglega en barðist eins og sannkölluð hetja, sem er mér óskiljanlegt að nokkur manneskja komist í gegnum miðað við þær þjáningar sem þú þurftir að bera. En lífskrafturinn var mikill, þig langaði að eyða meiri tíma með börnunum þínum, tengdadóttur, barnabörnum, vinum og ættingjum eins og þú sagðir sjálf.

Takk fyrir að leyfa mér að halda í höndina á þér og segja falleg orð við þig þegar þú tókst þinn síðasta andardrátt, elsku besta mamma mín.

Vissi að það yrði erfitt að kveðja þig en gerði mér enga grein fyrir að þetta er erfiðara en orð fá lýst.

Er stolt af þér, stolt af því að vera dóttir þín, mun passa upp á litla prinsinn okkar og hans fjölskyldu, veit að þú ert mjög stolt af okkur bróður mínum, hvað við erum samstiga að gera þessa jarðarför eins fallega og þú átt skilið.

Elska þig, vonandi er líf eftir þetta og við hittumst aftur.

Kveðja, þín dóttir,

Linda Ýr Sveinsdóttir.

Elsku Stína æskuvinkona mín, mikið sem höggið er sárt að þú sért farin á vit nýrra ævintýra.

Við ólumst upp í Blesugróf frá því við fæddumst og áttum margar góðar stundir saman, þú varst mjög oft hjá okkur og sóttir í öryggið á okkar heimili og hlýju sem þú fékkst þar. Lífið var ekki alltaf sanngjarnt við þig en þú eignaðist tvö dýrmæt börn sem þér tókst að skila vel út í lífið. Eiga þau erfiðan tíma fram undan án þín, en ég veit að þau munu halda uppi minningu um góða ömmu við elsku barnabörnin þín. Nú ertu komin til Sigrúnar þinnar sem þér þótti svo vænt um.

Vonandi hittir þú líka Ásgeir minn sem fór allt of snemma eins og þú elsku vina og Sigga hennar Stínu bestu vinkonu þinnar sem fór á þessu ári líka, stórt er höggið hjá henni að missa ykkur bæði með stuttu millibili.

En eins og þú vildir þá skálum við vinkonurnar fyrir þér og hlýjum okkur við góðar minningar um þig elsku vina.

Rósin

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður kyssa blómið

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur Halldórsson)

Þín æskuvinkona,

Anna Margrét
Þorfinnsdóttir.

Elsku Stínan mín, það er þungt að hugsa til þess að ævintýrin okkar verði ekki fleiri og að við séum búnar að kveðjast í síðasta skipti, með fingurkossi og buðum góða nótt, í dyragættinni á stofunni á Landspítalanum, þegar ég heimsótti þig áður en ég fór í helgarferð til Köben nú í maíbyrjun. Minningar um þig voru þar í hverju skrefi úr óteljandi heimsóknum þínum til mín.

Ég man svo vel þegar ég hitti þig fyrst hjá Laufeyju í Möðrufellinu. Ekki grunaði mig þá að við ættum eftir að verða svona miklar perluvinkonur. Þú varst alltaf tilbúin að hjálpa mér þegar eitthvað bjátaði á með góðum ráðum, spjalli, heimsóknum og bara að hafa samband og vera til staðar, stoð mín og stytta í gegnum svo margt.

Árin í Breiðholtinu voru svo litrík og skemmtileg og mikill samgangur enda stutt að skjótast á milli. Ég hafði áhyggjur af því að við myndum missa sambandið þegar ég flytti til Köben, en það var nú aldeilis ekki. Þú elskaðir að ferðast og það er ekki hægt að telja hversu oft þú komst í heimsókn til mín og alltaf jafn gott að hafa þig hjá mér.

Ævintýrin okkar voru alls konar, ekkert alltaf þau skynsamlegustu, en skemmtileg voru þau og það var alltaf gaman hjá okkur, hvort sem það var á djamminu, í göngutúrum, spjalli yfir kaffibolla eða á prjónakvöldunum okkar. En við gátum líka rifist og sæst aftur og haft hvor sína skoðun á hlutunum, já það var sannarlega pláss fyrir allt í okkar vinskap og fyrir það verð ég alltaf óendanlega þakklát. En það voru líka erfið tímabil, blankheit og ýmislegt sem kom upp á í gegnum tíðina, en þú gafst aldrei upp og komst í gegnum erfiðleikana, varst úrræðagóð og stóðst sterkari upp. Æðruleysið sem þú hafðir í þínum veikindum og styrkurinn var aðdáunarverður. Brosið þitt, grín og smá svartur húmor inn á milli, var ekki langt undan frekar en vanalega.

Elsku Linda, Markús, Ingibjörg, Aníta Rán, Gestur Natan, Kristný Ósk, Jóhann Ingi, fjölskylda og vinir, ég votta ykkur öllum samúð mína og megi guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Elsku vinkona, það verða fallegir og góðir englar sem taka á móti þér á þessu síðasta ferðalagi. Góða ferð og guð geymi þig.

Þín vinkona,

Ólöf Ólafsdóttir (Olla).