Gleði Listamenn á INTO í fyrra, í Assedrup í Danmörku. Aðalheiður er fyrir miðju í grænum kjól.
Gleði Listamenn á INTO í fyrra, í Assedrup í Danmörku. Aðalheiður er fyrir miðju í grænum kjól.
INTOO nefnist alþjóðleg hátíð skapandi fólks sem haldin verður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og víðar um bæinn 7.-9. júní. Fjölbreyttur hópur listafólks tekur þátt með „opinn huga og einlæga löngun til að verða fyrir áhrifum hvert af öðru og af…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

INTOO nefnist alþjóðleg hátíð skapandi fólks sem haldin verður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og víðar um bæinn 7.-9. júní. Fjölbreyttur hópur listafólks tekur þátt með „opinn huga og einlæga löngun til að verða fyrir áhrifum hvert af öðru og af heimafólki“, eins og segir á vef Listahátíðar í Reykjavík en INTO er hluti af dagskrá hennar. Stjórnendur INTOO eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Bandaríkjamaðurinn Will Owen sem hafa áður unnið saman að sýningarverkefnum í Danmörku og hér á landi í samstarfi við listastofnanir og heimafólk. INTO var haldin í fyrsta sinn í fyrra í Assedrup í Danmörku og er stefnt að því að hún verði haldin í New York á næsta ári. Fyrsta hátíðin var með einu O-i, sú næsta tveimur og sú þriðja verður með þremur, þ.e. INTOOO.

Á hátíðinni á Siglufirði verður boðið upp á myndlistarsýningar, gjörninga, útilistaverk, tónleika og ljóðalestur og fara viðburðir fram í Alþýðuhúsinu og víðar um bæinn, innandyra sem utan. Aðalheiður segir þau Owen hafa hleypt hátíðinni af stokkunum í smábæ í Danmörku, skammt frá Árósum, í fyrrahaust og hún hafi þótt takast svo vel að þau hafi ákveðið að gera hana að þríleik, halda hátíðina fyrst í Danmörku, næst á Siglufirði og loks í Bandaríkjunum.

Kynntust í Árósum

Listamenn sem taka þátt í INTOO festival í Siglufirði eru fyrrnefnd Aðalheiður og Owen, Arnar Ómarsson, Styrmir Örn Guðmundsson, Bergþór Morthens, Arna Guðný Valsdóttir, Andri Freyr Arnarsson, Ditte Lyngkær Pedersen, Brák Jónsdóttir, Anders Visti, Magnus Trygvason Eliassen, Tumi Árnason, Brynja Hjálmsdóttir, Tommy Nguyen, Sholeh Asgary, Katrin Hahner, Haraldur Jónsson, Örlygur Kristinsson og Venus Volcanism.

En hver er Will Owen? „Hann er myndlistarmaður og vinnur reyndar í tónlist líka, eins og svo margir. Hann er meðlimur í listahópi sem kallar sig Flux Factory og er með aðsetur í New York en meðlimir eru alls staðar að úr heiminum. Owen hefur líka verið að kenna listir í listaháskólum, í Fíladelfíu og New York, en er aðallega að vinna að eigin myndlist, mest í Fíladelfíu en er líka mikið að þvælast um heiminn og vinna í listaresidensíum. Þar vinnur hann að sinni list og í samvinnu við listasöfn eða borgir,“ svarar Aðalheiður.

Leiðir þeirra Owens lágu saman í Árósum og segir Aðalheiður að fyrir tilviljun hafi þau á undanförnum sjö árum eða þar um bil alltaf verið stödd á sama tíma þar í borg, þ.e. hún og fyrrnefndur listhópur, Flux Factory. Aðalheiður segist hafa verið tíður gestur í Árósum í mörg ár þar sem hún hefur dvalið og unnið að sínum verkum á gamalli brautarstöð sem nefnist Institut for X og þjónar nú list og skapandi starfi.

Flux Factory hefur átt í farsælu samstarfi við Aros, listasafnið í Árósum, í nokkur ár, og verið með opna listasmiðju í þrjá mánuði ár hvert frá 2018. Aðalheiður segist hafa fylgst grannt með starfi hópsins í nokkur ár og verið boðið að taka þátt í því. „Tvisvar hef ég tekið þátt í þessari smiðju með þeim í heilan mánuð á Aros-listasafninu,“ segir Aðalheiður. „Þar lærðum við að vinna saman, ég og Will, og sýningarstýrðum í verkefnarýminu þar.“

Aðalheiður býr að mikilli reynslu þegar kemur að listsköpun og þá bæði sem þátttakandi og skipuleggjandi viðburða. Hún býr því að sterku tengslaneti, sem blaðamaður spyr hana nánar út í, bæði í gegnum störf sín á Siglufirði og aðkomu að starfseminni í Listagilinu á Akureyri. „Ég var ein af þeim sem tóku þátt í að byggja upp starfsemina í Listagilinu, byrjaði þar fyrir 30 árum og var þar með mína starfsemi í 15 ár. Ég vann mjög mikið með Listasafninu á Akureyri og öllu sem þar var,“ segir hún og þar hafi hún myndað mikið tengslanet og auk þess rekið gallerí á vinnustofu sinni, Kompuna. „Ég flutti síðan út í sveit árið 2004 og þá varð ég ein af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Þar var ég ötul og kraftmikil þangað til ég fór að leggja starfskrafta mína í Alþýðuhúsið árið 2012,“ rifjar Aðalheiður upp. Við þetta má bæta að í fyrra hlaut hún Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, og var sú viðurkenning veitt til tveggja ára. Þar af leiðir samstarfið við Listahátíð í Reykjavík.

Stuðningur frá samfélaginu

Aðalheiður nefnir að samfélagið norður á Siglufirði sé mjög þakklátt fyrir þetta menningarstarf og fyrirtæki og bæjarfélagið styðji við starfsemina með ýmsum hætti. „Siglufjörður og Siglfirðingar eru vanir því að bjarga sér sjálfir, bíða ekki eftir því að einhver annar geri hlutina. Það hefur alltaf verið mjög ríkt menningarlíf hérna á Siglufirði þótt nútímalistir hafi kannski komið í miklu meiri mæli inn í samfélagið eftir að ég hóf starfsemi hérna,“ segir Aðalheiður. „Það hefur verið hérna alls konar kórastarf, leiklist, myndlistarsýningar og margt sem hefur sprottið upp hérna á síðustu tólf árum, á sama tíma og ég hef verið að byggja upp í Alþýðuhúsinu. Auðvitað hefur þetta mikið að segja og ekki bara fyrir bæjarfélagið og fólkið í bænum heldur líka þá sem koma. Það er augljóst að það listafólk sem kemur í bæinn og tekur þátt í þessum hátíðum er að upplifa mjög mikið, upplifa þetta litla samfélag og tengjast fólkinu sem hér er. Sumir eignast jafnvel vini fyrir lífstíð.“

Hvað val á listamönnum hátíðarinnar varðar segist Aðalheiður fyrst og fremst sækjast eftir góðu fólki. „Í gegnum allt þetta starf mitt við að miðla listum annarra hef ég kynnst fólki og sumt af því er í uppáhaldi hjá mér,“ segir hún. „Ég er listamaður sjálf og veit hvað það er dásamlegt að fá einhvers konar leikvöll þar sem er frelsi til að skapa og vera þú sjálf án þess að fara eftir einhverjum kröfum um að vera svona eða hinsegin.“

Að lokum er Aðalheiður spurð út í heiti hátíðarinnar og segir hún það vísa til vangaveltna hennar, Owens og Arnars. Þau hafi viljað seilast eftir því sem byggi innra með fólki. „Komast að kjarnanum, hjartanu, inn fyrir skelina,“ segir hún. Frekari upplýsingar má finna á intofestival.world og listahatid.is.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson