Jón Sævar Jörundsson fæddist í Reykjavík 19. apríl 1955. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 23. maí 2024.

Hann ólst upp í Reykjavík til 12 ára aldurs og flutti þá með fjölskyldu sinni á Sunnuflöt í Garðabæ. Foreldrar hans voru Jörundur Kristinsson, f. 16. ágúst 1930, d. 24. apíl 2005 og Auður Waagfjörð Jónsdóttir, f. 19. febrúar 1929, d. 15. september 2010. Systkini Jóns eru Kristinn, f. 1950, Kristín Bára, f. 1953, Alda Guðrún, f. 1957, Anna Sigríður, f. 1958 og Jörundur, f. 1968.

Jón kvæntist Ritu Arnfjörð Sigurgarðsdóttir f. 7. september 1955. Börn þeirra eru:

1) Hrund Sverrisdóttir, f. 1975, maki Burkni Reyr Jóhannesson. Börn þeirra eru Bjarmar Ernir, Birnir Breki og Emilía Ína.

2) Sigurgarður Sverrisson, f. 1976, maki Tuktar Insorn. Börn þeirra eru Katanyu, Kotchakon og Sóley.

3) Hrannar Jónsson, f. 1985. Börn hans eru Anja Rut og Tómas Breki.

4) Auður Waagfjörð Jónsdóttir, f. 1988, maki Nikolaj Mehl. Börn þeirra eru Aron Atli, Axel Ari, Rita Waagfjörð og Jón Atlas.

5) Rut Arnfjörð Jónsdóttir, f. 1990, maki Ólafur Gústafsson. Börn þeirra eru Gústaf Bjarki og Markús Arnfjörð.

Jón var aktívur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það var í vinnu eða íþróttastarfi. Jón átti glæstan feril í körfubolta, spilaði og þjálfaði hjá ÍR og á einnig landsleiki að baki. Hann tók virkan þátt í íþróttastarfi barna sinna og var virkur í uppbyggingu kvennahandboltans á Íslandi, sat m.a. í stjórn HK og kvennastjórn HSÍ. Lengst af sínum starfsferli starfaði Jón við skrifstofustörf og síðustu árin hjá VHE.

Jón verður jarðsunginn frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 31. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við góðan dreng, Jónsa bróður okkar. Stórt skarð er höggvið í systkinahópinn. Jónsi var þriðji í röðinni af okkur sex systkinunum, en kveður fyrstur. Hann var ljúfur og góður drengur allt sitt líf.

Jónsi var mikill íþróttamaður og kynntist ungur körfuboltanum í Langholtsskóla hjá Einari Ólafssyni, sem oft er nefndur faðir körfuboltans á Íslandi.

Hann æfði og keppti í körfubolta fyrir ÍR alla tíð og vann marga titla með liðinu, auk þess sem hann kom að þjálfun flestra flokka félagsins. Þá var Jónsi einnig mörg ár í landsliði Íslands í körfubolta og átti nokkra tugi landsleikja að baki.

Það var helst á vellinum sem þessi ljúfi drengur skipti skapi enda mikill keppnismaður. Hann átti erfitt með ef dæmt var á hann að ósekju að honum fannst. Hann var mjög tilfinningaríkur og með mikla réttlætiskennd.

Hann tók virkan þátt í íþróttastarfi bæði innan sem utan vallar. Meðal annars áttu þau hjónin stóran þátt í uppbyggingu kvennahandboltans innan HK.

Jónsi var lánsamur maður í einkalífinu, hann kynntist snemma eiginkonu sinni Ritu og eignaðist með henni þrjú börn. Fyrir átti Rita tvö börn sem Jónsi talaði alltaf um sem sín börn. Hann var mikill fjölskyldumaður og sá ekki sólina fyrir börnum sínum og barnabörnum.

Rita var kletturinn í lífi hans, sem kom berlega í ljós seinustu árin þegar heilsubrestur gerði vart við sig hjá Jónsa. Þar hefur mikið mætt á henni og hún staðið sig frábærlega. Það erum við systkinin þakklát henni fyrir. Missir hennar er mikill þar sem þau voru mjög samrýnd í sínu lífi.

Við kveðjum Jónsa bróður með trega en jafnframt þakklæti í hjarta.

Kristinn, Kristín Bára, Alda Guðrún, Anna Sigríður og Jörundur.