Gunnar M. Sigurðsson húsasmíðameistari fæddist á Hafursstöðum á Skagaströnd 27. ágúst 1938. Hann lést á heimili sínu 5. maí 2024. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Bergmann Magnússon bóndi, f. 1910, d. 1997, og Ólína R. Ólafsdóttir húsmóðir, f. 1915, d. 2007.

Gunnar var annar í röð þriggja bræðra, hinir eru Ólafur, f. 1936, d. 2017 og eftirlifandi er Ragnar, f. 1944. Gunnar ólst upp á Sauðárkróki og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1954. Hann hóf nám í Iðnskóla Sauðárkróks 1966 og lauk þaðan prófi með húsasmíði sem aðalfag og sveinsprófi árið 1969.

Hann hóf nám í meistaraskóla Iðnskólans í Reykjavík 1970 og lauk þaðan prófi og öðlaðist meistararéttindi í húsasmíði árið 1972. Hann stóð fyrir fjölmörgum byggingarframkvæmdum, mest á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnar kvæntist Kristínu B. Þorkelsdóttur húsmóður, f. 1946 í Kjós, árið 1970. Þau bjuggu í Reykjavík. Börn Gunnars og Kristínar eru: 1) Sigríður, f. 1970, sambýlismaður Einar G. Brynjólfsson og eiga þau tvo syni: Tristan Bergmann, f. 2011, og Björn Jaka Bergmann, f. 2019. Sigríður á fjóra syni með fyrrverandi sambýlismanni, þeir eru: Gunnar Bergmann Guðmundsson, f. 1988, Brynjar Bergmann Guðmundsson, f. 1988, Vilhjálmur Bergmann Guðmundsson, f. 1990 og Friðrik Bergmann Guðmundsson, f. 4.10. 1992, d. 19.2. 2024. 2) Arnbjörg, f. 1973, hún á tvær dætur: Kristín Björg Bergmann Þórsteinsdóttir, f. 1989 og Sædís Ósk Arnbjargardóttir, f. 2000 og hennar maður er Jakob Leskopf Gautason. 3) Sigurður, f. 1978, sambýliskona Aníta H.B. Lindudóttir og eiga þau eina dóttur saman: Kolka Rán, f. 2022. Sigurður á tvo syni með fyrrverandi sambýliskonu sinni, þeir eru: Óðinn Bragi Bergmann, f. 2007 og Úlfur Ingi Bergmann, f. 2010. Aníta á tvö börn af fyrri samböndum. Dóttir Gunnars af fyrra sambandi er Ólína R. Gunnarsdóttir, f. 1965. Sonur Kristínar af fyrra sambandi er Þorkell A. Egilsson, f. 1967.

Gunnar var ungur farinn að vinna og var meðal annars til sjós áður en hann lagði smíðarnar fyrir sig. Gunnar var um þrítugt þegar hann flutti til Reykjavíkur og þar bjó hann og starfaði alla sína ævi. Hann var atkvæðamikill í byggingarframkvæmdum í gegnum tíðina og kom hann að mörgum byggingarframkvæmdum, mest á Reykjavíkursvæðinu.

Útför Gunnars verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 31. maí 2024, klukkan 14.

Elsku hjartans pabbi minn, kletturinn í lífi mínu. Þær eru margar minningarnar sem streyma fram frá liðnum tímum. Við systkinin höfum notið þess að vera í nánu sambandi við þig og mömmu og mikill samgangur á milli okkar alla tíð. Þú varst mikill hugsuður með sterkar skoðanir, áhuga og þekkingu á mörgum sviðum, þess vegna var alltaf gaman og fróðlegt að spjalla við þig, elsku pabbi minn. Þakklæti er mér ofarlega í huga þegar hugurinn reikar um minningar liðinna ára. Þakka þér fyrir að vera pabbi minn. Þakka þér fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og drengina mína.

Þakka þér fyrir öll samtölin og sögurnar. Þakka þér fyrir tímann sem við störfuðum saman. Þakka þér fyrir góðvildina. Þakka þér fyrir umhyggjuna. Þakka þér fyrir styrkinn á góðum og erfiðum tímum í mínu lífi. Elsku pabbi, þetta eru búnir að vera erfiðir mánuðir síðan Friðrik féll frá og nú hefur þú kvatt okkur einnig. Þið voruð tveir af mínum uppáhaldsmönnum. Söknuðurinn er óendanlega sár. Það er mér huggun í miklum harmi að minn heittelskaði Friðrik verði jarðsettur með þér í dag pabbi minn og hann muni hvíla hjá þér norðan heiða. Ég mun herða mig upp og halda áfram. Við pössum mömmu sem hugsaði svo vel um þig síðastliðið ár þegar heilsu þinni fór að hraka, Bogga systir vakti einnig yfir þér öðrum fremur og hugsaði um þig af einstakri alúð og hlýju. Við töluðum oft um að rækta skóg á landinu okkar og nú verður það verkefni okkar systkina til heiðurs minningu þinni og Friðriks, skógurinn mun fá nafnið Friðriksskógur. Elsku pabbi minn og Friðrik minn, þið munuð lifa í huga mínum og hjarta um ókomna tíð og ég mun halda minningu ykkar á lofti með því að tala um ykkur og tala við ykkur um ræktun Friðriksskógar. Lífið er mér hulin ráðgáta og margar spurningar sem ég fæ engin svör við, ég vona að svörin fáist þegar við hittumst aftur pabbi minn, ég elska þig. Far þú í friði, friður guðs þig blessi.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag

megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi

þig Guð í hendi sér.

(Bjarni Stefán Konráðsson)

Þín dóttir,

Sigríður.

Elsku hjartans pabbi minn, nú ertu farinn, komið er að kveðjustund og minningarnar streyma fram.

Þú varst mikill fjölskyldumaður, heimakær varstu og þið mamma nutuð þess að vera heima í samvistum hvort við annað. Þið fylgdust vel með þjóðmálunum, höfðuð áhuga á málefnum líðandi stundar, bókmenntum og mannlífinu almennt. Samtöl ykkar um menn og málefni fylgdu ykkur svo í gegnum dagana. Tilveran er tómleg án þín. Mamma finnur sérstaklega mikið fyrir því og hún saknar þín mikið. Það er með söknuði og trega sem ég hugsa til þess að heyra ekki í þér og sjá þig nær daglega eins og þetta var hjá okkur núna síðastliðin ár.

Þú varst góðviljaður og vildir öllum vel. Þú og mamma hafið hjálpað og stutt við mig og mínar dætur í gegnum tíðina og þú varst þeim einkar mikilvægur þar sem ég var ein með stelpurnar. Þú varst líka stór persóna hjá ömmustráknum mínum og hann hefur talað mikið um þig og spurt stórra spurninga eins og hvenær kemur langafi aftur og af hverju er hann farinn. Pabbi minn, nærveran þín, húmorinn, viskan þín og sögurnar, og allt. Ég á eftir að sakna þín.

Þakklætið er mér ofarlega í huga núna þegar ég set þessi örfáu orð saman til þín, þakklæti fyrir allt og allt. Þú varst búinn að vinna mikið alla þína ævi og lagðir mikið á þig fyrir okkur fjölskylduna þína. Hvíl í guðs friði, elsku pabbi minn, og hjartans þakkir fyrir allt og allt. Ég elska þig, pabbi minn.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Arnbjörg (Bogga).

Það var klukkan hálftíu á sunnudagsmorgni þann 5. maí síðastliðinn að síminn hringdi.

Bogga systir var á hinum endanum og tilkynnti: pabbi er farinn, pabbi er dáinn.

Orðin voru fullskilin og lét ég Boggu vita að ég væri leiðinni suður til Reykjavíkur svo fljótt sem auðið var, en samt sem áður voru orðin óraunveruleg.

Veruleikinn varð svo kristalskýr þegar ég sá þig pabbi minn heima í hvílu þinni og ekki lengur meðal vor.

Ætli það hafi ekki verið árið 1983 og sennilega síðsumars, ég sit í aftursætinu á brúna Volvonum og er á leiðinni með þér í vinnuna.

Ég og þú komum á vinnustaðinn þar sem verið er að byggja risastórt hús, sem ég vildi strax skoða, en fyrst þurftir þú að tala við alla mennina.

Loksins var hægt að labba af stað til skoða þetta risastóra hús, við gengum eftir þröngum malarstíg í nánast lóðréttum halla fram hjá grunni við enda byggingarinnar, en pabbi, ég man hvað þú varst hálfskelkaður yfir því hvað ég var ákafur á þessum varasama stíg og ákvaðst því að halda fast í hönd mína.

Mér fannst náttúrulega engin þörf á slíkum ráðstöfunum, en þú sannfærðir mig um að það væri aðeins nauðsynlegt að halda í hönd mína rétt á meðan gengið væri þennan varhugverða stíg en svo mætti ég valsa um, þó ekki langt frá þér.

Áður en hægt var að ganga inn í þessa ævintýraveröld sem þessi bygging leit út fyrir vera í mínum barnshuga, þurftir þú ræða við mann í hvítum prófessoraslopp, enda kom það á daginn að þú varst að takast á við byggingu á tannlæknadeild Háskóla Íslands eða Tanngarðinum eins og það hús þekkist í dag.

Eftir þessa ferð var ég kominn á bragðið og oft þurftuð þið mamma að ná mér út úr brúna Volvonum með ýmsum gylliboðum þegar þú ætlaðir að fara af stað til vinnu, en þá hafði ég laumast út á undan þér og læst mig inni í bílnum.

Frá því að ég byrjaði að muna eftir okkar samtölum varstu þú oft að segja frá einhverjum viðburðum sögunnar eða segja frá sögulegum tímabilum siðmenningar gegnum aldirnar til nútímans, líka vísindum og stjörnufræði.

Áhugi minn var misjafn eftir viðfangsefni samtalsins eða kannski var þetta meira til að byrja með fyrirlestur sem þú hélst fyrir mig.

Síðar fór ég smám saman að geta komið með innslög í fyrirlestrana þína en ekki vegna þess að ég hefði lesið eitthvað heldur með tilvísun úr öðrum fyrirlestri um sama efni.

Það væri létt verk að skrifa margar blaðsíður um liðnar stundir okkar saman og þær stundir sem við áttum öll saman sem fjölskylda, sérstaklega þegar við fórum norður að heimsækja ömmu og afa og Óla frænda.

Það var alltaf sól og hlýja þegar ég hugsa til liðinna tíma með þér elsku pabbi minn, ég vildi óska að ég gæti hringt í þig eða komið heim til að ræða um heima og geima.

Þú ert hetjan mín og kletturinn minn og lifir í huga mínu og hjarta eins og hjá okkur öllum uns ljós veraldarinnar slokkna.

Þinn sonur,

Sigurður
Bergmann.