Katrín Ósk Adamsdóttir Heinicke
Aldrei áður hafa verið svona margir frambjóðendur til forseta.
Það er úr vöndu að velja, að velja vel. Það eru margir mjög frambærilegir í boði.
Ég dáist að öllu þessu fólki að vera tilbúið að vera með sitt líf fyrir opnum tjöldum.
Allt er þetta glæsilegt fólk en ég leyfi mér samt að efast um að það eigi allt erindi í embætti forseta Íslands. Það verður erfitt þegar atkvæðin skiptast á svo marga að fá almennilega marktæka niðurstöðu. Mín upplifun er sú að þeir sem setja X við atkvæði frambjóðanda sem hefur enga möguleika á að ná kjöri séu að henda atkvæðinu í ruslið.
Af öllu sýnist mér valið standa á milli Katrínar Jakobsdóttur, Höllu Hrundar Logadóttur og Höllu Tómasdóttur. Mér persónulega hugnast ekki að fá Katrínu í þetta embætti og það þrátt fyrir að við séum nöfnur. Í upphafi leist mér pínulítið á Katrínu þrátt fyrir að vera ekki sátt við hana sem stjórnmálamann. Þegar hún tók svo ákvörðun um að setja Bjarna Benediktsson í forsætisráðherrastólinn hvarf öll mín trú á henni. Eftir að hafa kynnt mér frambjóðendur kem ég til með að setja X við Höllu Tómasdóttur en finnst nafna hennar einnig henta vel í embættið. Nýtið atkvæðisrétt ykkar og mætið á kjörstað. Við getum haft áhrif.
Höfundur er lífeyrisþegi og heilbrigðisritari í hlutastarfi.