Ríkisfyrirtæki Landsbankinn greiðir tæpa 29 milljarða króna fyrir TM.
Ríkisfyrirtæki Landsbankinn greiðir tæpa 29 milljarða króna fyrir TM. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kvika banki og Landsbankinn undirrituðu í gær kaupsamning um kaup Landsbankans á öllu hlutafé TM trygginga (TM). Landsbankinn greiðir Kviku 28,6 milljarða króna í reiðufé fyrir félagið, en samkvæmt tilkynningu frá báðum aðilum miðast kaupverðið við efnahagsreikning TM í lok árs 2023

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Kvika banki og Landsbankinn undirrituðu í gær kaupsamning um kaup Landsbankans á öllu hlutafé TM trygginga (TM).

Landsbankinn greiðir Kviku 28,6 milljarða króna í reiðufé fyrir félagið, en samkvæmt tilkynningu frá báðum aðilum miðast kaupverðið við efnahagsreikning TM í lok árs 2023. Endanleg greiðsla fyrir félagið er háð kaupverðsaðlögun á þeim degi sem bankinn tekur við rekstri félagsins. Áreiðanleikakönnun er nú lokið og er kaupsamningurinn með fyrirvörum um samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Umdeild viðskipti

Tilkynnt var um kaup Landsbankans á TM um miðjan mars sl. en söluferli TM hafði þá staðið yfir í nokkra mánuði. Kaupin vöktu þó athygli fyrir þær sakir að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þá fjármálaráðherra, mótmælti því opinberlega að ríkisbanki væri að kaupa tryggingarfélag í einkaeigu og sagði að hún myndi ekki samþykkja kaupin. Hún sagði þó að hægt væri að samþykkja kaupin með þeim fyrirvara að samhliða yrði ráðist í söluferli á Landsbankanum. Um það hefur ekki myndast pólitísk samstaða.

Bankasýsla ríkisins, sem hefur umsjón með fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins, tók undir og bar fyrir sig að stofnunin hefði ekki verið upplýst um fyrirhuguð kaup. Í kjölfarið urðu opinber átök á milli ráðherra og Bankasýslunnar annars vegar og stjórnenda og bankaráðs Landsbankans hins vegar. Í ljós kom að bankaráðið hafði ekki upplýst Bankasýsluna með fullnægjandi hætti um fyrirhuguð kaup. Auk þess var deilt um heimild bankaráðs til að ganga að kaupunum án samþykkis eigenda.

Bankaráði skipt út

Svo fór að öllu bankaráði Landsbankans var, samkvæmt ákvörðun Bankasýslunnar, skipt út á aðalfundi bankans undir lok apríl. Fundinum hafði áður verið frestað um mánuð.

Jón Þ. Sigurgeirsson, sem fram að því hafði starfað sem efnahagsráðgjafi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, tók þá við sem formaður bankaráðs. Hann segir í tilkynningu frá bankanum í gær að bankaráð hafi aflað lögfræðiálits þar sem fram komi niðurstaða um heimild þáverandi bankaráðs til að samþykkja gerð bindandi kauptilboðs í TM.

Ljóst er að ummæli og skoðanir ráðherra og forsvarsmanna Bankasýslunnar hafa engin áhrif haft á kaupferlið.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson