Aðalsteinn Gunnar Friðþjófsson fæddist 14. nóvember 1941. Hann lést 17. maí 2024.

Útför fór fram 30. maí 2024.

Elsku pabbi.

Það er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um þig, svo óraunverulegt að þú sért farinn. Það verður erfitt að koma heim og finna þig ekki í sófanum þínum, þar sem þér fannst svo gott að fá þér smákríu eða sitjandi við eldhúsgluggann þar sem þér leið svo vel með útsýni út á sjóinn enda sjómaður til tuga ára. Þér leið alltaf best heima í húsinu þínu sem þú byggðir sjálfur handa ykkur mömmu þá ungur maður, elsku pabbi, þú varst mjög heimakær og skildir ekki á seinni árum hvað fólk þyrfti endalaust að flækjast í ferðalög.

Handlaginn varstu pabbi minn, það var sama hvort þyrfti að smíða eitthvað, laga eða gera við heimilistæki, þú reddaðir því. Þú varst mikill dýravinur og verður skrítið fyrir Tinna þegar hann kemur til Óló og finna ekki Alla sinn sem gaf honum alltaf harðfisk, þeyttan rjóma og ýmislegt góðgæti undir borðið, hann var alltaf svo spenntur að fara til ykkar mömmu.

Elsku pabbi minn, þú varst maður fárra orða en þegar fólkið þitt kom saman, sem við vorum dugleg að gera, þá fórst þú alveg á flug, sagðir okkur frá prakkarastrikum og ýmsu sem þú brallaðir sem ungur drengur. Pabbi minn, takk fyrir allar sögurnar sem þú sagðir okkur úr þínu lífi sem drengur og ungur maður, það var svo gaman að heyra hvernig líf þitt var í þá daga, þú þurftir alveg að hafa fyrir því.

Síðustu vikurnar áður en þú kvaddir varstu á sjúkrahúsinu á Akureyri og er ég svo þakklát fyrir þann tíma því ég hafði tækifæri til að koma til þín á hverjum degi og oft tvisvar á dag, ég geymi þær dýrmætu samverustundir í hjarta mínu.

Takk fyrir að vera pabbi minn, þú varst svo mikil fyrirmynd, aldrei heyrði maður þig tala illa um aðra. Þú varst einstaklega geðgóður og þolinmóður og manneskju með eins mikið jafnaðargeð hef ég aldrei kynnst. Ég sá þig aldrei reiðast, ekki einu sinni smá pirraður.

Núna ertu kominn í sumarlandið til ömmu og afa og vina þinna sem ég veit að þú saknaðir.

Elsku yndislegi pabbi minn, við pössum mömmu fyrir þig.

Geymi þig í hjarta mínu.

Þín

Kristín.