Jökull Þorkelsson
Platan Sögur af landi eftir tónlistarmanninn Bubba Morthens var gefin út árið 1990, 12 árum fyrir fæðingardag minn. Þrátt fyrir það hefur hún nú í dágóðan tíma verið með mínum uppáhalds. Þegar ég fór að kynna mér Bubba greip hún mig strax. Platan var í miklu uppáhaldi hjá foreldrum mínum þegar þeir voru að kynnast og virðist ég hafa erft áhuga þeirra á plötunni.
Það er nóg af góðum lögum á plötunni enda hefur hún fest sig í sessi sem ein af þekktari plötum Bubba með lögum eins og Syneta og Stúlkan sem starir á hafið.
Uppáhaldslagið mitt er þó hvorugt þeirra. Fjólublátt flauel greip mig strax og hefur verið ofarlega á öllum Bubbalagalistum hjá mér síðan. Uppsetning lagsins er frábær. Texti lagsins er góður og það er einstaklega skemmtilegt að syngja með honum.
Einkum finnst mér síðasta viðlagið gott, ef viðlag má kalla. „Í myrkrinu augun þín æla ljósi, ísaköld birtan var hrímgrá. Þínar eigin hugsanir halda þér föstum og höggva þig niður aftan frá,“ er magnaður endir á annars viðburðaríku lagi. Bubbi hefur gefið út fullt af skemmtilegum lögum en ég er ekki frá því að þetta sé mitt uppáhalds.