Íslandsmeistarar FH-ingar fagna langþráðum Íslandsmeistaratitli í Mosfellsbænum í gærkvöldi eftir sigur á Aftureldingu í fjórða leik.
Íslandsmeistarar FH-ingar fagna langþráðum Íslandsmeistaratitli í Mosfellsbænum í gærkvöldi eftir sigur á Aftureldingu í fjórða leik. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH var glaður í bragði þegar hann ræddi við Morgunblaðið í gær, enda nýorðinn Íslandsmeistari í handbolta með FH-liðinu eftir sigur á Aftureldingu, 31:27, í fjórða leik liðanna í úrslitum á miðvikudagskvöld

Meistarar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH var glaður í bragði þegar hann ræddi við Morgunblaðið í gær, enda nýorðinn Íslandsmeistari í handbolta með FH-liðinu eftir sigur á Aftureldingu, 31:27, í fjórða leik liðanna í úrslitum á miðvikudagskvöld. FH vann einvígið 3:1.

„Þetta var geggjaður dagur. Við áttum frábæran leik, klárum þetta vel og svo hittum við stuðningsmennina uppi í Kaplakrika og fögnuðum langt fram á nótt. Þetta var frábær tilfinning og maður fann að þetta skipti félagið miklu máli.“

Ásbjörn var einnig í aðalhlutverki þegar FH varð meistari árið 2011, þá eftir 19 ára bið.

„Ég man vel eftir því. Þetta var orðið langþráð núna og í rauninni líka þá. Það skipti fólk miklu máli, rétt eins og nú. Móttökurnar sem við fengum uppi í Krika núna voru hins vegar í öðrum gæðaflokki.“

FH var deildarmeistari og var sterkasta lið landsins allt tímabilið.

„Við erum með vel samstilltan hóp og leikmenn á góðum aldri. Við erum með leikmenn sem eru 25-28 ára og svo erum við með unga og efnilega stráka líka sem eru í stórum hlutverkum. Samstaðan í hópnum er mjög góð. Það er rosaleg vinnusemi og menn leggja mikið á sig.

Það er margt við þetta lið sem gerir það að verkum að þér líður hrikalega vel á vellinum. Við erum góðir félagar en samt gerum við miklar kröfur hver til annars. Allt sem þarf að vera til staðar til þess að ná árangri er í þessum hópi,“ sagði Ásbjörn og hélt áfram:

„Aron gerir frábærlega eftir að hann jafnaði sig á nárameiðslunum og svo erum við með marga góða leikmenn og sumir fá ekki að spila eins mikið og þeir vilja. Það er mikil samkeppni en samt eru menn tilbúnir að ganga í hvaða hlutverk sem er.“

Gott að vera kominn í frí

Ásbjörn er orðinn 36 ára en á von á því að halda áfram með FH á næstu leiktíð.

„Mér finnst líklegt að ég haldi áfram. Nú ætla ég að njóta þess að hafa unnið þennan titil og aðeins slaka á. Það er samt mikið hungur í manni og ég tek örugglega eitt tímabil í viðbót.

Skrokkurinn er furðugóður. Mér leið vel í leikjunum við Aftureldingu og einnig fimmta leik á móti ÍBV þegar við spiluðum tvíframlengdan leik stuttu á undan. Ég er samt feginn að vera kominn í frí.“

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson