Ólöf Sigurjónsdóttir fæddist 4. febrúar 1931. Hún lést 11. maí 2024.

Ólöf var jarðsungin 17. maí 2024.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ólöf Sigurjónsdóttir, kær frænka mín, fæddist árið 1931, dóttir hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur frá Seljavöllum í Austur-Eyjafjallasveit og Sigurjóns Jónssonar úrsmiðs frá Tjörnum, Vestur-Eyjafjallahreppi. Hún var yngst fjögurra systkina ásamt tvíburasystur sinni Ásu, en elstur var Jón Ragnar og næstelst var Ágústa Kristín, þau eru öll látin.

Á unglingsárunum dvaldist Ólöf mörg sumur í Eyvindarhólum og á Seljavöllum. Eiginmaður hennar, Hákon Heimir lögfræðingur, lést fyrir nokkrum árum og þá bjuggu þau bæði á Hrafnistu í Reykjavík. Þau kynntust á Þjóðhátíð í Eyjum árið 1950. Ólöf og Hákon Heimir eignuðust tvær dætur, þær Sigrúnu Erlu ljóðskáld og tónlistarkennara og Huldu Margréti myndlistarkonu. Ólöf bjó áfram á Hrafnistu eftir lát manns síns og lést þar hinn 11. maí sl.

Ólöf var kunn meðal ættingja, vina og margra annarra fyrir mikla listræna hæfileika, verk sín og dugnað. Hún vann við skrifstofustörf lengst af starfsævi sinni, meðal annars hjá Trésmiðafélagi Reykjavíkur, og Heimir var lengi lögfræðingur Lífeyrissjóðs Sambands byggingarmanna.

Ég minnist þess enn frá miðjum 5. áratug síðustu aldar þegar voraði og sumarið gekk í garð, þá fögnuðum við sveitabörnin ævinlega ættingjum og vinum sem komu í heimsókn. Og fögnuðum ekki síst þeim unglingum og jafnöldrum úr frændgarðinum sem komu til að dvelja sumarlangt. Ég man vel hvað ég var stoltur þegar ég fékk að fylgja fallegu frænkunum mínum, systrunum úr Stórholti, inn í sundlaugina á Seljavöllum, sjálfur aðeins sjö ára en þær stálpaðir unglingar.

Löngu seinna þegar ég, sem þá bjó úti á landi, varð að dvelja við störf í Reykjavík um nokkurra vikna skeið buðu þau Ólöf og Heimir mér inn á heimili sitt og réttu mér meira að segja bíllykla að aukabíl sem þau áttu svo Eygló mín gæti haldið heimilisbílnum okkar. Fyrir þetta og fleira verð ég þeim ævinlega þakklátur.

Við Eygló vottum dætrum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Sigurður Óskarsson.