Á heldur þungbúnum rigningardegi í maí voru hjónin Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson heimsótt í garðinn sinn á Seltjarnarnesi. Jóhanna Bryndís starfar sem tannlæknir en hún lét nýlega af störfum sem formaður Tannlæknafélags Íslands. Ágúst Ólafur er fyrrverandi alþingismaður og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og hefur undanfarið unnið við kennslu við Háskóla Íslands auk þess sem hann starfar við ráðgjöf. Þá er Ágúst einnig í doktorsnámi í opinberri stjórnsýslu og situr nú í stjórn Dýraverndarsambands Íslands.
Finnst gaman að fylgjast með lífinu í kringum garðinn
Þegar gengið er inn í garðinn þeirra er garðhúsið á hægri hönd og stór heitur pottur á þá vinstri en við blasir grænt holt og engin hús þannig að tilfinningin er eins og að vera uppi í sveit þótt húsið sé á Seltjarnarnesi.
„Okkur finnst þetta yndislegt hús og staðsetningin frábær, við erum efst við Valhúsahæðina. Það eru einstök gæði að hafa Holtið, eins og innfæddir kalla Valhúsahæðina, alveg upp við garðinn okkar. Náttúran verður ekki mikið nær okkur en það,“ segir Ágúst og bætir við að fuglarnir syngi þar kvölds og morgna. „Okkur finnst gaman að sitja í garðinum eða á svölunum og fylgjast með mannlífinu og dýralífinu sem þar fer um. Þar sem holtið tekur beint við af garðinum virkar garðurinn því mun stærri en hann er í raun og veru.“
Suðurgarðarnir á Seltjarnarnesinu veðursælir
Þegar spurningin um veðrið og rokið á Nesinu er borin upp stendur ekki á svörum. „Það er mikil þjóðsaga að halda því fram að það sé alltaf rok úti á Nesi. Það er mjög auðvelt að finna logn, það er að segja ef maður leggst flatur niður á jörðina í einhverju húshorni. En að öllu gríni slepptu þá eru suðurgarðarnir hér afskaplega veðursælir og við erum heppin að þannig liggur okkar garður. Við getum meira að segja haft sólbekki sem haggast ekki, stóran hluta ársins. Okkur tekst jafnframt að borða í garðinum þegar þannig viðrar,“ segir Ágúst og bætir við: „Annars getum við einnig mælt með að hafa hitaljós úti en við erum með þannig á svölunum sem við nýtum okkur mikið. Að sitja úti árið um kring með góðan kaffibolla undir ullarteppi og heitu ljósi eru sérstök lífsgæði sem seint verða ofmetin.“
Segja vinnu í garðinum virka eins og heilun
Þau fluttu í húsið fyrir þremur árum og segjast hafa verið að dytta að bæði húsinu og garðinum síðan þá. Þau taka skýrt fram að þau séu engir sérfræðingar í garðrækt en séu að prófa sig áfram og læra. „Eins og allt miðaldra fólk þá erum við farin að uppgötva gildi þess að rækta garðinn sinn. Við höfum því verið að kynnast þessu skemmtilega verkefni sem er ræktun og garðvinna. Við erum búin að planta nokkrum trjám og blómum í garðinum en ræktunin fer helst fram í gróðurhúsinu. Að vinna í garðinum og að plöntum getur einnig virkað sem ákveðin heilun sem við bæði getum vel mælt með. Svo er líkamleg áreynsla, s.s. öflugur sláttur eða utanhússmálun, alltaf gulls ígildi.“
Rækta mikið af matjurtum í gróðurhúsinu
Þau segjast hafa verið að prófa sig áfram í ræktuninni og ekki síst matjurtaræktun. „Við höfum verið að prófa ýmsilegt, ekki síst í gróðurhúsinu. Nú eru það tómataplöntur, sítrónutré, rósir, vínberjaviður, hindberjatré, jarðarber og mandarínur sem eru mest áberandi. Svo erum við auðvitað að rækta basilíku, myntu, graslauk, kóríander, klettasalat og steinselju svo eitthvað sé nefnt og núna er þetta allt að byrja að taka við sér. Nánast á hverjum morgni er hlaupið út í hús og er mikill fögnuður við hverja græna sprettu sem finnst,“ segja þau og bæta við að Ágúst hafi fengið fallegt gullregn frá Jóhönnu í morgungjöf eftir brúðkaupið. „Við reynum við að hlúa mjög vel að því, rétt eins og að hjónabandinu. Annars sér hundurinn okkar hann Loki samviskulega um vökvun á trénu.“
Fengu hugmyndina að garðhúsinu út frá tjaldi sem þau reistu í eigin brúðkaupi
Gróðurhúsið setur mikinn svip á garðinn en í kringum það er stór pallur með grófum húsgögnum úr pallettum. En hvers vegna réðust þau í kaup á stóru garðhýsi? „Hugmyndin að því að fá okkur garðhýsi spratt upp þegar við héldum brúðkaupið okkar í garðinum en þá settum við upp gott veislutjald þar sem gestir dönsuðu fram á rauða nótt. Þá sáum við að á þessum stað væri góð hugmynd að hafa gróðurhús og var það risið ári seinna.“
Gæðastundirnar í garðhúsinu margar og dýrmætar
Þau segja gróðurhúsið mjög vel nýtt af öllum í fjölskyldunni hvort sem er af mannfólki eða dýrunum þeirra, hundinum og kettinum. „Svo býr reyndar ein lítil mús í gróðurhúsinu sem er alsæl með þessa viðbót við húsið. Krakkarnir okkar hafa einnig verið duglegir að fá vini sína þangað og þá fá þau og við gagnkvæman frið hvert frá öðru. Við höfum líka verið með ófá matarboðin og veislurnar í húsinu og við borðum í gróðurhúsinu allt árið um kring. Við erum búin að eiga margar gæðastundir þar, hvort sem er við spil eða spjall. Í gróðurhúsinu hefur verið haldin stúdentsveisla, jólaboð, nýársboð, sumarboð, bekkjarteiti, alls konar boð og trúnó-stundir,“ segja þau brosandi.
„Við erum með litla kamínu í húsinu sem setur verulega skemmtilegan tón í garðhúsið og það er síðan alger unun að fylgjast með snjókornunum falla á glerþakið á meðan eldurinn snarkar í kamínunni. Á sumrin lifnar síðan allt við enda myndast fljótt notalegur Miðjarðarhafshiti í húsinu og þarna inni er alltaf logn,“ segja þau kímin.