Skoðanakannanir fyrir forsetakjörið, sem fram fer á morgun, benda til afar spennandi og mögulega langrar kosninganætur um helgina. Í nýrri könnun Prósents fyrir Morgunblaðið eru þær Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Skoðanakannanir fyrir forsetakjörið, sem fram fer á morgun, benda til afar spennandi og mögulega langrar kosninganætur um helgina. Í nýrri könnun Prósents fyrir Morgunblaðið eru þær Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir efstar, en ekki er tölfræðilega marktækur munur á þeim.

Í könnun Maskínu, sem gerð var á sama tíma og birt var í gær, hefur fylgi Höllu Hrundar látið undan síga, en nafna hennar og Katrín eru hnífjafnar með talsvert forskot. Könnun Félagsvísindastofnunar, sem einnig birtist í gær, bendir hins vegar til þess að Katrín hafi tekið afgerandi forystu.

Spenna í loftinu

Allt bendir þetta til þess að forsetakjörið á morgun geti orðið hið tvísýnasta frá lýðveldisstofnun, jafnvel þannig að aðeins nokkur atkvæði skilji á milli sigurvegarans og næstu manna.

Spennan var enda nánast áþreifanleg í forsetakappræðum Morgunblaðsins og mbl.is, sem fram fóru milli fimm efstu manna í gær og eru öllum opnar á mbl.is. Allnokkur skoðanamunur forsetaframbjóðendanna kom þar fram, jafnvel þannig að nokkuð hvessti í salnum.

Þar var meðal annars rætt um hlutverk forseta, völd og áhrifavald. Sumir töldu það í nokkuð föstum skorðum, en aðrir töldu fátt forseta óviðkomandi um landsins gagn og nauðsynjar.

Kjósendur geta því einnig tekið afstöðu til stefnu frambjóðenda en ekki aðeins mannkosta þeirra.

Höf.: Andrés Magnússon