Örn Bjarnason yfirlæknir fæddist 20. júní 1934 á Ísafirði. Hann lést 16. maí 2024.

Foreldrar hans voru Bjarni Sigurðsson skrifstofumaður, síðar yfirdeildarstjóri hjá Pósti og síma, f. 18. desember 1906, d. 22. maí 1994, og kona hans Herdís Jónsdóttir húsfreyja, f. 13. október 1908, d. 26. maí 1979.

Örn kvæntist 25. desember 1958 Áslaugu Guðbrandsdóttur, f. 3. júní 1934. Eignuðust þau þrjú börn, þau eru: 1) Edda Björk, f. 1958 gift Guðmundi Jóhanni Olgeirssyni. Börn þeirra eru Íris Huld, f. 1979, Bjarni Davíð, f. 1983, og Jóhann Birkir, f. 1987. 2) Herdís Birna, f. 1963, d. 1997. Dóttir hennar er Arna Ösp, f. 1984. 3) Guðbrandur Örn, f. 1968. Maki hans er Björk Gísladóttir. Börn þeirra eru Gísli Örn, f. 1992, Birnir, f. 1996, og Melkorka, f. 2002. Barnabarnabörnin eru átta talsins.

Örn varð stúdent frá MA 1953, lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1963. Hann fékk almennt lækningaleyfi 1965 og varð viðurkenndur sérfræðingur í heimilislækningum og embættislækningum 1974. Hann lauk prófi í lýðheilsufræðum í Háskólanum í Bristol á Englandi 1973.

1965-1972 var hann aðstoðarlæknir á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, héraðslæknir í Vestmannaeyjum 1966-1974. Skólayfirlæknir frá 1974 og jafnframt sérfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hann var trúnaðarlæknir menntamálaráðuneytisins frá 1974 og ritstjóri Læknablaðsins frá 1976-1993. Hann var forstjóri Hollustuverndar ríkisins frá stofnun 1982 til 1987. Um skeið starfaði hann sem trúnaðarlæknir Ríkisendurskoðunar og einnig var hann yfirlæknir á dvalarheimili Sjálfsbjargar frá 1980-2000. Síðustu starfsárin starfaði hann sem trúnaðarlæknir Ríkisspítalanna. Örn var lektor í heimilislækningum í læknadeild HÍ og kenndi læknisfræðilega tölfræði og siðfræði læknisfræðinnar.

Örn gegndi fjölmörgum trúnaðar- og félagsstörfum á sínum ferli. Hann var formaður Stúdentafélags Háskóla Íslands og ritari Stúdentaráðs á námsárunum. Sat í stjórn Læknafélags Íslands, var formaður byggingarnefndar Sjúkrahúss Vestmannaeyja. Sat í íðorðanefnd læknafélaganna frá 1977, formaður frá 1984. Hann var formaður stjórnar Nýja hjúkrunarskólans. Í starfsnefnd Evrópuráðsins um lífsiðfræði (CDBI), í stjórn Samtaka heilbrigðisstétta, í stjórn siðfræðiráðs Læknafélags Íslands, í norrænu samstarfsnefndinni um flokkun sjúkdóma, skurðaðgerða og slysa, formaður stjórnar Rannsóknastofu í heilbrigðissögu. Hann var í ritstjórn Nordisk Medicin, og stjórnarmaður í Norræna heilsuháskólanum. Hann var fyrsti formaður Hjálparsveitar skáta í Vestmannaeyjum við stofnun sveitarinnar 1965.

Örn var gerður að heiðursfélaga í Læknafélagi Íslands 1993 og var árið 1997 veitt heiðursverðlaun Fræðafélags sænskra lækna fyrir rúmlega tveggja áratuga þrotlaust málverndarstarf á sviði læknisfræði á Íslandi.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þegar húmar að ævikvöldinu felst minning um mann ekki í titlum og afrekaskrám heldur þakklæti þeirra sem varðveita minninguna í hjarta sínu.

Mínar fyrstu minningar um pabba eru frá árunum í Vestmannaeyjum. Pabbi var alvörugefinn, oft brúnaþungur en hlýr faðmurinn aldrei langt undan. Á Heimaey var iðandi mannlíf á sjöunda áratugnum þegar við systkinin ólumst þar upp. Ekki bjuggu allir eyjaskeggjar við allsnægtir og kom fyrir að greiðslan fyrir læknisþjónustuna var í formi soðningar sem hékk á hurðarhúninum að morgni.

Pabbi lagði mikla áherslu á mátt menntar og mikilvægi þess að tala góða íslensku. Ambögur voru ekki liðnar og háttvísi var dyggð. Hann var prinsippmaður og samkvæmur sjálfum sér. Því var hægt að ganga að afstöðu hans vísri í flestum málum. Hann boðaði í ræðu og riti að heilbrigðisþjónusta væri ekki eins og hefðbundin vara sem gæti auðveldlega gengið kaupum og sölum. Félagsleg réttindi og fjármögnun heilbrigðisþjónustu yrðu að haldast í hendur í samfélagssáttmála þar sem tryggt væri að ekki væri gerður mannamunur á því hvaða þjónusta væri í boði óháð samfélagsstöðu hins sjúka. Á þann hátt var pabbi jafnaðarmaður en hann gerði sér jafnframt grein fyrir því að í læknisfræðinni, með hans eigin orðum, „getum við meira en við völdum“. Því þyrfti að forgangsraða heilbrigðisþjónustu á forsendum samfélagssáttmálans. Á þann hátt var pabbi íhaldsmaður. Pabbi var læknir að köllun og valdi alltaf þau verkefni sem mestu máli skiptu en ekki þau sem borguðu best. Framlag hans til fræðistarfa og málverndar á sviði læknisfræðinnar var allt ólaunað.

Pabbi leit ávallt á það sem forréttindi að fá að starfa sem læknir og lagði sig fram um að gera það sem rétt var en ekki það sem var auðvelt. Hann var afar vinnusamur og afkastamikill og féll honum sjaldan verk úr hendi. Vinnudagarnir voru iðulega langir. Á kvöldin sást yfirleitt grilla í pabba við stóra eikarskrifborðið á heimaskrifstofunni bak við stafla af bókum og handritum. Þegar að starfslokum kom á Landspítalanum varð lítil breyting á vinnusemi hans og þar til starfsþrekið brast á níræðisaldri var hann með fasta aðstöðu á Þjóðarbókhlöðunni þar sem hann stundaði fræðastörf daglega. Þrátt fyrir vinnusemina áttu börnin hans öll ávallt greiðan aðgang að honum. Á flestum myndum af pabba með barnabörnunum hélt hann á bók og var að lesa fyrir þau. Þau okkar sem þekktu pabba best geyma í hjarta sínu minningu um góðhjartaðan og heiðarlegan mann sem kom fram við alla sem jafningja, var alltaf tilbúinn til að rétta hjálparhönd og gerði sér far um að láta öllum líða vel.

„Ég hef lært að fólk mun gleyma því hvað þú hefur sagt,

fólk mun gleyma því hvað þú gerðir,

en fólk mun aldrei gleyma hvernig þú lést því líða.“

(Maya Angelou)

Þinn sonur,

Guðbrandur Örn.

Erni kynntist ég þegar sonur hans og ég felldum ung hugi saman. Mér var frá fyrstu kynnum tekið afar vel og fann ég fljótt að heimili Arnar og Áslaugar var griðastaður. Eftirtektarvert var að allir voru velkomnir á heimilið og allir jafnir. Örn og Áslaug sýndu öllum áhuga og var sá áhugi einlægur. Við Guðbrandur fengum að búa fyrst saman á efri hæðinni á heimili þeirra hjóna í Skipholtinu. Fljótlega fjölgaði í litlu fjölskyldunni og var þá gott að búa við stuðning tengdaforeldranna fyrstu mánuðina. En þegar kom að því að hefja okkar eigin búskap og kaupa völdum við íbúð í göngufæri.

Á meðan ég var í hjúkrunarnáminu leitaði ég oft til Arnar og bað hann um yfirlestur á ritgerðum eða öðrum verkefnum. Hann var afar bóngóður og nákvæmur yfirlesari. Gaf góð ráð og var hvetjandi kennari.

Örn var afar duglegur maður og féll sjaldan verk úr hendi. Þegar gesti bar að garði þá sat hann oftast við skriftir og fræðastörf á heimaskrifstofunni en gaf sér ávallt tíma til að spjalla. Mér fannst stórmerkilegt hve ötullega hann vann að því t.d. að þýða alþjóðlega tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-10) yfir á íslensku á stuttum tíma og á sama tíma vann hann einnig að íðorðasafni læknisfræðinnar ásamt fleiri fræðibókum. Hann brann fyrir að koma góðri þekkingu á framfæri. En hann var svo yfirvegaður og skipulagður að þessi mikla vinna truflaði lítið hans fjölskyldulíf. Honum var alltaf efst í huga velferð barna sinna og barnabarna. Mikið umhugað um líðan allra sem honum þótti vænt um.

Hann var duglegur að koma því áleiðis hve lestur góðra bóka væri mikilvægur og íslenskan var honum afar kær.

Örn var lífsglaður maður og traustur. Hann var oft kallaður höfðinginn af þeim sem sóttu hann heim fyrir einstaka gestrisni en fyrst og fremst muna börnin okkar eftir hlýjum faðmi góðs afa.

Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Björk Gísladóttir.

hinsta kveðja

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda sem unnast

fær aldregi

eilífð að skilið.

(Jónas Hallgrímsson)

Þín

Áslaug.