Baldur Þórhallsson
Baldur Þórhallsson
Á samtakamætti þjóðarinnar byggðum við okkar samfélag. Í dag kjósum við forseta hvers helsta hlutverk verður að treysta þá samstöðu.

Baldur Þórhallsson

Íslenska þjóðin kýs sér forseta í dag. Við erum mörg kölluð, en aðeins eitt verður útvalið.

Ég bauð mig fram vegna þess að ég vil taka sem virkastan þátt í að gera gott samfélag enn betra. Hér á Íslandi gengur okkur flest að sólu, við njótum sem þjóð bestu lífskjara sem þessi heimur býður upp á og við erum laus við vopnaskak og ófrið.

Samtakamáttur þjóðarinnar er sá drifkraftur sem hefur skilað okkur þessu góða samfélagi. En við erum líka fús að horfast í augu við að samfélagið er ekki fullkomið. Enn eru hópar sem fá ekki allra tækifæra notið. Nú eigum við að beisla samtakamáttinn og róa öllum árum að því markmiði að allir njóti þess til fulls að búa í samfélagi sem ber sig einungis saman við það besta í heimi.

Ég bauð mig fram því ég vil skila betra samfélagi til barna okkar og barnabarna. Ég vil að þau fái að þroskast í leik og starfi og að net samfélagsins grípi þau ef þau þurfa á að halda.

Ég bauð mig fram vegna þess að ég þekki kjör öryrkja á Íslandi og veit að þar getum við gert betur. Það á jafnt við um þau úrræði heilbrigðiskerfisins sem við bjóðum fólki með fatlanir og þann stuðning sem það á rétt á úr sameiginlegum sjóðum.

Þriðja ástæðan er sú að ég þekki örlög þeirra sem festast í viðjum fíknar og vil leggja mitt af mörkum til að þau eigi afturkvæmt til okkar hinna. Þau eiga að fá allan þann stuðning og öll þau úrræði sem best bjóðast.

Ég vil forseta sem getur, þorir og vill nýta kraft embættisins til þess að lyfta þessum málaflokkum upp.

Ég þekki kjör Íslendinga í borg og bæjum og ég þekki kjör þeirra okkar sem búa á landsbyggðinni. Við viljum tryggja öllum þátttöku í góðu samfélagi, hvar sem þau kjósa að búa.

Ég trúi því að samstaða þjóðarinnar sé okkar dýrmætasta auðlind. Frá landnámi hefur okkur vegnað best þegar við stóðum saman og allar framfarir byggðar á samheldni okkar. Grunnforsenda samstöðu þjóðar er að við upplifum það á eigin skinni að við séum raunverulega saman í þessu. Þar skiptir máli að forseti tali alltaf þjóðina upp sem eina heild, eitt menningarsvæði, eitt samgöngusvæði, eitt menntasvæði, eitt heilbrigðissvæði og eitt atvinnusvæði.

Samtakamátturinn getur tryggt hverju og einu okkar viðunandi þjónustu, mannsæmandi lífskjör og möguleika til framfara og nýsköpunar. Fátækt er óþolandi blettur á auðugu samfélagi og við eigum að kappkosta að útmá hann. Við getum það saman.

Ég þekki stöðu Íslands meðal þjóða og veit að Ísland getur látið til sín taka á alþjóðavettvangi. Í smæðinni felast tækifæri. Við stóðum með Eystrasaltsþjóðunum á örlagastund svo eftir var tekið. Við urðum fyrir 13 árum fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Palestínuríkis og í okkar fótspor fylgdu fjölmörg önnur. Sum þeirra á allra síðustu dögum. Í krafti smæðarinnar gátum við þetta.

Við eigum að vera samstiga frændþjóðum okkar á hinum Norðurlöndunum því saman njótum við virðingar sem sterk og friðsæl lýðræðisríki. Heimurinn hlustar á rödd okkar og heimurinn þarfnast sannarlega raddar lýðræðis, mannréttinda og friðar. Við getum það saman.

Ég þekki mannréttindabaráttu af eigin reynslu og ég veit að við verðum sífellt að standa vörð um þau réttindi sem hafa áunnist og megum aldrei gleyma því að mannréttindi eru ekki sjálfsögð, og þau eru afturkræf. Við þurfum ekki að leita langt til að finna dæmi þess að gengið sé á rétt kvenna eða minnihlutahópa.

28 ára gamall kom ég úr skápnum og upplifði það að missa réttindi sem ég hafði fram að því talið sjálfsögð. Við Felix börðumst fyrir því að fá að ala upp börnin okkar saman. Við börðumst fyrir því að fá að njóta sömu réttinda og fólk af gagnstæðu kyni í sambúð. Við börðumst fyrir því að fá að gifta okkur. Við börðumst fyrir því að fá að vera Baldur og Felix, hjón í Vesturbæ.

Við börðumst fyrir okkur. Nú býð ég þjóðinni að berjast fyrir hana.

Ef þú trúir því að við getum þetta saman, þá bið ég þig um þinn stuðning.

Höfundur er frambjóðandi til embættis forseta Íslands.

Höf.: Baldur Þórhallsson