Óskar Bjarni alsæll í sínu náttúrulega umhverfi.
Óskar Bjarni alsæll í sínu náttúrulega umhverfi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta fólk styður þig í blíðu og stríðu en ekki bara þegar þú ert Evrópumeistari.

Þegar Valur sigraði í Evrópubikar karla í handknattleik síðasta laugardag varð liðið fyrsta íslenska félagsliðið sem verður Evrópumeistari í boltagreinunum. Í brúnni stóð þjálfarinn Óskar Bjarni Óskarsson og þótti mörgum fara vel á því enda er Óskar einhver áhugasamasti og duglegasti félagsmaður í Val í seinni tíð.

Sex manna fjölskylda í Álfheimum hefur eytt ófáum stundum í Valsheimilinu. Óskar Bjarni, eiginkonan Arna Þórey Þorsteinsdóttir, og börnin fjögur Arnór Snær fæddur 2000, Benedikt Gunnar 2002, Katla Margrét 2007 og Laufey Helga 2009. Börnin hafa öll æft handknattleik í félaginu og sum aðrar greinar einnig. Arna Þórey hefur rétt eins og Óskar gengið í mörg störf í kringum íþróttastarfið hjá Val í gegnum árin.

„Þau eru öll gríðarlega harðir Valsarar en sú yngsta var með einhvern mótþróa til að byrja með. Hún fór í Þrótt í fótbolta sem var bara frábært því ég hef taugar til Þróttar. Hún virtist vera sú í fjölskyldunni sem hefði fengið nóg af því að þvælast í íþróttahúsum, en það stóð ekki lengi yfir og hún æfir með Val og er á trommum á leikjum eins og systkini hennar hafa gert,“ segir Óskar þegar Morgunblaðið ræðir við hann í Valsheimilinu eftir heimkomuna frá Grikklandi þar sem Valur hafði betur gegn Olympiacos samanlagt eftir tvo úrslitaleiki og mikla dramatík.

„Mér finnst þetta vera mikill sigur fyrir sjálfboðaliðana, stjórnarmenn og fólkið í Val. Þetta er ótrúlega duglegt fólk sem er að gefa vinnu sína og á mikið hrós skilið. Ég velti því mest fyrir mér þessa dagana enda voru sem dæmi 70 sjálfboðaliðar í heimaleiknum á móti Olympiacos. Ég er bara svo þakklátur þessu fólki svo ekki sé minnst á konuna mína sem hefur alltaf staðið með mér í þessu og börnunum okkar í þeirra iðkun. Hún er alveg mögnuð og er ekki minni keppnismanneskja því hún var sjálf þjálfari í fimleikum. Arna lifir og hrærist í þessu en einhverjir myndu segja að hún hafi verið með fimm unglinga í Val.“

Leikmennirnir í vinnu eða námi

Valsmenn njóta nú uppskerunnar þegar vertíðinni er lokið. „Viðbrögðin við Evrópumeistaratitlinum eru stórkostleg og minna mig svolítið á viðbrögðin eftir Ólympíuleikana 2008,“ segir Óskar en hann var aðstoðarlandsliðsþjálfari þegar Íslendingar unnu til silfurverðlauna í Peking 2008.

„Allir eru að heilsa manni og knúsa og manni er óskað til hamingju í matvörubúðinni sem er bara gaman. Líklega hafa allir verið Valsarar akkúrat þennan dag vegna handboltans á Íslandi og íþróttalífsins. Auk þess eru móttökur eins og í Höfða og á Bessastöðum á dagskrá. Fram undan er svo lokahóf Vals og maður kemst varla í að búa til nýtt lið fyrir næsta vetur því það er svo mikið að gera í fagnaðarlátunum,“ segir Óskar og glottir. Hann hefur starfað við þjálfun hjá Val í einhverri mynd frá því á framhaldsskólaaldri, fyrir utan dvöl í Noregi og Danmörku um tíma, og var áður í yngri flokkum félagsins í handbolta og fótbolta. Er hann með langtímasamning um að stýra Valsliðinu áfram?

„Jaaaa ég er nú alltaf með voða loðna samninga hjá Val,“ segir Óskar en hann hefur í raun verið starfsmaður hjá félaginu lengi. Mismunandi sé hins vegar hversu mikla þjálfun hann tekur að sér.

„Ég er í vinnu hérna en starfslýsingin fer oft eftir því hverju ég hef áhuga á og hvað handknattleiksdeildina vantar. Á liðnum vetri langaði mig í fyrsta skipti að einbeita mér að þjálfun meistaraflokksins og var þetta því í fyrsta skipti sem ég kom ekki nálægt þjálfun yngri flokka. Mér fannst það erfitt á köflum en ég fylgdist auðvitað með enda á ég dætur í 3. og 4. flokki. Í vetur spilaði meistaraflokkurinn marga leiki vegna velgengninnar í Evrópukeppni og ég skoðaði oft leiki á daginn og klippti til atvik fyrir leikmennina. Auk þess æfðum við á fimmtudögum og föstudögum klukkan 12 í hádeginu. Þetta glæsilega hús hér á Hlíðarenda var tekið í notkun árið 2007 eftir miklar breytingar en það er í raun sprungið vegna fjölda iðkenda í Val. Með því að æfa klukkan 12 tvo daga í viku náðum við að hjálpa mikið til við nýtingu á salnum.“

Þegar menn geta æft á miðjum dögum, og eru Evrópumeistarar, þá vaknar sú spurning hvort Valsliðið sé skilgreint sem atvinnumannalið?

„Nei, ég myndi aldrei skilgreina okkur sem atvinnumannalið en við höfum fengið spurningu sem þessa frá Handknattleikssambandi Evrópu. Allir leikmennirnir eru í boltanum með vinnu eða námi. Það mætti ef til vill kalla þetta hálfatvinnumennsku en tæplega þó. Í leikmannahópnum er lögfræðingur, rakari og pípari svo eitthvað sé nefnt. En það er alveg á hreinu að með tilkomu Valsmanna hf. og Hlíðarenda ses. hefur fylgt öryggi vegna þess að fólk getur treyst því að fá borgað fyrir sína vinnu. Það hefur hjálpað stjórnarmönnum og þjálfurum. En í handboltanum hef ég ekki trú á því að Valur borgi hærri laun en sum önnur félög gera og við höfum ramma utan um það sem farið er eftir.“

Fínt að vera á trommunum

Kristinn ljósmyndari mætir á svæðið til að mynda Evrópumeistarann í sínu náttúrulega umhverfi á Hlíðarenda. Kristinn hefur orð á því að sjálfur búi hann nærri og eigi dóttur í félaginu. Nefnir hann dótturina á nafn. „Jááá hún er snillingur og er bæði í handboltanum og körfunni. Árgangurinn hennar er mjög flottur,“ segir Óskar um leið. Líkast til er þetta lýsandi dæmi um Óskar Bjarna. Maður hefur á tilfinningunni að hann hafi einlægan áhuga á hverjum einasta einstaklingi sem gengur í Val.

Sá sem tekur viðtalið skrifaði um íþróttir fyrir blaðið í fjölda ára og minnist þess að hafa farið á knattspyrnuleik á Hlíðarenda þar sem Óskar Bjarni var kominn í gult vesti vegna þess að mann vantaði í gæslunni. Eitt sinn var fermingarveisla hjá frænku í veislusal í Valsheimilinu og frammi á gangi var Óskar Bjarni með spurningaleik í gangi fyrir ungar handboltastelpur. Hér eru bara örfá dæmi tínd til og er það gert vegna þess að sigursælir meistaraflokksþjálfarar gefa sér ekki endilega tíma til að sinna félaginu eða ungum iðkendum með þessum hætti. Óskar var stundum mættur á trommurnar með stuðningsmönnum á handbolta- eða körfuboltaleikjum Vals og þannig mætti lengi telja. Fyrir þessa fórnfýsi er Óskar þekktur í íþróttahreyfingunni og langt út fyrir raðir Vals. Hann gerir reyndar ekki mikið úr þessu með trommuleikinn.

„Málið er að mér finnst þægilegast að vera leikmaður eða þjálfari þegar Valur spilar mikilvæga leiki en finnst mjög erfitt að sitja bara í stúkunni. Þar af leiðandi er ágætt að vera á trommunum og hafa eitthvert verkefni þegar spennan er mest. Kannski skömmuðust börnin sín eitthvað þegar karlinn var að djöflast á trommunum en mér er alveg sama. En þar sem ég var aðstoðarþjálfari landsliðsins þá birtust gjarnan myndir af mér á trommunum í stúkunni, sjónvarpsmyndir eða ljósmyndir. Þá hætti ég þessu því þetta leit út eins og ég væri að gera þetta til að fá athygli.“

Hugsar um vegferðina

Þegar Óskar Bjarni ræðir um uppskeru þjálfarans þá horfir hann til allrar vegferðarinnar. Fyrir honum snýst málið ekki eingöngu um eitt keppnistímabil eða sigurinn í tiltekinni keppni. Hann veltir fyrir sér öllu því sem hann hefur lært í starfinu hvort sem það var í meðvindi eða mótvindi og bendir á að öll reynsla skili sér í betri þjálfara. Þjálfarar og leikmenn þurfi gjarnan að þjást áður en markmiðunum er náð. Það þýðir þó ekki að hann sé minni keppnismaður en aðrir nema síður sé en missir ekki sjónar á öðru sem skiptir ekki síður máli.

„Ég viðurkenni að mér fannst ég eiga þetta skilið þegar við fögnuðum sigri í Aþenu og ég velti því aðeins fyrir mér. Ef einhver þjálfari Vals ætti að ná þessum áfanga þá fannst mér vel við hæfi að það væri ég. Ekki vegna þess að ég sé endilega snjallasti þjálfari sem hefur stýrt Valsliðinu því margir hæfir menn hafa gert það og ég tók við góðu liði í fyrra. Heldur frekar vegna þess að ég hef verið lengi í félaginu, starfað með mörgum þjálfurum, stjórnarmönnum og sjálfboðaliðum. Þess vegna fannst mér fallegt fyrir Val að það væri ég sem væri með liðið á þessum tímapunkti með öllu þessu góða fólki. Sú tilfinning að ég hafi unnið fyrir þessu fór að kitla mig,“ segir Óskar og útskýrir hvers vegna talan 25 varð til þess að blása honum bjartsýni í brjóst.

„Á einhverjum tímapunkti í vetur áttaði ég mig á því að þetta væri 25. árið mitt í þjálfarateymi í meistaraflokkum Vals. 18 tímabil sem þjálfari og sjö sem aðstoðarþálfari. Þegar síðari leikurinn gegn Olympiacos var settur á 25. maí þá hugsaði ég með mér að nú væri komið að þessu. Auk þess vorum við 25 í rútunni á leiðinni í leikinn. Eftir mjög erfiðan leik þá leið mér bara vel þegar ljóst var að úrslitin myndu ráðast í vítakeppni. Það var furðuleg tilfinning. Ég fór að hugsa um alla þessa sögu og allt þetta fólk sem kom frá Íslandi til að hvetja okkur.“

Leiklistin situr enn á hakanum

Þjálfari karlaliðs Vals á undan Óskari Bjarna var Snorri Steinn Guðjónsson en Snorra bauðst landsliðsþjálfarastarf, sem hann þáði, fyrir ári eða svo.

„Í fyrstu var ég ekki alveg á því að taka aftur við meistaraflokki Vals. Ein hliðin á málinu var sú að þreytandi yrði fyrir Benna [son hans Benedikt Óskar sem var lykilmaður í Valsliðinu] að vera með pabba sinn yfir sér öllum stundum. Einnig fannst mér einhvern veginn eins og ég væri að verða of gamall fyrir starfið. Til dæmis í samanburði við þjálfara sem virðast hafa komið svo ferskir inn í fótboltanum eins og Óskar Hrafn Þorvaldsson og Arnar Gunnlaugsson. En þá rifjaðist upp að þeir eru fæddir 1973, rétt eins og ég, enda spilaði ég fótbolta á móti þeim í yngri flokkunum. Ég er því ekkert sérstaklega gamall þjálfari, ég er bara búinn að vera svo lengi í þessu,“ segir Óskar sem ætlaði sér ekki endilega að verða þjálfari því hann átti önnur áhugamál. Hann segist til að mynda hafa haft áhuga á leiklist á yngri árum og sótti um í Leiklistarskólanum. Vonandi fáum við einhvern tíma að sjá Óskar á sviði en hann segist hins vegar snemma hafa borið virðingu fyrir þjálfurum.

„Mér fannst þjálfarastarfið merkilegt strax í yngri flokkunum. Ég er þakklátur fyrir alla þjálfara sem ég hafði í tveimur íþróttagreinum og þeir skiptu sennilega meira máli en kennararnir í skólanum. Ég setti snemma mikla orku í þjálfunina eftir að hafa orðið fyrir meiðslum og hætti að spila sem frekar ungur leikmaður í meistaraflokki. Á þeim tíma var það nánast alltaf þannig að þjálfararnir í meistaraflokki höfðu áður verið leikmenn og helst landsliðsmenn. Sem ungum þjálfara bauðst mér að þjálfa á Selfossi og hjá HK en ég var alltaf sannfærður um að mér myndi einhvern tíma bjóðast að þjálfa meistaraflokk Vals ef ég stæði mig. Það var fast í mér að verða góður þjálfari hjá Val og mig langaði ekki mikið til að þjálfa hjá öðru félagi en ég viðurkenni að það er svolítið sérstakt,“ segir Óskar sem hefur á einhverjum tímapunkti verið þjálfari allra aldursflokka hjá strákum og stelpum í handknattleiksdeild Vals auk þess að hafa verið yfirþjálfari og íþróttafulltrúi.

Valsmenn þakklátir strætókerfinu

Óskar Bjarni ólst upp í Breiðholtinu og langaði til þess að fara í Þrótt en varð eitt af andlitum Vals. Valsmenn geta þakkað það lélegum strætósamgöngum.

„Ég fór fyrst í fótbolta í ÍR. Gísli bróðir minn var í Þrótti með Sigurði Sveinssyni og Páli Ólafssyni og þessir menn voru bara goð. Mig langaði því í Þrótt en það var svo erfitt að taka strætó úr Breiðholtinu í Vogana. Við hliðina á mér bjó Trausti Ágústsson og dró mig á æfingu hjá Val. Faðir hans Ágúst Ögmundsson hafði verið í „Mulningsvélinni“ svokölluðu hjá Val og maður vissi af því. Þegar ég kom á æfingu í Val komst ég að því að frændi minn Magnús Blöndal var að þjálfa hjá Val. Hann var mikill skátahöfðingi og hafði góð áhrif á marga í Val, þar á meðal mig. Systir mín Margrét var auk þess í fótbolta hjá Val og við þetta má bæta að Valdimar Grímsson er frændi minn,“ útskýrir Óskar en hann kom inn í sterkan flokk hjá Val þar sem fleiri en hann áttu eftir að gera garðinn frægan. Menn eins og Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson til að nefna þá þekktustu en úr varð þéttur hópur drengja undir handleiðslu Theodórs Guðfinnssonar sem hafa haldið góðu sambandi fram á þennan dag.

„Þessi félagsstörf hjá Val sem við höfum rætt koma að ég held frá Magnúsi Blöndal en hann hafði stofnað sumarbúðir á Borg að bandarískri fyrirmynd. Hann var mikill vinur allra hvort sem þeir voru í körfunni eða fótboltanum. Mér hefur fundist það ganga ágætlega hjá Val að tengja á milli deilda þannig að fólk styðji hvert annað. Á þessu ári hefur samgangurinn aldrei verið meiri að mínu mati. Ef aðrir í Val ná árangri þá ýtir það bara undir að við í handknattleiksdeildinni gerum hlutina betur og það hefur til að mynda verið geggjað að sjá körfuboltadeildina vaxa hjá okkur á undanförnum árum. Líklega ber ég mesta virðingu fyrir bekkjavinafélaginu svokallaða sem sér alla leiki hjá Val í öllum greinum. Þetta fólk styður þig í blíðu og stríðu en ekki bara þegar þú ert Evrópumeistari. Þessir einstaklingar snerta mann sem eru alltaf til staðar. Mér finnst að það eigi að vera rauði þráðurinn hjá Val að ganga í öll störf og vinna saman. Við Arna höfum bæði gert það og þannig vil ég að við ölum upp Valsara,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson.