Stokkhólmur Bjarni Benediktsson, Mette Frederiksen, Selenskí, Ulf Kristersson, Alexander Stubb og Jonas Gahr Støre.
Stokkhólmur Bjarni Benediktsson, Mette Frederiksen, Selenskí, Ulf Kristersson, Alexander Stubb og Jonas Gahr Støre. — AFP/Fredrik Sandberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiðtogar allra norrænu ríkjanna skrifuðu undir tvíhliða samning við Úkraínu um stuðning vegna innrásar Rússa í landið á fundi sem haldinn var í Stokkhólmi í gær. „Norðurlönd hafa á þessu ári skuldbundið sig til að styðja við bakið á Úkraínu um sem nemur sex milljörðum evra

Sviðsljós

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Leiðtogar allra norrænu ríkjanna skrifuðu undir tvíhliða samning við Úkraínu um stuðning vegna innrásar Rússa í landið á fundi sem haldinn var í Stokkhólmi í gær. „Norðurlönd hafa á þessu ári skuldbundið sig til að styðja við bakið á Úkraínu um sem nemur sex milljörðum evra. Fyrir hönd úkraínsku þjóðarinnar, takk,“ sagði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu við þetta tækifæri, en mikill viðbúnaður og öryggisgæsla var í Stokkhólmi vegna fundarins.

Forsætisráðherrar allra norrænu ríkjanna sátu fundinn sem stjórnað var af gestgjafanum Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía, en nýr forseti Finna, Alexander Stubb, var fulltrúi Finna. Rætt var um stuðning Norðurlanda við Úkraínu, um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í sumar og stöðuna á friðaráætlun Úkraínu sem verður rædd í friðarviðræðum í Sviss 15.-16. júní nk.

Eina landið án hers

„Við höldum því alltaf til haga að við erum ekki í sömu færum og önnur norræn ríki til að veita beinan slíkan [hernaðarlegan] stuðning, enda eina Norðurlandaþjóðin sem er ekki með her. En við reynum að hlusta á það sem mestu máli skiptir fyrir Úkraínumenn og studdum síðan nýlega frumkvæði Tékka við að útvega það sem mestu máli skiptir úkraínsku þjóðina og her hennar. Aðalumræðuefnið á fundi eins og þessum [er að] þau þurfa að hafa tæki og tól til að verjast innrásinni,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

Tímamótafundur í Sviss

„Þetta var líka tækifæri fyrir forsætisráðherra Norðurlandanna og forseta Finnlands til þess að eiga sameiginlegan fund með forseta Úkraínu og það var tækifæri til að deila upplýsingum um stöðu mála, ræða um friðarumleitanir Úkraínu sem við höfum stutt,“ segir Bjarni. „[Fundurinn í Sviss] verður tímamótafundur og stefnir í að um 100 ríki eða rúmlega það muni koma,“ segir Bjarni sem fer fyrir Íslands hönd. Þá hafi Ísland líka stutt það að fulltrúar frá Malaví og Síerra Leóne mæti á fundinn.

Íslenskt fjölmiðlafólk fékk ekki að spyrja spurninga á blaðamannafundinum í gær því að fulltrúi Íslands var floginn heim. Bjarni fór snemma af fundinum í gær til að ná flugi heim og geta verið við útskrift dóttur sinnar frá MR í dag.

Selenskí sagðist fagna þeirri ákvörðun Bandaríkjamanna, frá því á fimmtudag, að rýmka reglur um að Úkraína geti notað bandarísk vopn innan landamæra Rússlands í nágrenni borgarinnar Kharkív og sagði það vera skref fram á við. Þjóðverjar hafa einnig gefið út tilkynningu um að Úkraína geti notað þýsk vopn til að verja sig innan landamæra Rússlands og Olaf Scholz kanslari Þjóðverja sagði að það væri skýlaus réttur stjórnvalda í Kænugarði að verja sig og sá réttur væri varinn með alþjóðlegum lögum.

„Staða Pútíns er ekki eins hagstæð og hann sjálfur heldur fram, en hann getur enn beitt óbreytta borgara Úkraínu bæði í þorpum og borgum hörku með vopnum sínum. Rússland er með yfirburði í lofti. Við þurfum tækifæri til að eyða ógninni sem stafar af loftförum þeirra eins og við eyddum ógninni af flota þeirra,“ sagði Selenskí og vísaði þar til skorts Úkraínu á loftvarnarkerfum og ekki síst skorts á orrustuflugvélum. Sagði hann nýja samninga við Norðurlöndin til þess fallna að þjóna þessum markmiðum lands síns.

Ísland

Stuðningur 2024-2028

Í lok apríl var einróma samþykkt þingsályktunartillaga um langtímastuðning við Úkraínu árin 2024-2028 á Alþingi Íslendinga. Helstu áherslur stuðnings Íslendinga eru:

•Öflugt tvíhliða samstarf.

• Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.

• Stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu.

• Mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu.

• Stuðningur í viðhaldi grunnþjónustu meðan á átökum stendur og uppbyggingu eftir stríðsátökin.