Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún
Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún
Á Bessastöðum vil ég hafa virðulegan forseta sem er laus við öll skrípalæti.

Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún

Komandi forsetakosningar geta vart með öllu talist lýðræðislegar. Þetta segi ég vegna þess að niðurstöður skoðanakannananna beina atkvæðum fólks frá margri ágætismanneskjunni sem gæti gert landi og þjóð mikilsvert gagn í forsetastarfi og til þeirra þriggja til fjögurra sem helst sýnast eiga möguleika á því að ná kjöri.

Það er ljóst að það er Katrín Jakobsdóttir sem er frambjóðandi stjórnmálastéttarinnar á Íslandi. Alþingismenn og ráðherrar vita að hún sem forseti yrði þeim ekki til neinna vandræða – lög frá þeim rynnu í gegnum hendur hennar líkt og fiskur á færibandi. Verði hún forseti yrði víst ekki skortur á ýmiss konar ráðstefnuhaldi hér heima með tilheyrandi kostnaði sem við, hinn almenni skattgreiðandi, munum borga. Stækkandi hópur embættismanna í stjórnsýslunni mun og hugsa gott til glóðarinnar að fara á ýmsar ráðstefnur erlendis, sem engu skila, en væri í reynd skemmtiferð fyrir viðkomandi. Varðandi erlend samskipti, þá er mér ekki ljóst um hvað var verið að „makka“ í einkaviðræðum Katrínar og erlendra ráðamanna.

Undir forsæti Katrínar í ríkisstjórn hefur verið vegið að ýmsu sem íslenskt er; erlendar landbúnaðarafurðir hafa í auknum mæli verið fluttar inn í landið og stefnt er að eyðileggingu íslenska laxastofnsins með síauknu sjókvíaeldi erlendra fyrirtækja í íslenskum fjörðum.

Á Bessastöðum vil ég hafa virðulegan forseta sem er laus við öll skrípalæti, forseta sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir án íhlutunar stjórnmálaaflanna, forseta sem vill gæta fullveldis lands og þjóðar.

Bæði Halla Tómasdóttir og Halla Hrund koma vel fyrir, en ég vildi vita hvaða fólk það er sem þær eiga nánust samskipti við til að reyna að gera mér grein fyrir hvaða manngerðir búa í þeim.

Um Baldur Þórhallsson frá Ægissíðu vil ég segja þetta: Ég er honum lítið meira en málkunnugur en fólkið hans hefi ég þekkt frá barnsaldri. Foreldrar hans flokkast undir að vera mikið sóma- og afbragðsfólk, sem greiddi götu margra, ekki síst fólks sem þurfti aðstoðar við vegna aldurs og þverrandi heilsu. Og fari ég einum og tveimur ættliðum aftar þá var Ægissíðufólkið gáfað dugnaðar- og atorkufólk og hafa þeir eiginleikar komið fram meðal margra af ætt þeirri.

Fullveldi lands og þjóðar er mitt æðsta boðorð. Þótt ég viti ekki á þessari stundu hvort ég geti treyst Baldri þar til fulls, þá treysti ég honum í þeim efnum margfalt betur en Katrínu og vegur þar nokkuð þungt þekking Baldurs á sögu Íslands og á sögu erlendra þjóða, en slíkt virðist mér skorta hjá mörgum sem eru að reyna að vera stjórnmálamenn.

Varðandi úrslit komandi forsetakosninga ber að hafa í huga að nokkur hluti atkvæðisbærra manna er af erlendum uppruna. Vinni Katrín kosningarnar má ætla að atkvæði þess fólks skapi henni sigurinn.

Höfundur er fræðimaður og bókahöfundur.