Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon
Hún hefur í gegnum tíðina gengið fram með þeim hætti sem fulltrúi Íslands meðal annarra þjóðarleiðtoga að flest okkar hafa fyllst stolti og þakklæti.

Jakob Frímann Magnússon

Eftirsóknarverð störf á vegum hins opinbera eru jafnan auglýst og ráðning er ákvörðuð af fáum þar til bærum. Við val á forseta fá allir landsmenn að taka þátt í valinu: Benda í austur, benda í vestur og benda á þann sem þeim þykir bestur.

Þetta er flestum gleði- og tilhlökkunarefni. Samfélagið hefur að stórum hluta hverfst um forsetavalið undanfarnar vikur og mánuði. Spenna og eftirvænting gefur lífinu lit. Vissulega erum við heppin að eiga úr svo mörgum frambærilegum kostum að velja.

Sá sem þessar línur ritar vissi strax að einn frambjóðandi félli öðrum betur að hans smekk og lýsti þegar í aprílbyrjun opinberlega stuðningi við Katrínu Jakobsdóttur. Hún hefur allt til að bera sem prýða má einn forseta. Hún hefur í gegnum tíðina gengið fram með þeim hætti sem fulltrúi Íslands meðal annarra þjóðarleiðtoga að flest okkar hafa fyllst stolti og þakklæti. Þótt vissulega komi að þessu sinni margir vel hæfir til álita stendur mín upphaflega niðurstaða enn óhögguð: Ég treysti Katrínu Jakobsdóttur fullkomlega til að gegna embætti forseta Íslands og veiti henni atkvæði mitt óhikað.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins