Græna lambið Þess varð vart á Minni-Þverá í Fljótum, en það hvarf síðan.
Græna lambið Þess varð vart á Minni-Þverá í Fljótum, en það hvarf síðan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er alltaf að grúska í þjóðsögunum og þar fann ég þessar sögur af lömbum sem eru mjög sérkennileg, en það kemur til af því að pabbi þeirra er hulduhrútur. Þetta gerist stundum í sveitunum, að einhverjar ær hverfa á fengitímanum en koma þó til baka …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er alltaf að grúska í þjóðsögunum og þar fann ég þessar sögur af lömbum sem eru mjög sérkennileg, en það kemur til af því að pabbi þeirra er hulduhrútur. Þetta gerist stundum í sveitunum, að einhverjar ær hverfa á fengitímanum en koma þó til baka og svo þegar þær bera þá reynast lömbin mjög frábrugðin venjulegum lömbum. Í einni sögunni segir af því að ær í Hvammi í Fljótum hafi borið huldulambi sem var regnbogalitað, á öðrum bæ í Fljótunum, Minni-Þverá, birtist grænt lamb í kindahópnum, og þriðja lambið, sem kom í heiminn í Eskey í Hornafirði, var með óvenjubreiða snoppu og ónáttúrulega löng augnhár,“ segir Solveig Stjarna Thoroddsen, listakona og ljóðskáld, sem skapaði bókverkið Regnbogalömb úr þessum þremur sögum.

„Þetta var tilraunaverkefni hjá mér, ég bjó til tíu eintök eftir frumgerðinni til að sýna á bókverkamarkaði sem var í Reykjavík núna í maí. Ég myndlýsti hverja sögu með klippimyndum úr þrívíðu efni, þar er meðal annars ull, leðurpjatla, álpappír, svampur, tölur, gamalt prentverk, gallabuxnabót, þurrkaðar jurtir, blágresið blíða, og gerviaugnhár dóttur minnar í myndinni við söguna af lambinu með ónáttúrulega löngu augnhárin. Frumgerðina, bókina sjálfa, bjó ég til fyrir tveimur árum, þegar ég tók þátt í Hamraborgarfestivali í Kópavogi, en þar var ég með verk sem hét Litli gimbill lambið mitt. Í því verki fjallaði ég um allar þessar andstæður, mystísku áruna í kringum þjóðsögurnar og fallegu lömbin sem við setjum á stall, en svo er andstæðan sláturlömbin. Mér þykir vænt um dýr, en ég borða kjöt og ég fór eitt sinn að vinna í sláturhúsi. Ég hef snert á búskap þó ég sé alin upp í Reykjavík, ég var í sveit sem stelpa í Mýrdalnum og kom þar að sauðburði.“

Þráin eftir dýrleikanum

Lýsingin á skrautlegu huldulömbunum í þjóðsögunum tónar við huldufólkið sem er iðulega skrautlega klætt.

„Þetta er þrá eftir einhverjum dýrleika, á þeim tíma sem almúginn bjó við fátækt og einvörðungu sauðaliti. Svo eru alltaf einhver skilyrði með allt sem kemur frá huldufólkinu, til dæmis er eina leiðin til að geta haldið huldukindum þegar þær koma til manna að marka þær, en ekki má skera markið á þær með hníf, heldur skal bíta það með tönnunum í annað eyrað. Annars hverfur lambið. Ég hef alltaf verið hrifin af smá dulúð og langamma mín í Mýrdalnum átti huldukonu að vinkonu, hún talaði stundum við hana,“ segir Solveig og bætir við að þó svo þjóðsögurnar sem Jón Árnason skráði séu þekktastar, þá séu líka til sögur í öðrum bókum.

„Ég hef líka leitað fanga á vef sem heitir Sagnagrunnur, því þar er hægt að fletta upp sögum með leitarorðum. Í sögum af huldulömbum hefur ekki alltaf sést slíkt lamb heldur ummerki um það, kannski blá ull sem svo seinna var horfin. Allt mjög dularfullt og skemmtilegt. Við sjáum unnið úr þessum sögum af hulduhrútum og huldulömbum í íslensku verðlaunakvikmyndinni Dýrinu, frá 2021, í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar, en þar var handritshöfundur ásamt Valdimar skáldið Sjón. Þar segir frá hjónum, sauðfjárbændunum í afskekktum dal þar sem kind elur af sér dularfulla veru sem hjónin svo ala upp sem sitt eigið afkvæmi.“

Solveig segir að bókverkið hennar um regnbogalömbin hafi fengið afar góðar viðtökur á bókverkamarkaðinum.

„Þar var fjölbreyttur hópur fólks með bókverk og margir komu frá útlöndum til að taka þátt. Hvert bókverk er listaverk, en margt listafólk gerir bókverk samhliða öðrum verkum, rétt eins og ég sjálf er ljóðskáld og myndlistarkona.“

Um og upp úr aldamótunum 1800 bjó í Hvammi í Fljótunum bóndi að nafni Þorvaldur. Hann segir frá því að eitt sinn hafi horfið frá honum grákollótt ær um fengitímann og ekki komið til baka fyrr en að tveimur vikum liðnum. Tók bóndinn eftir því að ærin varð aldrei blæsma (eðlunarfús) þá um veturinn. Vorið eftir, um sauðburðartímann, er Þorvaldur á vappi um túnið að huga að kindunum og sér hann þá að grákollótta ærin er þar uppi við eitt útihúsið að bera. Hann stendur yfir henni á meðan og sér til undrunar sér hann að lambið hennar er alla vega litt; blátt, grænt, gult, rautt og með fleiri litum. Bóndi skundar þá heim að bæ til að sækja vinnukonu til að mjólka ána. En þegar þau koma til baka er lambið horfið. Þótti fólki auðséð af þessu að ærin hefði hitt hulduhrút um fengitímann þegar hún hvarf.

Endursagt eftir skrásetningu Jóns Árnasonar