Öldu-teymið: Ragnar Eðvar Kristinsson, scrummaster, Gísli Níls Einarsson framkvæmdastjóri, Stefán Björgvinsson tæknistjóri, Gunnar Rúnar Ólafsson, þróunarstjóri og Birgir Rafn Stefánsson, forritari.
Öldu-teymið: Ragnar Eðvar Kristinsson, scrummaster, Gísli Níls Einarsson framkvæmdastjóri, Stefán Björgvinsson tæknistjóri, Gunnar Rúnar Ólafsson, þróunarstjóri og Birgir Rafn Stefánsson, forritari. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á skömmum tíma hefur öryggishugbúnaður Öldunnar (www.stigaolduna.is) náð mikilli útbreiðslu í íslenskum sjávarútvegi og vonast Gísli Níls Einarsson til að lausnir fyrirtækisins geti aukið öryggi áhafna fiskveiðiskipa um allan heim

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Á skömmum tíma hefur öryggishugbúnaður Öldunnar (www.stigaolduna.is) náð mikilli útbreiðslu í íslenskum sjávarútvegi og vonast Gísli Níls Einarsson til að lausnir fyrirtækisins geti aukið öryggi áhafna fiskveiðiskipa um allan heim.

Gísli er framkvæmdastjóri Öldunnar en hann stofnaði reksturinn í félagi við Gunnar Rúnar Ólafsson sem í dag er slökkviliðsstjóri á Akureyri, en þeir höfðu þekkst um langt skeið – og báðir komið víða við – þegar hugmyndin að Öldunni kviknaði. Gísli starfaði m.a. um skeið hjá VÍS og sérhæfði sig þar í öryggismálum sjómanna og átti þátt í að koma á laggirnar árangursríku forvarnaverkefni í samvinnu við Slysavarnaskólann. „Það samstarf leiddi m.a. í ljós að skrásetning slysa og atvika um borð í skipum var öll á pappírsformi og vantaði betra skipulag, og úr varð að smíða hugbúnaðinn ATVIK-sjómenn sem heldur m.a. utan um bæði alvarleg og minniháttar slys, næstumslys og fjarveruslys,“ segir Gísli frá. „Um svipað leyti var Gunnar öryggisstjóri hjá Samherja og sá að skipulag öryggismála og æfinga var sömuleiðis á pappírsformi og vöntun á stafrænni lausn. Fyrir þremur árum kom hann að máli við mig og fæddist þá hugmyndin að Öldunni og stofnuðum við fyrirtæki í kringum verkefnið árið 2022.“

Aldan er umfangsmikið en jafnframt aðgengilegt öryggisstjórnunarkerfi fyrir skip og einfaldar allt skipulag og utanumhald. Við hönnun forritsins var þess gætt að kerfið uppfyllti öll ákvæði um öryggiskröfur í íslenskum skipum og að það félli einnig að alþjóðlegum öryggisstöðlum en Aldan inniheldur m.a. þjálfunar- og fræðslupakka og skapar skýran ramma utan um reglubundnar öryggisæfingar. „Forritið hönnuðum við í nánu samstarfi við bæði útgerðir og sjómenn og varð úr að búa til snjallsímaforrit með einföldu og skýru viðmóti, en forritun hófst sumarið 2022 og fyrstu notendaprófanir í febrúar 2023 og voru það skipverjar á Páli Jónssyni, sem Vísir í Grindavík gerir út, sem voru fyrstir til að taka Ölduna í sína þjónustu. Reynsla þeirra var svo góð að skömmu síðar bættust Skinney-Þinganes og Gjögur við, og þá Samherji, Síldarvinnslan, Vinnslustöðin, Nesfiskur og Þorbjörn, en samhliða innleiðingu Öldunnar höfum við hlustað á ábendingar og hugmyndir sjómanna og útgerðarfélaga og bætt hugbúnaðinn á ýmsa vegu. Nú hefur Brim bæst í hópinn og eru fleiri útgerðir á leiðinni.“

Ein vinsælasta virkni Öldunnar eru svokallaðar öræfingar en eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða stuttar öryggisæfingar sem Gísli segir að taki alla jafna um fimmtán mínútur fyrir skipverja að klára. „Það er skylda að framkvæma tilteknar æfingar og bútum við þær niður í smærri og viðráðanlegri einingar. Um leið erum við að gera öryggismálin að reglulegri hluta af vinnudeginum um borð og þannig hvetja áhafnarmeðlimi til að hafa hugann við öryggið og ræða öryggi og forvarnir sín á milli. Aldrei er of oft minnt á þá staðreynd að úti á rúmsjó eru aðrir áhafnarmeðlimir þeir einu sem geta komið til aðstoðar ef slys hendir eða ef eldur kemur upp og langt í að utanaðkomandi hjálp berist. Því varðar það alla heildina að hver einn og einasti meðlimur áhafnarinnar sé með öryggismálin á hreinu.“

Utanumhald og yfirsýn

Að nota Ölduna gæti ekki verið einfaldara og það fyrsta sem sjómaður þarf að gera er að hlaða forritinu inn á símann sinn. „Útgerðarfélagið stofnar síðan notendareikninginn og tengir notandann við það skip sem hann siglir með. Við þessa skráningu fær sjómaðurinn sjálfkrafa allar þær öryggisupplýsingar sem tengjast umræddu skipi og getur t.d. kynnt sér öryggisáætlunina um borð og notað forritið til að fara í gegnum nauðsynlega nýliðaþjálfun. Færi sjómaður sig á milli skipa eða á milli útgerðarfélaga þá einfaldlega uppfærist appið,“ segir Gísli.

Skipstjórnendur sem og öryggisstjórar í landi geta vaktað notkun forritsins og gengið úr skugga um að rétt sé staðið að þjálfun, æfingum og úttektum. Allir hafa góða yfirsýn yfir hvaða æfingum er lokið og hvaða verkefni eru fram undan, og forritið getur t.d. minnt stjórnendur á hvaða málum þarf að sinna í komandi túrum. Þá er í boði að tengja Ölduna við ATVIK-sjómenn og skrá þannig beint inn slys og næstumslys, sem og ábendingar um mögulega slysahættu.“

Til að bæta skrásetningu býður Aldan upp á þann möguleika að hlaða inn ljósmyndum sem teknar eru á æfingum og má þá sjá enn betur hvort rétt hafi verið staðið að öllum þáttum. „Gaman var að heyra af nýlegri heimsókn Landhelgisgæslunnar um borð í skip þar sem venju samkvæmt var gerð úttekt á hvernig öryggismálum væri sinnt um borð. Þegar skipstjórinn var spurður hvaða æfingar hefðu farið fram að undanförnu opnaði hann Ölduna í tölvunni sinni og gat bæði sýnt nákvæmlega stöðuna á æfingum og fræðslu þá stundina og myndir af nýlegri reykköfunaræfingu.“

Kerfið getur talað við samstarfsmenn í landi og segir Gísli t.d. hægt að stilla Ölduna þannig að stjórnendur fái sjálfkrafa tilkynningar um æfingar og atvik. „Þá er hægt að senda verkbeiðnir í land, s.s. ef í ljós kemur að þrýstingurinn er farinn af slökkvitæki. Rétta fólkið fær skilaboðin og getur þá haft nýtt slökkvitæki tilbúið strax og skipið leggst að bryggju.“

Þau gögn sem Aldan safnar frá öllum flotanum verða síðan rýnd af gervigreind ef ske kynni að mynstur komi í ljós. „Við erum að þróa svokallað vélnám þar sem kerfið fylgist með uppákomum og ábendingum og getur þá sent áhöfnum allra skipa ábendingar ef í ljós kemur tiltekin hætta eða vandi sem gæti t.d. varðað skip af ákveðinni gerð, og mun kerfið þá koma með tillögur að mótvægisaðgerðum.“

Með frítt forrit fyrir smábáta

Þegar ljóst var hve mikla framför notkun Öldunnar hafði í för með sér hjá stærri skipum kom ákall frá Siglingaráði um að aðlaga hugbúnaðinn að þörfum smábátaflotans. Útkoman er forritið Aggan og var verkefnið styrkt af Siglingaráði og Samgöngustofu í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda. Aggan er ókeypis og auðveldar smábátasjómönnum m.a. að framkvæma skoðanir á bátum sínum áður en haldið er af stað til veiða, sem og að gera einfalt áhættumat, fræðast um öryggismál og skrá uppkákomur í ATVIK-sjómenn. „Aggan er smærri í sniðum enda öryggismálin með öðrum hætti um borð í smábát en á stóru fiskveiðiskipi. Forritið leiðir t.d. notandann í gegnum mat á ástandi og öryggi bátsins, lið fyrir lið, því að mörgu þarf að huga í upphafi veiðitímabils hafi báturinn staðið óhreyfður um langt skeið. Fræðslan sem forritið býður upp á er almenns eðlis og fer t.d. yfir þann öryggisbúnað sem mikilvægast er að hafa um borð,“ útskýrir Gísli. „Einnig aðstoðar Aggan við lögbundna áhættustjórnun um borð, í samræmi við reglur Samgöngustofu.“