Rósa segir mjög gefandi að sinna safninu.
Rósa segir mjög gefandi að sinna safninu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fæ fyrirspurnir eins og: Mig vantar bók á arabísku fyrir 11 ára strák eða: Ég er með barn sem talar tékknesku en er ekkert óskaplega sleipt í móðurmálinu. Þá finn ég hentugar bækur.

Rósa Björg Jónsdóttir bókasafnsfræðingur er aðalræðismaður Ítalíu hér á landi með aðstöðu á Suðurlandsbraut 6. Skrifstofa hennar er einnig bókasafn Móðurmáls sem telur 8.500 bækur á 94 tungumálum, aðallega barnabækur. Safnið er opið frá 15-17 á föstudögum og einn til tvo laugardaga í hverjum mánuði. Bækurnar á safninu eru allar skráðar í Gegni, samskrá íslensku bókasafnanna.

Bókasafnið er hluti af Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, en er einnig sjálfstæð eining sem Rósa rekur í sjálfboðavinnu. Safnið byrjaði á sínum tíma í kjallaranum heima hjá Rósu. „Ég hafði búið á Ítalíu og börnin mín eru hálfítölsk þannig að það var mikið af ítölskum bókum, ekki síst barnabókum, á heimilinu. Ég bjó til lítið bókasafn sem samanstóð aðallega af ítölskum bókum og fólk gat komið þangað og fengið lánaðar bækur. Árið 2016 var ákveðið að stofna bókasafnið með fleiri tungumálum og þá bættust við móðurmálshóparnir hjá Móðurmáli, eins og sá tékkneski og spænski, og fóru að gefa bækur í safnið.

Þegar ég varð konsúll árið 2020 fann ég þetta húsnæði hér á Suðurlandsbraut og tók bókasafnið með og það hefur vaxið mjög mikið síðan. Ítalska er stór hluti af safninu, um 2.500 bækur, tékkneska er næststærsta tungumálið og spænskan það þriðja. Þegar Úkraínustríðið hófst var þetta eina bókasafnið á landinu sem átti bækur á úkraínsku fyrir börn, þær voru fjórtán en eru nú orðnar um hundrað.“

Mikil eftirspurn

Plássið er ekki mikið en hvert einasta horn er nýtt og ekki veitir af því fjölmargir nýta sér safnið. Hópar í móðurmálskennslu hjá Móðurmáli leita mikið þangað, önnur bókasöfn og sömuleiðis almenningur. „Ég fæ fyrirspurnir eins og: Mig vantar bók á arabísku fyrir 11 ára strák eða: Ég er með barn sem talar tékknesku en er ekkert óskaplega sleipt í móðurmálinu. Þá finn ég hentugar bækur. Ég er líka farin að millilána á skóla- og almenningssöfn bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Það er heilmikil eftispurn og heilmikil þörf.“

Safnið fær einn styrk, frá Reykjavíkurborg, og hann nægir til að borga gjöldin sem fylgja því að hafa bækurnar á skrá hjá Gegni. Lánþegar borgar 1.000 króna árgjald, önnur bókasöfn 2.500 kr. Aukaútgjöld lenda síðan á Rósu en hún kvartar ekki undan því.

Allir lásu Arnald

Mikið er um bókagjafir til safnsins. „Þegar börnin vaxa upp úr bókunum koma foreldarnir með þær hingað og gefa. Ég fæ líka bækur frá fólki sem er að ferðast, kaupir eina eða tvær bækur og færir mér. Börkur Gunnarsson keypti til dæmis bækur á úkraínsku þegar hann var í Úkraínu og kom með hingað að beiðni eins velunnara sem hefur verið dugleg að gefa okkur bækur.“

Bókin sem Rósa lánaði mest í fyrra er rússnesk þýðing á Þitt eigið ævintýri eftir Ævar Þór Benediktsson. Ævar Þór, Áslaug Jónsdóttir og Hildur Knútsdóttir eru meðal höfunda sem hafa gefið safninu bækur sínar í erlendum þýðingum. „Mér finnst mikilvægt að á safninu séu þýðingar á íslenskum bókum. Það hentar skólunum mjög vel því börn innflytjenda geta þá lesið þessar bækur á sínu móðurmáli á sama tíma og hin börnin lesa á íslensku,“ segir Rósa. „Fyrir tveimur árum hafði kennari samband við mig. Hugmyndin var að allir nemendur í bekknum skyldu lesa Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason. Einn nemandinn var arabískur og þar sem ég var með arabískt eintak af bókinni gat hann lesið bókina á sínu móðurmáli meðan hinir krakkarnir lásu hana á íslensku.

Ég hef einstaka sinnum fengið peningagjafir til að kaupa bækur, tvisvar til að kaupa bækur á úkraínsku. Sjálf kaupi ég bækur til dæmis á nytjamörkuðum í útlöndum. Í Hollandi, um páskana, fann ég bækur á rússnesku og ungversku, og í fyrra fann ég þar bækur á makedónsku.

Það bætist stöðugt við safnið en ég þarf líka að grisja reglulega, afskrái og gef. Ég er alltaf með gjafakörfu hér með ókeypis bókum. Ég held líka reglulega bókaskiptimarkaði þar sem ég gef bækur öllum sem hafa áhuga.“

Heiðruð fyrir störf sín

Árið 2021 fékk Rósa fálkaorðuna fyrir þetta sjálfboðastarf sitt. Hún hefur einnig fengið viðurkenningar frá IBBY, Upplýsingu og Siðmennt. Á þessu ári fékk Rósa stjörnuorðuna (fálkaorðu ítalska ríkisins) fyrir störf sín sem konsúll og fyrir bókasafnið. „Það fer mikill tími í að sinna safninu en það er mjög gefandi og börnin eru yndislega þakklát,“ segir Rósa.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir