Sundabraut Tafir vegna ágreinings.
Sundabraut Tafir vegna ágreinings. — Ljósmynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostnaður vegna Sundabrautar er orðinn 1.267 milljónir króna frá árinu 1998-2023, á verðlagi ársins 2023. Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins um framreiknaðan hönnunar- og undirbúningskostnað vegna Sundabrautar

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Kostnaður vegna Sundabrautar er orðinn 1.267 milljónir króna frá árinu 1998-2023, á verðlagi ársins 2023. Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins um framreiknaðan hönnunar- og undirbúningskostnað vegna Sundabrautar. Ekki liggur fyrir kostnaður Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna eða annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu.

Styttir leiðina um níu kílómetra

Undirbúningur Sundabrautar á sér langa sögu. Hugmyndin var fyrst sett fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 1975-1995. Það verður því hálf öld á næsta ári frá því að hugmyndin fæddist og aldarfjórðungur frá því að farið var að verja umtalsverðu fé í verkefnið. Sundabraut mun stytta leiðina frá Reykjavík til Kjalarness um 9 km. Lengd brautarinnar verður nálægt 10 km.

Hugmyndin til fyrir hálfri öld

Eftir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarness árið 1995 voru miklar væntingar um að ráðist yrði í Sundabraut og árin 1998-2000 var 351 milljón varið til verkefnisins. Þá var birt skýrsla um þrjár mismunandi leiðir yfir Elliðavog. Það var svokölluð landfyllingarleið sem Vegagerðin mælti með en hún lá frá Gufunesi með ströndinni og yfir á brúm innan við hafnarsvæðið upp Kleppsmýrarveg að Sæbraut. Önnur leið var botngöng frá Gufunesi með tengingu við Sæbraut milli Klepps og Holtagarða. Þriðja leiðin var jarðgöng frá Gufunesi með tengingu við Sæbraut í Laugarnesi.

Árin 2001-2009 var varið 671 milljón til verksins og hluti af þeim kostnaði var vegna mats á umhverfisáhrifum sem ekki kláruðust.

Á árunum 2018-2023 fóru 245 milljónir í kostnað og er hluti þess kostnaðar vegna nýs umhverfismats.

Ágreiningur ríkis og borgar

Þegar tímabilið og tölurnar eru skoðaðar vaknar spurningin hvers vegna ekki sé búið að hefja framkvæmdir og ljúka þeim. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, segir ástæðuna fyrir töfunum fyrst og fremst ágreining um leiðaval milli ríkis og borgar.

„Það var vinna við umhverfismat í gangi á árunum 2006-2008 en þeirri vinnu lauk ekki vegna ágreinings um leiðaval og verkefnið lá niðri í 10 ár. Nú er staðan sú að Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, hefur lagt fram matsáætlun vegna umhverfismats Sundabrautar um tvær mismunandi leiðir yfir Elliðavog og er niðurstöðu þeirrar vinnu að vænta í haust,“ segir Guðmundur Valur.

Höf.: Óskar Bergsson