Davos lítur sakleysislega út á þessari mynd en er að sumra mati lastabæli þar sem forríkt og spillt fólk hittist til að leggja á ráðin um heimsyfirráð.
Davos lítur sakleysislega út á þessari mynd en er að sumra mati lastabæli þar sem forríkt og spillt fólk hittist til að leggja á ráðin um heimsyfirráð. — Wikipedia/de: Benutzer: Flyout
Því hefur verið haldið fram að Katrín Jakobsdóttir, Halla Hrund Logadóttir og Halla Tómasdóttir séu allar á sinn hátt handbendi auðvaldsafla.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Í kosningabaráttu getur kastast í kekki milli fólks sem venjulegu kemur ljómandi vel saman. Ólíkar skoðanir geta þá orðið að miklu hitamáli og jafnvel skapað djúpa gjá milli fólks. En það er líka hægt að láta eins og ólíkar skoðanir skipti engu máli.

Á dögunum var pistlahöfundur í grennd við kosningaskrifstofu eins forsetaframbjóðandans og ákvað að heilsa upp á góðan kunningja, sem hefur verið innsti koppur í búri frambjóðandans. Um leið og gengið var inn blasti við hrúgað matarborð. Sú sem þetta skrifar kom auga á stafla af pönnukökum og fylltist samstundis græðgi. Pönnukökur með sykri eru einfaldlega mikið sælgæti. Eftir að hafa rekið upp lágt fagnaðaróp við að líta pönnukökuhrúguna augum var henni boðið að gjöra svo vel. Allt í einu leið henni eins og svikara því hún ætlaði ekki að kjósa þennan frambjóðanda heldur allt aðra manneskju sem hún vildi helst fá að kjósa fimm sinnum vegna þess að sú er svo frábær manneskja.

Miðað við að pistlahöfundur var á vissan hátt að sigla undir fölsku flaggi var hún ekki viss um að rétt væri að þiggja veitingar hjá keppinaut. Hún ákvað að vera heiðarleg, þótt hún væri óviss um að það myndi borga sig, og sagði afsakandi að hún væri ekki stuðningsmaður, þótt vissulega væri frambjóðandinn hinn vænsti maður. Hún væri bara komin til að hitta kunningja sinn sem væri í herráði hans. Viðbrögðin voru til fyrirmyndar, henni var sagt vingjarnlega að þótt hún væri ekki réttur kjósandi skyldi hún borða eins mikið af pönnukökum og hún gæti torgað. Hún lét það eftir sér, enda finnst henni afskaplega gaman að borða.

Svo settist hún niður með kunningjanum sem er ljómandi skemmtilegur maður, með ákveðnar skoðanir og býr yfir þeim mikla kosti að þola ekki vitleysisgang og rétttrúnað. Þess vegna er alltaf upplífgandi að tala við hann. Hann gerði enga athugasemd við aðdáunina á öðrum frambjóðanda en þeim sem hann trúir á. Þetta var því hin skemmtilegasta stund þar sem opinberaðist að stundum er alls enginn vandi að vera ósammála.

Það er hið besta mál að fólk sé ósammála en það er list að kunna það. Sjálfsagt finnst einhverjum kosningabaráttan fyrir þessar forsetakosningar hafa verið hressileg. Það er skoðun sem sú sem þetta skrifar deilir ekki. Henni hefur fundist kosningabaráttan fremur subbuleg, sérstaklega á lokasprettinum. Þar er ekki við alvöru forsetaframbjóðendurna að sakast en stuðningsmenn hafa á köflum farið offari í gagnrýni á frambjóðendur sem þeir óttast að geti skákað þeirra manni. Á netmiðlum hafa svo grasserað alls kyns einkennileg skrif, stundum mjög ofsafengin. Sem dæmi má nefna hefur því verið haldið fram að Katrín Jakobsdóttir, Halla Hrund Logadóttir og Halla Tómasdóttir séu allar á sinn hátt handbendi auðvaldsafla, sem hittast í Davos og vilja leggja undir sig heiminn og gera okkur hin að strengjabrúðum sínum. Maður skilur ekki alveg af hverju manneskjar kjósa að bulla á þennan hátt, en það hefur meðal annars verið gert í pistlum á netsíðu sem hlýtur að vera sú fáránlegasta og þvælukenndasta á landinu og nefnist frettin.is. Ef maður slysast til að fara á þá síðu þá uppgötvar maður hugsunarhátt og skoðanir sem maður hélt að fyrirfyndust ekki hér á landi. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt, stundum sitthvað óskemmtilegt.

Ýmislegt var svo skrýtið í þessari kosningabaráttu eins og þegar frambjóðendur með eitt til tvö prósent fylgi eða minna i skoðanakönnunum þóttust í viðtalsþáttum vera að tala í nafni þjóðar, sem hafði engan áhuga á þeim.

Nú er kosningabaráttunni lokið og því fylgir léttir því hún var ekki sérlega skemmtileg. Það er hið besta mál að halda með sínum manni, en óþarfi að steypa sér yfir þungavigtar frambjóðendur eins og ránfugl. Staðeyndin er sú að sumir áttu meira erindi í forsetaframboð en aðrir og áttu ekki skilið að fá yfir sig svívirðingaflaum og alls kyns viðbjóð.