Bryntröll Þýskir bryndrekahermenn taka stutt hlé frá æfingu NATO sem nú stendur yfir í Evrópu. Þar eru varnir æfðar gegn innrás úr austri.
Bryntröll Þýskir bryndrekahermenn taka stutt hlé frá æfingu NATO sem nú stendur yfir í Evrópu. Þar eru varnir æfðar gegn innrás úr austri. — AFP/Ronny Hartmann
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Fari svo að Úkraínuher beiti vopnakerfum frá Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn skotmörkum innan landamæra Rússlands gæti það leitt til vopnaðra átaka á milli rússneskra og vestrænna hersveita. Ómögulegt er að vita hvenær ekki verður lengur unnt að koma í veg fyrir bein átök. Þetta segir Dimitrí Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og núverandi varaformaður öryggisráðs landsins.

„Þetta er engin hernaðaraðstoð, þetta er þátttaka í hernaði gegn okkur,“ segir Medvedev og vísar til vopnasendinga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins til Úkraínuhers. „Og það getur auðveldlega orðið casus belli [stríðsástæða],“ bætir hann við. Segir hann NATO verða að gera sér grein fyrir því að Rússland mun ekki hika við að beita smærri kjarnavopnum, svokölluðum taktískum kjarnavopnum, á vígvöllum Úkraínu. Eins munu Rússar ekki hika við að beita stærri kjarnavopnum gegn Vesturlöndum komi til átaka á milli Rússlands og NATO.

Mega nota vestrænu vopnin

Bandaríkin og Þýskaland hafa nú gefið Úkraínuher leyfi til að beita vopnakerfum frá þeim til árása innan landamæra Rússlands. Nokkur aðildarríki NATO hafa þegar gert slíkt hið sama, s.s. Bretland og Frakkland. Fleiri aðildarríki NATO ræða nú að aflétta öllum takmörkunum. Leyfi Bandaríkjanna og Þýskalands er þó háð einu skilyrði – árásir á Rússland eru heimilar eingöngu til að verja Kharkív. Hernaðarsérfræðingar telja líklegt að full aflétting á takmörkunum gæti fylgt á næstu vikum. Veltur það helst á stöðunni á vígvellinum.

Úkraína geti enn unnið stríðið

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO segir Úkraínu vel geta lagt innrásarlið Rússlands. En til þess þurfi áframhaldandi stuðning Vesturlanda. Helsta von Kremlverja sé sundrung á Vesturlöndum og óeining innan Atlantshafsbandalagsins. Ekkert bendi þó til annars en að Vesturlönd muni halda stuðningi sínum áfram.

Auk vopnasendinga leggur Stoltenberg áherslu á stóraukinn fjárstuðning við Úkraínu næstu árin.