Ég mun að sjálfsögðu nýta minn kosningarétt en hef ákveðið að sá forseti sem nær kjöri, þótt ég hafi ekki kosið hann sjálf, verði minn forseti.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Ekki er lognmolla á landinu þessa dagana; nýtt eldgos og nýr forseti! Eldgos eru reyndar orðin jafnhversdagsleg og fullt tungl, eða svona hér um bil. Skrítið hvað allt venst við endurtekninguna. Það minnir mig á þegar ég fór í fyrsta sinn í safarí í Afríku. Þegar ég sá ljón í fyrsta sinn fór hjartað á fullt og spennan var í algleymingi. Daginn eftir sáum við fleiri ljón og svo enn fleiri og allt í einu var það nánast hversdagslegt.

En tölum aðeins um mál helgarinnar, því þegar þið opnið blaðið á sunnudag verður búið að velja sjöunda forseta lýðveldisins. Allir hinir sex hafa staðið sig vel, þótt ég muni nú ekki eftir öllum. Fyrsti forseti sem ég man eftir er reyndar Richard Nixon en ég bjó þá í Bandaríkjunum og fannst hann því vera minn forseti. Ég var reyndar bara sjö ára árið 1974 þegar hann sagði af sér og barnið skildi ekki alveg hvers vegna, en ég man að mér þótti það leiðinlegt. Heima á Fróni var þá Kristján Eldjárn forseti, sá mæti maður, og stuttu eftir að ég flyt heim til Íslands var brotið blað í sögunni þegar Vigdís Finnbogadóttir náði kjöri. Ég hafði auðvitað ekki kosningarétt en mikið þótti manni gaman að fá konu fyrir forseta, og svona líka hæfa, klára og flotta konu sem talaði reiprennandi frönsku í þokkabót. Í sextán ár stóð hún sína plikt, þjóðinni til sóma. Ég held hún verði alltaf minn uppáhalds forseti, hingað til að minnsta kosti.

Svakaleg spenna hefur verið í kosningabaráttunni, en þegar þið lesið þessar línur á sunnudagsmorgni, væntanlega eftir spennandi kosninganótt, er kominn nýr forseti. Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hver það verður, en miðað við skoðanakannanir er ekki ólíklegt að við fáum aftur konu á forsetastól, sem er vissulega fagnaðarefni. Ekki að kyn forseta skipti máli, en samt!

Margir hafa rætt og skrifað um skítkastið og heiftina sem hefur einkennt kosningabaráttuna í þetta sinn. Ekki man ég til þess að áður hafi verið lögð áhersla á að reyna að grafa upp allan þann skít sem hægt var um frambjóðendur og kjaftasögurnar fóru sannarlega á flug líka. Allt var skoðað ofan í kjölinn og sumt var ágætt að vita en annað sannarlega einkamál hvers og eins. Ég vona bara að heiftin dvíni þegar þjóðin hefur kosið sér nýjan þjóðhöfðingja og óánægjuraddirnar þagni.

Nýr forseti markar nefnilega nýtt upphaf og á að sameina þjóðina en ekki sundra. Ég mun að sjálfsögðu nýta minn kosningarétt en hef ákveðið að sá forseti sem nær kjöri, þótt ég hafi ekki kosið hann sjálf, verði minn forseti. Og efast ég ekkert um að hann verði okkur til sóma. Því segi ég bara eins og Silvía Nótt söng svo eftirminnilega um árið: Til hamingju Ísland!