Dansinn dunar á veitingastaðnum Broadway fyrir fjórum áratugum.
Dansinn dunar á veitingastaðnum Broadway fyrir fjórum áratugum. — Morgunblaðið/RAX
Skemmtanalífið í Reykjavík var tekið fyrir í Morgunblaðinu í byrjun júní 1984 undir fyrirsögninni: „Er leiðinlegt að skemmta sér?“ Tíðindamaður blaðsins fór á stúfana tvær helgar í röð og fór á tólf staði

Skemmtanalífið í Reykjavík var tekið fyrir í Morgunblaðinu í byrjun júní 1984 undir fyrirsögninni: „Er leiðinlegt að skemmta sér?“

Tíðindamaður blaðsins fór á stúfana tvær helgar í röð og fór á tólf staði.

„Áfengisneysla virðist svipuð á skemmtistöðum Reykjavíkur,“ sagði í úttektinni. „Iðulega eru einhverjir gestanna talsvert ölvaðir og jafnvel svo mikið að óþægilegt er fyrir aðra, sem hafa þá ýmist ekki neytt áfengis eða í hófi. Alls staðar verður troðningur upp úr miðnætti.“

Sérstaklega var vikið að reykingasvælunni, „því jafnan flytja gestir hana heim með sér svo mjög sem tóbakslykt loðir við fatnað. Það er í raun broslegt, að fólk fari í bað og klæðist sparifatnaði til þess að ná sér í sinn skammt af svælunni. Þá er það ekki heldur sjaldgæft, að gestir fái yfir sig áfengi náungans þegar mest gengur á.“

Niðurstaða úttektarinnar var að skemmtanalíf Reykjavíkur væri skrautlegt. Ekki væri hægt að segja að mönnum leiddist að skemmta sér, en þó fengju margir það ekki út úr skemmtistöðum borgarinnar sem þeir væru að leita að.