Á strandveiðum Sigurður Kristján Garðarsson á Herdísi SH 173 hefur verið á sjó í um hálfa öld. Hann fylgist með hátíðahöldum sjómannadagsins.
Á strandveiðum Sigurður Kristján Garðarsson á Herdísi SH 173 hefur verið á sjó í um hálfa öld. Hann fylgist með hátíðahöldum sjómannadagsins. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er bara í reiðileysi hérna á Breiðafirði, um 10 mílur norður af Ólafsvík,“ sagði Sigurður Kristján Garðarsson á Herdísi SH 173, tíu tonna báti sínum, þegar ofanritaður heyrði í honum á strandveiðum í vikunni

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Ég er bara í reiðileysi hérna á Breiðafirði, um 10 mílur norður af Ólafsvík,“ sagði Sigurður Kristján Garðarsson á Herdísi SH 173, tíu tonna báti sínum, þegar ofanritaður heyrði í honum á strandveiðum í vikunni. „Það er ekkert að hafa hérna.“

Sigurlín Sigurðardóttir og Garðar Þorfinnsson, foreldrar Sigga, eins og hann er kallaður, reru saman til sjós á Súgandafirði og seinna hélt Garðar áfram veiðum meðfram búskap á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi. Siggi byrjaði að fara út með föður sínum fyrir tæplega hálfri öld og hefur gert út eigin bát síðan 1994. Er nú með þriðju Herdísina. „Kallinn var alltaf með þetta nafn eftir ömmu sinni og ég tók það því upp.“

Árið eftir fermingu fór Siggi loks á sjóinn eftir að hafa þefað lengi af honum. „Ég var eitthvað að skottast í kringum kallinn og trilluna hans áður, en fór svo með honum og Erlingi Auðunssyni á Jódísi árið 1976. Þá voru þeir á salti og maður var nokkra daga úti í einu. Færeyingar voru á reki í kringum okkur og verst að hafa ekki verið með myndavél, því gaman hefði verið að eiga myndir af gömlu skútunum þeirra. Ég var með þeim í rúman mánuð en var þá hent í land því ég var svo sjóveikur. Kallinn hélt að hann myndi drepa mig úr næringarskorti. En það var ekkert hægt að sjóast í kringum þá. Þeir reyktu báðir og svo var mikil slagfýla í bátnum. Ég hélt að þetta væri búið en byrjaði aftur 1980 og hef verið í þessu síðan. Kann vel við víðáttuna og frelsið og hef nóg olnbogarými, en þegar ekkert veiðist getur maður dáið úr leiðindum.“

Dugguduggudugg

Siggi er með um 24 tonna þorskkvóta fyrir utan bland í poka og byrjaði auk þess á strandveiðum í fyrra. Hann var lengi á línuveiðum en hætti á þeim 2012. Lengst af hefur hann veitt kvótann á sumrin og þá gjarnan gert út frá Suðureyri. „Núna tók ég þorskkvótann áður en strandveiðarnar byrjuðu 2. maí,“ segir hann. „Ég byrjaði 8. febrúar eftir að fréttist af mikilli síld út af brotunum fimm mílum frá Ólafsvík. Hænsnahópurinn varð vitlaus og við fórum allir á flot. Ef einhver fær eitthvað verða allir vitlausir og þetta var mikið ævintýri í ágætis tíð, Þá var mikill fiskur inni í Breiðafirði og mikið fiskerí, allt annað en núna, þegar allur fiskur er kominn norður eftir. Hraðbátarnir geta farið þangað en ég hef ekki tíma til þess, er fjóra tíma á stíminu hvora leið og þá er lítill tími eftir til veiða þegar við megum bara vera 14 tíma í hverri ferð.“

Strandveiðarnar byrjuðu vel hjá Sigga en illa hefur gengið að undanförnu. „Fyrstu fjóra dagana var bingó í hverjum túr og ég náði 774 kílóunum sem má veiða á dag, en síðan hef ég ekki náð skammtinum. Síldin er farin og það er andskotans engin loðna hérna, en Vestfirðingarnir njóta góðs af stöðunni og þeir sem eru á hraðbátum héðan. Það er bara svona að vera dugguduggudugg.“

Til þessa hefur Siggi sinnt viðhaldi á veturna og tekið því rólega. Er til dæmis að gera upp gamlan trébát og er í viðbragðsstöðu hjá björgunarsveitinni, en slappar af um helgina og fylgist með hátíðarhöldum sjómannadagsins. „Það nægir mér alveg að róa bara á sumrin en auðvitað fer þetta eftir því hvað menn vilja hafa neysluna dýra.“